Kristjana Stella Árnadóttir fæddist í Reykjavík 24. maí 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 13. júlí 2017.

Foreldrar hennar voru Árni Ingvarsson, steinsmiður f. 31. janúar 1898 í Elliðakoti, Mosfellshreppi, d. 25. september 1965, og Jakobína Jónsdóttir, f. 16. október 1904 í Tumakoti, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 17. maí 1992. Börn þeirra hjóna voru: Jón Ingvar, f. 27. júlí 1924, d. 31. júlí 1957, Pétur, f. 6. maí 1927, d. 5. júlí 1988, Svavar, f. 27. maí 1928, d. 15. febrúar 1987, og Garðar, f. 6. janúar 1938. Árið 1961 giftist Stella Kristjáni Péturssyni byggingameistara, f. 4. febrúar 1921 í Selshjáleigu, Austur-Landeyjum, d. 18. mars 1997. Þeirra börn eru: 1) Guðrún Katla, f. 22. september 1961. Eiginmaður hennar er Gunnar Svanur Hjálmarsson, f. 30. apríl 1963. Dóttir þeirra er Kristjana Ósk, f. 28. febrúar 1983, og unnusti hennar er Gunnar Már Sveinsson, f. 20. júní 1985. Kristjana á einn dreng, Kristján Svan, f. 31. júlí 2006. 2) Brynjar, f. 11. janúar 1967. Kona hans er Kristín Bjartmarsdóttir, f. 10. janúar 1969. Börn þeirra eru Kristján Bjartur, f. 29. janúar 2007, og Tinna Bergdís, f. 8. febrúar 2014.

Kristjana, sem ætíð var kölluð Stella, ólst upp í Reykjavík. Hún lauk hefðbundnu grunnskólanámi og fór svo í stríðslok, einungis 18 ára gömul, til Bandaríkjanna. Hún stundaði þar nám í viðskiptafræðum og einnig vann hún sem þjónustustúlka á veitingahúsum í Asbury Park, New Jersey. Í Bandaríkjunum fékk hún berkla og lá á spítala í níu mánuði, þar prjónaði hún flíkur á heilbrigðisstarfsfólkið og var hún mjög vinsæl hjá þeim. Eftir þessa níu mánuði á spítalanum mátti hún koma heim til Íslands en varð að vera heima án allrar vinnu í heilt ár. Þegar heilsan kom á ný fékk hún vinnu á Keflavíkurflugvelli í PX-inu sem gjaldkeri og vann hún þar til fjölda ára. Árið 1961 giftist Stella Kristjáni Péturssyni byggingameistara. Um árabil sá Stella um skrifstofuhald fyrir fyrirtæki þeirra hjóna og var rekstur þess mjög farsæll þar til Kristján veiktist alvarlega. Stella annaðist eiginmann sinn í veikindum hans ásamt því að sinna heimili og börnum. Stella elskaði allt sem sneri að tísku. Hún var mikil hannyrðakona, prjónaði, saumaði föt og saumaði út bæði myndir og stóla. Tónlist var alltaf hennar líf og yndi og naut hún þess að hlusta á góða tónlist. Stella var mikill heimsborgari og hafði mikla unun af því að ferðast og þá aðallega erlendis en einnig hér innanlands. Árið 2016 komst hún inn á hjúkrunarheimilið Sóltún þar sem fór mjög vel um hana.

Útför Stellu fór fram í kyrrþey 24. júlí 2017.

Tengdamóðir mín, Kristjana Árnadóttir, ætíð kölluð Stella, var glæsileg kona. Hún var komin á áttræðisaldur þegar ég kynntist henni en í huga sínum var hún eflaust ekki degi eldri en fimmtug. Alltaf svo fín og flott samkvæmt nýjustu tísku, hárgreiðslan óaðfinnanleg og svo var hún tilbúin í ný ævintýri hvenær sem þau gáfust. Mestu máli skiptu þó hennar miklu mannkostir. Hún var svo undur hlý manneskja, kærleiksrík og alltaf tilbúin að hjálpa með allt það sem var á hennar valdi. Brosmild var hún og glaðvær, eldskörp og skemmtileg.

Hún var barngóð með eindæmum. Ég minnist þess að þegar ég var að kynnast Brynjari syni hennar þá sagði mér ein fyrrverandi skólasystir hans að hún myndi svo vel eftir mömmu hans, hún hefði verið svo einstaklega góð við þau öll krakkana. Og mikið varð Stella glöð þegar þrír strákar fæddust í fjölskyldunni á sex mánaða tímabili á árunum 2006-2007. Sonur okkar Brynjars, hann Kristján Bjartur, var einn þeirra og naut hann ástríkis ömmu Stellu. Engan vildi hann fremur fá til að passa sig en hana sem þolinmóð rétti honum bíla og kubba og með óendanlegri blíðu kenndi drengnum góða siði og fræddi hann um allt milli himins og jarðar.

Seinna var það ómetanlegt fyrir Kristján Bjart að geta skottast upp Safamýrina í heimsókn til ömmu Stellu. Fá að fara í skúffuna þar sem ýmislegt góðgæti var geymt og horfa á teiknimyndir á ótal rásum sem ekki voru í boði heima fyrir. Heim kominn þáði drengurinn aðeins banana í kvöldmat, móðurinni til nokkurrar mæðu enda vel vitað hvað skúffan innihélt. En til hvers eru svo sem ömmur ef ekki til að leiða og að lauma sætindum í litlar hendur barnabarnanna!

Fyrir tveimur árum bættist í hópinn lítil ömmustelpa, hún Tinna Bergdís. Stella var þá orðin heilsulítil og komin á Sóltún. Þær tvær náðu samt að kynnast vel og mikið sem Stellu leist vel á þessa litlu knáu stúlku sem kom ávallt hlaupandi til hennar. „Ertu komin, elskan,“ sagði Stella og andlitið ljómaði af brosi. Á Sóltúni var að sjálfsögðu búið að koma upp skúffu með góðgæti, „súkkubitum“, sem gott var að lauma í lítinn munn.

Stella var heimsborgari. Hún hafði ung að árum haldið til Bandaríkjanna til náms og naut þess æ síðar að ferðast, innanlands sem utan. Hún hafði unun af tónlist og naut þess að fara á tónleika og viðburði. Ég minnist ánægjulegrar stundar okkar Kristjáns Bjarts með henni á 80 ára afmælistónleikum Ragga Bjarna, ég var þar eflaust með bæði elsta og yngsta tónleikagestinn, Stellu 88 ára og drenginn minn átta ára. Bæði höfðu jafn gaman af!

Nú er Stella farin á brott til að kanna nýjar slóðir. Við fjölskyldan söknum góðrar ömmu, mömmu og tengdamömmu en minnumst allra góðu stundanna með þakklæti.

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða.

Og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

(Hannes Pétursson.)

Hafðu þökk fyrir allt,

Kristín Bjartmarsdóttir.

Elsku amma mín.

Hinn 13. júlí jókst í verndarenglahópnum mínum þegar þú sofnaðir. Það sem yljar mér um hjartarætur er að þú og afi eruð loksins saman á ný.

Það verður skrýtið líf án þín en það er svo margt sem þú hefur skilið eftir í minningunum mínum að ég tel það ómögulegt að ég muni nokkurn tíma gleyma þér. Það sem ég man mest eftir er öll hjálpin sem þú veittir öðrum, hvernig allt annað gat beðið ef einhver bað þig um hjálp. Það sem ég mun alltaf muna eftir líka er þegar fólk kom í heimsókn, til þín og afa, er hversu mikið var til af öllu og aldrei var ég send inn í herbergi eða sagt að þegja. Ég mátti dansa, syngja og tala út í eitt við gestina ykkar afa og hvorugt ykkar sagði orð.

Ég gleymi heldur aldrei hversu yfirnáttúrulega góð þú varst alltaf, það var ekki til neitt annað í þér en góðmennskan. Enn þann dag í dag man ég ekki eftir að hafa heyrt þig tala illa um nokkurn mann alveg sama hvað sú manneskja hafði gert þér eða öðrum þá tæklaðir þú hlutina með góðmennskunni.

Mínir bestu tímar á ævinni er að hafa fengið að búa hjá ykkur afa í svona mörg ár. Hvernig heimilinu var umturnað til að mér liði betur, leikfangaaðstaða undir stiganum, mitt eigið herbergi og minn eigin staður í sófanum í stofunni. Mér þótti langskemmtilegast að hjálpa þér með heimilisstörfin, þvo þvotta, strauja allan þvottinn, þrífa, ganga frá, ryksjúga og svo mætti lengi halda áfram. Í mörg ár langaði mig að vera húsfrú og hugsa um börnin mín, heimilið og hjálpa öðrum þegar ég yrði stór, alveg eins og þú gerðir en tímarnir buðu ekki upp á það.

Appelsínuguli stóllinn og kollurinn, þú veist hvað ég er að tala um. Það muna ekki margir eftir honum en þegar fréttatíminn byrjar man ég alltaf eftir honum og hvernig við gátum setið þar saman svo lengi, þú í stólnum og ég lá á kollinum með höfuðið í kjöltunni á þér. Þar kviknaði áhuginn minn á snyrtifræðinni þegar þú gafst mér andlitsnudd og fræddir mig um mikilvægi þess að hugsa vel um húðina sína enda vissi amma allt. Við gátum eytt endalausum tímum saman inni í eldhúsi að spjalla, teikna eða lakka á okkur neglurnar og eini liturinn í boði var bleikur og hvorug okkar kvartaði. Ég held að uppáhaldsliturinn minn komi frá þér.

Ég er svo ánægð að þú fékkst að kynnast syni mínum og að hann fékk að kynnast þér. Ég gleymi því aldrei hversu ánægð og stolt þú varst þegar ég sagði þér hvað hann ætti að heita og það var alveg sama hversu mikið þú þoldir ekki myndavélar en þegar þú hélst á honum mátti ég taka eins margar myndir og ég vildi.

Það er eins og ég sagði. Lífið verður ekki eins án þín en það er svo margt sem ég mun halda í hjarta mér svo lengi sem ég lifi. Það sem er efst í huga mér er það sem þú sagðir mér í síðasta skipti sem ég kvaddi þig:„Hugsaðu vel um hann og hann mun hugsa vel um þig.“ Ég mun standa við þau orð allt mitt líf. Ég elska þig, amma, og mun alltaf gera það.

Kristjana Ósk.

Kæra langamma mín.

Þú ert búin að vera sú flottasta kona sem ég hef séð.

Mér líður vel að vita af þér hjá fjölskyldunni þinni á himninum.

Mér fannst alltaf langbest að þú áttir alltaf eitthvert gotterí handa mér og frænda mínum, í skúffunni heima hjá þér.

Þú varst mjög góð við mig og frænda minn.

Mér þótti svo gaman að vera með frænda mínum að hjálpa þér að flytja dótið þitt upp á Sóltún.

Lagði ég af stað í það langa ferðalag

ég áfram gekk í villu eirðarlaus

Hugsaði ekki um neitt, ekki fram á næsta dag

Einveru og friðsemdina kaus

Ég á líf, ég á líf

yfir erfiðleika svíf

Ég á líf, ég á líf vegna þín

Þegar móti mér blæs

yfir fjöllin há ég klíf

Ég á líf, ég á líf, ég á líf

(Pétur Örn Guðmundsson.)

Ég elska þig, Stella amma mín.

Þitt langömmubarn

Kristján Svanur.

Það er milt veður og hásumar þegar elskuleg frænka mín kveður.

Sumarið var uppáhaldsárstíð frænku minnar. Hún naut blíðunnar og það þurfti einungis að birta sólarspá þá varð hún útitekin.

Stella frænka var mannvinur og mátti ekkert aumt sjá. Hjálpsemi var henni í blóð borin.

Ég gat alltaf leitað til hennar. Hún gaf endalaust af tíma sínum. Hlustaði og gaf ráð.

Ég var alin upp af langömmu minni sem var móðir frænku minnar. Í æsku minni var ég vitni af því hve gott og náið samband mæðgnanna var. Stella sinnti ekki einungis móður sinni af kostgæfni heldur gætti ætíð að velferð minni.

Á mikilvægum tímamótum í lífi mínu var Stella frænka mér við hlið. Ég minnist því Stellu minnar einungis með hlýju og þakklæti.

Ég er innilega þakklát börnum hennar að leyfa mér að sitja hjá henni síðustu stundir hennar.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem.)

Elsku Stella mín, þakka þér fyrir að vera ljós í lífi mínu.

Þín

Hulda.