[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is Björgvin Víglundsson, verkfræðingur og fv. starfsmaður hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, segir regluverk í byggingariðnaði á Íslandi orðið flóknara en annars staðar á Norðurlöndum.

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Björgvin Víglundsson, verkfræðingur og fv. starfsmaður hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, segir regluverk í byggingariðnaði á Íslandi orðið flóknara en annars staðar á Norðurlöndum. Hann hafi starfað sem byggingarverkfræðingur í Noregi og hafi því samanburð.

„Regluverk í Noregi er þannig að hönnuðir og framkvæmdaaðilar geta starfað án afskipta opinberra aðila,“ segir Björgvin sem telur afskiptin orðin of mikil á Íslandi.

Tilefnið er umfjöllun Morgunblaðsins að undanförnu um gagnrýni verktaka, arkitekta og iðnaðarmanna á störf byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Vilja ekki starfa í Reykjavík

Björgvin segir málin hafa verið gerð alltof flókin.

„Fyrir rúmri hálfri öld var í gildi reglugerð, byggingarsamþykkt Reykjavíkur, sem var ekki óskynsamleg. Síðan breyttist þetta til verri vegar. Það koma atvinnumenn í greinina sem vilja gera hlutina sífellt flóknari. Þessir menn virðast komast í lykilstöður. Þetta er sérstaklega erfitt í Reykjavík. Ég þekki arkitekta sem vilja ekki eiga við skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjavík,“ segir Björgvin, sem starfaði hjá byggingarfulltrúa á 9. áratugnum.

Lögin þyngdu róðurinn

Hann telur þó rétt að fara varlega í að gagnrýna embættismenn. Þeir beri enda aðeins hluta ábyrgðarinnar. „Ábyrgðin liggur hjá hinum kjörnu fulltrúum. Þetta á allt uppruna sinn í byggingarlögum sem Alþingi samþykkir. Alþingi framvísar síðan framkvæmdinni á lögunum yfir til ráðherra, þ.e.a.s. ráðuneytismanna. Svo eru smíðaðar byggingarreglugerðir út frá lögunum. Ég hef hvergi séð jafn flókið umhverfi og á Íslandi og hef þó kannað þetta á Norðurlöndum og víðar.

Þessi þróun hefur staðið yfir frá sjöunda áratugnum. Þá byrjaði ballið. Fyrir nokkrum árum komu svo lög um mannvirkjagerð sem þyngdu þetta enn frekar,“ segir Björgvin.

Umrædd lagasetning árið 2010 var umdeild. Meðal annars sögðu fulltrúar iðnaðarins hana hækka byggingarkostnað. Hefur síðan verið slakað á kröfunum. Björgvin telur að ganga þurfi miklu lengra í að breyta lögunum. Það sé orðið nauðsynlegt að fara í uppskurð á kerfinu. „Að einhverju leyti reyndi síðasta ríkisstjórn að andæfa. Það tókst þó ekki vel. Það kom hálfgerður krypplingur út úr því og að vissu leyti varð umhverfið jafn flókið. Það var búinn til lægsti samnefnari sem embættismenn gátu sannfært stjórnmálamenn um að væri í lagi. Byggingarkostnaður er óþarflega hár vegna þessa. Þótt kúrsinn hafi verið leiðréttur í einstaka sveitarfélögum er slíkt aðeins yfirborðsaðgerð. Nauðsynlegt er að búa til lagaramma sem er í takt við Norðurlönd, Þýskaland og Bretland. Það væri ágætur millileikur að taka norska lagarammann upp í heild sinni,“ segir Björgvin.

Ábyrgðin er gríðarleg

Hann segir Norðmenn vilja láta hlutina ganga hratt og vel. Þeir horfi til kostnaðarins við að byggja.

„Óhóflegt eftirlit tefur á öllum stigum. Það eru hins vegar góð dæmi um óháð eftirlit einkaaðila með byggingum. Seðlabankinn við Kalkofnsveg var til dæmis byggður undir óháðu eftirliti,“ segir Björgvin.

Björgvin bendir á að í Noregi sé gerð krafa um að verktakar hafi kunnáttu og reynslu. Óháðir eftirlitsaðilar beri síðan ábyrgð.

„Ég tel þetta skilvirkara eftirlit en opinbera eftirlitið. Ábyrgðin er gríðarleg. Ef sá sem sinnir óháðu eftirliti lendir í erfiðu tjóni getur hann ekki lengur starfað við eftirlitið. Það segir sig sjálft,“ segir Björgvin.