Fornbílar Kvennarúntur er einu sinni á ári hjá Fornbílaklúbbi Íslands. Konum sem keyra eða eiga fornbíla fjölgar.
Fornbílar Kvennarúntur er einu sinni á ári hjá Fornbílaklúbbi Íslands. Konum sem keyra eða eiga fornbíla fjölgar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Fornbílaklúbbur Íslands fór árlegan kvennarúnt miðvikudaginn 26. júlí. Klukkan 20.00 streymdu fornbílar í Hlíðasmára í Kópavogi. Glatt var á hjalla og eftirvænting í lofti.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Fornbílaklúbbur Íslands fór árlegan kvennarúnt miðvikudaginn 26. júlí. Klukkan 20.00 streymdu fornbílar í Hlíðasmára í Kópavogi. Glatt var á hjalla og eftirvænting í lofti. Hálftíma síðar fór lest rúmlega 20 bíla af stað og góður hluti ökumanna var konur. Bílalestin keyrði frá Kópavogi í gegnum Háaleitishverfið í Reykjavík og endaði í Skeifunni þar sem ökumenn og gestir fengu sér kaffi og með því; konurnar í boði klúbbsins en karlar máttu greiða fyrir sig sjálfir.

Kvennarúntur er hugmynd sem kviknaði innan fornbílaklúbbsins í því skyni að fá fjölskylduna meira með í starfið. Karlar eru í miklum meirihluta sem bílstjórar og eigendur fornbíla að sögn Þorgeirs Kjartanssonar, formanns Fornbílaklúbbs Íslands. Hann segir breytingu hafa orðið undanfarin ár og fleiri konur eigi nú og keyri fornbíla.

Konum finnst gaman að keyra

„Konum finnst gaman að keyra fornbíla, þær vilja taka þátt í því. Kvennarúnturinn hófst fyrir nokkuð mörgum árum og það hefur aukist að konur vilji keyra,“ segir Þorgeir. Hann segir að bílarnir geti verið þungir í akstri. Oft sé litið á þá sem dót karlanna sem geri það að verkum að færri konur keyri fornbíla.

„Þetta er allt á réttri leið. Nú er meira að segja komin kona í stjórn Fornbílaklúbbs Íslands. Við reynum að hafa starfið fjölskylduvænt. Öll fjölskyldan getur tekið þátt í landsmótinu okkar og það er passað upp á að eitthvað sé gert fyrir krakkana.“

Fornbílaklúbbur Íslands varð 40 ára 19. maí og var afmælinu fagnað með veglegum afmælisrúnti. Um 1.200 manns eru skráðir í klúbbinn.

Fornbílar eru hluti af menningararfi okkar segir Þorgeir. „Bílaöldin hófst ekki fyrr en í byrjun 19. aldar. Við erum að halda utan um söguna og varðveita hana.“ Hann segir fordóma hafa minnkað. „Þegar klúbburinn var stofnaður var hneykslast á þeim sem áttu fornbíla og þeir spurðir hvað þeir ætluðu að gera við þessar beyglur.“

Þorgeir segir að einhvers konar bíladella skemmi ekki fyrir aðild að klúbbnum. „Sumir hafa áhuga á sögunni en hafa hvorki tök né vilja til þess að eiga fornbíl. Þeir geta samt sem áður verið með.“

Þóra Þórarinsdóttir ók Camaro-bifreið árgerð 1967 á kvennarúntinum. Bifreiðin er í eigu eiginmannsins Gunnars Sigurjónssonar. „Ég fæ að keyra þennan þegar ég vil og það rifjar upp gamlar minningar,“ segir Þóra brosandi.