Bíladella Sigfríður Pálmarsdóttir fyrir framan Camaro árgerð 1987. Pabbi Sigfríðar keypti bílinn áður en hún fékk bílpróf.
Bíladella Sigfríður Pálmarsdóttir fyrir framan Camaro árgerð 1987. Pabbi Sigfríðar keypti bílinn áður en hún fékk bílpróf.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fornbílaklúbbur Íslands hefur lagt sig fram um að bjóða upp á dagskrá fyrir fjölskyldur félagsmanna. Árlegur kvennarúntur er einn af þeim viðburðum. Góður félagsskapur, athygli, fortíðarþrá og bíladella er meðal þess sem dregur bæði kynin að fornbílum.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Birgitta Lára Herbertsdóttir tók þátt í kvennarúntinum og ók rússajeppa árgerð 1969 með Ford Bronco-undirvagni. Bíllinn er í eigu föður hennar, Herberts Odds Pálssonar, og bræðra, Axels, Guðmundar og Símonar.

Birgitta Lára segir að það sé flóknara að keyra fornbíl en venjulegan bíl. „Þeir eru þyngri, virka allt öðruvísi og sumir eru með þrjá gíra.“ „Það eru hvorki vökvastýri né kraftbremsur í þessum bílum,“ skýtur Herbert Oddur inn í samtalið. Birgitta Lára segir að það sé stemning í hópnum á kvennarúntinum. „Það er töff að vera á rússajeppa.“ Faðirinn getur ekki stillt sig um að monta sig af dótturinni sem ökumanni. „Hún hefur ekki lent í neinu, þessi elska.“

Keppir í ralli

„Ég er algjör bíladellukerling,“ segir Sigríður Pálmarsdóttir, sem ekur gulum Camaro árgerð 1987. „Pabbi keypti bílinn fyrir mig áður en ég fékk bílpróf.“ Sigríður keppir í torfæruakstri, ralli, rallíkrossi og drifti. „Það eru ekki margar konur í akstursíþróttum en þeim fer fjölgandi. Þegar ég keppti fyrst í ralli voru þrjár konur meðal keppenda en tveimur árum seinna vorum við orðnar átta,“ segir akstursíþróttakonan Sigríður.

Hudson 1947

Einn af stofnfélögum fornbílaklúbbsins er Ársæll Árnason. Hann tekur enn þátt í starfinu og mætti með sonarsyni og tengdadóttur á kvennarúntinn.

Ársæll hefur aldrei átt annað en fornbíla. „Ég hef gert upp Oldsmobilinn minn, sem er árgerð 1956, fimm sinnum,“ segir Ársæll. Hann segir best að lýsa fornbílaáhuganum sem lífsstíl.

Við planið hjá Hreyfli-Bæjarleiðum í Fellsmúla stendur Hudson-bíll árgerð 1947. Ársæll gaf syni sínum Árna Páli bílinn í vöggugjöf. Árni Páll gaf svo syni sínum, Ársæli yngri, bílinn og hann bíður með óþreyju eftir að verða 17 ára og keyra hann. Ársæll yngri segir að Hudsoninn sé „skemmtilegur, mjúkur og þægilegur. Unglingum finnst gamlir bílar töff og það er mikið horft á fornbíla“, segir þessi ungi fornbílseigandi.

Skítug upp fyrir haus

Margrét Aðalsteinsdóttir, tengdadóttir Ársæls eldri, ók bifreið hans Oldsmobile árgerð 1956 á kvennarúntinum. Hún fór fyrst með tengdaföður sínum árið 2007, þá með æfingaleyfi. Margrét hefur tekið þátt í öllum kvennarúntum klúbbsins.

„Þú þarft að hafa gaman af því að vinna í bílnum. Ég kann ekki að gera við en hef áhuga á að læra það af Ársæli,“ segir Margrét og bætir við að hún hafi lúmkst gaman af því að vera skítug upp fyrir haus, fylgjast með og læra að gera við bílana. „Verðlaunin eru að fara út að keyra á góðum degi og ekki má gleyma félagsskapnum.“

Upplifir gamla tíma

Rúnar Sigurjónsson ók elsta bílnum á kvennarúntinum og fór því fyrir bílalestinni á Chevrolet Independence 5 w coupe árgerð 1931. Rúnar upplýsir blaðamann um að 5w standi fyrir fimm glugga en framrúðan, sem kallist windshield, sé ekki talin með. Coupe standi svo fyrir tvennra dyra bíl með bogadregnum afturenda. Rúnar hefur verið í klúbbnum í 25 ár.

„Ég á sex fornbíla. Það gerist oft að þetta áhugamál vindur upp á sig og margir eiga fleiri en einn bíl. Þetta þarf ekki að vera dýrt sport. Það er hægt að finna bíla sem er hagstætt að gera út, en það er líka hægt að gera út bíla sem eru dýrir og erfiðir í viðhaldi.“ Rúnar segir allt annað að keyra fornbíl en venjulega bíla. Í honum fái menn að upplifa aðeins gamla tímann þegar bíllinn var smíðaður. „Ástæðan fyrir því að ég á bíla af ýmsum árgöngum er sú að ég er mikill áhugamaður um samgöngusögu heimsins,“ segir Rúnar.