Uppklædd Ljóðskáldið Meg Matich í fullum skrúða í Rauða skáldahúsinu.
Uppklædd Ljóðskáldið Meg Matich í fullum skrúða í Rauða skáldahúsinu. — Ljósmynd/Gísli Friðrik Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is „Hugmyndin að þessu kemur frá New York,“ segir Nanna Gunnars um hina svokölluðu „skáldavændishúsahreyfingu“ (e. poetry brothel).

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

„Hugmyndin að þessu kemur frá New York,“ segir Nanna Gunnars um hina svokölluðu „skáldavændishúsahreyfingu“ (e. poetry brothel). Ljóðakvöld hafa verið haldin í New York í húsakynnum sem látin eru líkjast frönskum vændishúsum þriðja áratugarins. Gestir geta svo greitt skáldunum fyrir einkalestur. Nanna og listviðburðahópurinn Huldufugl, í samstarfi við skáldið Mag Matich og Reykjavík Kabarett, standa fyrir slíkum viðburði í Iðnó í dag, laugardag. Viðburðurinn ber heitið „Rauða skáldahúsið“.

„Upphafskona þessara skáldavændishúsa heitir Stephanie Berger,“ segir Nanna. „Meg Matich, sem hefur tekið þátt í svona viðburðum í New York, átti hugmyndina að Rauða skáldahúsinu. Hún kom að máli við mig og spurði hvort ég væri til í að setja svona viðburð á laggirnar á Íslandi. Mér fannst þetta spennandi og skemmtileg hugmynd svo ég var alveg til í það.“

Gengið inn í annan heim

Nanna segir upphafsmenn viðburðanna hafa langað til að ná til nýrra áheyrenda. „Þeim fannst leiðinlegt hvað ljóðakvöld eru venjulega stíf og með það orðspor að vera leiðinleg, fyrir eldra fólk eða bara viðburðalaus. Þau vildu sameina þetta við leikhús, gera þetta meira spennandi og sleppa fram af sér beislinu. Vændishús hafa auðvitað ekki gott orð á sér en vændi og ljóðalestur eiga þó ýmislegt sameiginlegt: Bæði fást við ótrúlega nánar gjörðir sem kanna ást, fantasíur og duldar hliðar mannsins. Ég hef verið búsett í London og þar er mest áherslan á þessum viðburðum lögð á glansinn og glamúrinn, þennan Moulin Rouge-fíling, frekar en veruleika vændissölu, sem er auðvitað mjög ljót. Það er mest verið að einblína á það hvernig maður getur gengið inn í annan heim, klætt sig upp og skemmt sér.“

Viðburðurinn verður haldinn sama dag og Druslugangan er en Nanna segir það mestmegnis tilviljun. „Við reynum líka að hugsa þetta út frá femínísku sjónarhorni svo maður geti klætt sig upp án þess að vera „drusla.“ Hugmyndin um vændishús eru bara eitthvað sem fólk þekkir. Þegar maður kaupir sér einkalestur og fer í annað rými með ljóðskáldinu er maður náttúrlega í rosalega mikilli nánd sem felst í að lesa upp ljóð og kynna sínar innstu hugsanir fyrir einhverjum. Þótt við köllum þetta vændishús er ekki átt við neitt kynferðislegt. Þetta er engin kynlífssala en það er hægt að kaupa sér vitsmunalega nautn í stað líkamlegrar.“

Hugtök svipt vægi

„Við ætlum að kalla skáldin okkar druslur þetta kvöld en það er eiginlega gengið enn lengra í New York. Þar er talað um vændishús og skáldin eru kölluð hórur. Það er mikið verið að reyna að ögra fólki og viðburðirnir þar eru oft kynferðislegri, ætlaðir til að fá fólk til að upplifa allar hliðar ljóðanna, sem fjalla oft um miklar tilfinningar og frumstæðar hvatir. Okkur fannst það ekki ganga eins vel upp hér á Íslandi. „Hóra“ er rosalega ljótt orð á íslensku og með miklu neikvæðari tengingar en t.d. „brothel“ eða „bordello.“ Mér finnst maður komast upp með margt í New York sem maður myndi ekki komast upp með í Reykjavík – auðvitað vegna þess að hún er miklu stærri borg og jaðarsenan miklu stærri en hér, en líka vegna þess að fólkið þar notar blótsyrði meira í daglegu tali og er einhvern veginn ekki jafn viðkvæmt fyrir þeim. Við vorum í vandræðum með það hvernig við ættum að þýða þetta. Við ákváðum að þýða þetta sem Rauða skáldahúsið, en ekki Ljóðavændishúsið eða Skáldahóruhúsið eða eitthvað slíkt. Rauður er litur rómantíkur og ástríðu, en skírskotar á sama tíma í rauða hverfið. Það verða burlesque atriði og mikið um sokkabönd svo við segjum ekki alveg skilið við erótíkina. Við viljum ögra fólki smávegis en gestir koma fyrst og fremst á þennan viðburð til að upplifa öðruvísi heim og sjá nýjar nálganir á ljóðlist. Það er rétt að vera meðvitaður um upprunann að þessu en á sama tíma viljum við endurnýja hugtakið um gleðihús eða „salon,“ þar sem menntað fólk og listamenn hittust gjarnan til að spjalla og skapa. Við viljum búa til okkar eigið gleðihús þar sem áhorfendur skapa með okkur í gegnum söng, dans, ljóð- og líkamslist.“

Krækt í nýja aðdáendur

Viðburðurinn hefur einu sinni áður verið haldinn í Iðnó, í maí síðastliðnum. „Við skemmtum okkur mjög vel og gestirnir líka. Ég talaði við par sem hafði heyrt í okkur í útvarpinu og bókað miða um leið. Þeim fannst þetta alveg frábært og sögðust ætla að koma næst með tuttugu manns. Það var mjög vel tekið í þetta. Ég er að vona að við fáum nýjan aðdáendahóp fyrir ljóðalestur. Við reynum að vekja athygli á mörgum ungum og framúrskarandi skáldum ásamt nokkrum eldri og reyndari. Við erum alltaf með eitt aðalskáld, sem verður Kristín Eiríksdóttir í þetta sinn. Við erum alveg í skýjunum með það. Svo bætast í hópinn sjö skáld til viðbótar, bæði konur, karlar og óákveðnir. Það eru allir velkomnir.“

Rauða skáldahúsið verður opið í kvöld milli kl. 20 og 23. Skáldin ásamt Kristínu verða Meg Matich, Elías Knörr, Sólveig Stjarna Thoroddsen, Lommi, Ingunn Lára, Kailyn Phoenix og Þorvaldur S. Helgason.