Að undanförnu hefur verið fjallað um þá staðreynd að mikilvæg menningarverðmæti í Skálholti liggi undir skemmdum og að knýjandi sé að bregðast fljótt við svo skaðinn verði ekki óafturkræfur.

Að undanförnu hefur verið fjallað um þá staðreynd að mikilvæg menningarverðmæti í Skálholti liggi undir skemmdum og að knýjandi sé að bregðast fljótt við svo skaðinn verði ekki óafturkræfur. Þar er einkum um að ræða steindu gluggana sem prýða Skálholtsdómkirkju en listamaðurinn að baki þeim var Gerður Helgadóttir. Hún var rétt ríflega tvítug að aldri þegar hún vann samkeppni um gluggaskreytingar í kirkjuna og er verk hennar fyrir löngu orðið klassískt og eitt það merkasta sem íslenska þjóðin hefur eignast. Fjallaði Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður með skemmtilegum hætti um gluggana í grein sem birtist hér í blaðinu 21. júlí síðastliðinn.

Þá liggur einnig fyrir að ráðast þarf í umfangsmiklar viðgerðir á mósaíkverki Nínu Tryggvadóttur sem þjónar sem altaristafla dómkirkjunnar. Verkið er gríðarlega áhrifamikið og lætur fáa ósnortna sem ganga inn kirkjugólfið í Skálholti. Áhrif verksins magnast enn frekar þegar gluggar Gerðar varpa sólarljósinu, marglitu og margbrotnu, á hina stórmerku Kristsmynd Nínu.

Vegna þeirrar bágu stöðu sem verkin eru nú í hefur Skálholtsfélagið, hið nýja, stofnað Verndarsjóð sem ætlað er að veita fé til viðgerðar á listaverkum kirkjunnar. Í viðtali við Jón Sigurðsson, formann sjóðsins, í Morgunblaðinu fyrr í þessum mánuði, kom fram að viðgerð á gluggum Gerðar kosti að minnsta kosti 70 milljónir króna. Er þá ótalinn sá mikli kostnaður sem mun hljótast af viðgerð altaristöflunnar.

Síðasta árið hafa safnast nokkrir fjármunir í sjóðinn og munu vilyrði fyrir alls 11 milljónum króna komin í hús. Því er ljóst að búið er að safna fyrir um 16% af viðgerðarkostnaðinum við gluggana. Þeir sem þekkja Jón Sigurðsson vita að hann er ekki verklaus maður og því er ljóst að miðað við árangurinn hingað til þarf að lyfta miklu grettistaki til að koma málinu í heila höfn og ósennilegt má telja að takast muni að safna 70 milljónum án aðkomu ríkissjóðs.

En það eru fleiri leiðir í boði. Hví ekki að taka gjald af þeim sem vilja skoða dómkirkjuna og dýrgripina sem þar er að finna? Hæglega mætti innheimta 500 króna aðgangseyri í kirkjuna (4 evrur eða 5 dollara) og tryggja um leið gott upplýsingaflæði til gesta um listaverkin, byggingasögu hennar, merka kirkjugripi og ekki síst steinkistu Páls biskups Jónssonar sem varðveitt er í kjallara kirkjunnar. Gjaldið væri skilgreint sem „framlag“ gesta til varðveislu þeirra menningargripa sem þarna eru varðveittir. Slíkt er gert víða um heim. Til dæmis greiðir fólk 18 evrur (jafngildi 2.200 króna) fyrir aðgang að Sagrada Familia kirkjunni í Barcelona og gjaldið einmitt skilgreint sem framlag til áframhaldandi uppbyggingar kirkjunnar. Af hverju ekki að fara leið sem virkar annars staðar? ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson

Höf.: Stefán Einar Stefánsson