Sjósund Þrátt fyrir skólpmengun fyrr í júlí nýtur fólk sjósundsins.
Sjósund Þrátt fyrir skólpmengun fyrr í júlí nýtur fólk sjósundsins. — Morgunblaðið/Eggert
Urður Egilsdóttir urdur@mbl.is „Sundfólk treystir ekki mælingum eða finnst skorta eitthvað upp á sjarmann vitandi af skólpinu í næsta nágrenni.

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

„Sundfólk treystir ekki mælingum eða finnst skorta eitthvað upp á sjarmann vitandi af skólpinu í næsta nágrenni. Okkur hefði liðið betur ef það hefði strax verið upplýst að það væri verið að hleypa óhreinsuðu skólpi út og að sýni í Nauthólsvík væri í lagi. Upplýsingaleysi er aldrei gott og gerir fólk óöruggt þó að allt sé í raun í lagi,“ segir Ragnheiður Valgarðsdóttir, fyrrverandi formaður Sjósundsfélags Reykjavíkur, um skólpmengunina frá Faxaskjóli á dögunum og áhrif á sjósundsfólk í Nauthólsvík.

Gefin var út viðvörun um sjósund í Nauthólsvík vegna hárrar gerlatölu sem fannst í sýni sem Heilbrigðiseftirlitið tók. Stjórnvöld voru mikið gagnrýnd fyrir að upplýsa ekki strax um stöðuna en sem kunnugt er varð bilun í neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól. Tæplega milljón rúmmetrar af skólpi fóru í sjóinn á þeim 18 dögum sem bilað var.

„Það verður einhver æsingur þegar svona gerist, sem eðlilegt er. Aðsókn í Nauthólsvík minnkaði þessa daga og fólk fann sér aðra sundstaði fjær Faxaskjóli,“ segir Ragnheiður.

Líf gerla mjög stutt

Hún telur að skoða megi hvort ekki sé þörf á almennri fræðslu um skólp og áhrif þess í sjó.

„Ég hugsa að fáir viti að líf saurkólígerla í sjó er mjög stutt eða innan við tvær klukkustundir í sól, gerlar eru ekki að svamla heilu dagana um fjörðinn. Þessar skólphreinsistöðvar hafa auðvitað bætt aðstöðu sjósundsfólks og annarra til muna. Strendurnar eru mun hreinni og við njótum þess alla jafna,“ segir Ragnheiður og telur að þetta mál muni ekki hafa langtímaáhrif á sjósundsiðkun, fólk muni halda áfram að njóta sjósunds. „Ef þú ert einu sinni byrjaður að njóta sjósunds hættirðu ekki svo glatt.“