[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Urður Egilsdóttir urdur@mbl.is „Þetta er auðvitað ekkert sem kemur á óvart.

Baksvið

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

„Þetta er auðvitað ekkert sem kemur á óvart. Þetta hefur verið þróunin og við höfum bent á þetta lengi,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, en Hagstofan birti í gær tölur sem sýna að meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. „Ungu kennararnir okkar endast oft ekki lengi í starfi, þeir koma og eru farnir snemma. Það er að kvarnast úr hópnum en á sama tíma fjölgar leiðbeinendum,“ segir Ólafur en samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur ýmsum stuðningsaðilum nemenda fjölgað verulega. Þroskaþjálfum hefur fjölgað hlutfallslega mest, eða um 559%, úr 29 í 191 haustið 2016. Stuðnings- og uppeldisfulltrúum hefur fjölgað um 307%, úr 247 í 1.006. Fjöldi sérkennara og skólasálfræðinga/námsráðgjafa hefur meira en tvöfaldast á þessu sama tímabili.

Þarf að skoða kerfið heildrænt

Ólafur nefnir að kennarastarfið hafi breyst gríðarlega undanfarin ár og því hafi stuðningsfulltrúar og annað slíkt starfsfólk komið inn í starfið út af breyttum áherslum. „Þetta fólk er ekki að koma inn í kennslu heldur kemur það inn í stuðning. Menn hafa velt því fyrir sér hvort það sé rétta áherslan að vera með svona mikinn stuðning fólks sem er ekki endilega faglært. Þá er spurning út frá nemendunum hvort þeir séu að fá þjónustu sem þeir þurfa. Þetta er samtal sem er stöðugt í gangi, erum við örugglega að setja aurana og kraftana í réttu hlutina?“ segir Ólafur og bætir við að það sé orðið löngu tímabært að skoða kerfið heildrænt. „Við settumst aldrei niður og ákváðum að kerfið yrði svona þetta hefur bara þróast svona. Það er löngu kominn tími til að setjast niður og velta því fyrir okkur hvort við séum á réttri leið.“

3,3% fjölgun frá því í fyrra

Haustið 2016 störfuðu 7.907 starfsmenn við grunnskóla á Íslandi, 254 fleiri en haustið 2015 og var því um 3,3% fjölgun. Ef tekið er mið af öllum starfsmönnum grunnskóla frá hausti 1998 hefur starfsmönnum fjölgað um 29,8%. Ólafur segir það vera í samræmi við nemendafjölda þar sem þeim fjölgi mikið. Samkvæmt Hagstofunni voru nemendur í grunnskólum á Íslandi 44.527 haustið 2016. Þeim fjölgaði um 767 (1,8%) frá fyrra ári og hafa ekki verið fleiri síðan haustið 2003. Ólafur nefnir að þessi fjölgun sé sérstaklega vegna þeirra nemenda sem eru ekki með íslensku sem móðurmál. Í tölum Hagstofunnar segir að haustið 2016 hafi 4.148 grunnskólanemendur haft erlent tungumál að móðurmáli, eða 9,3% nemenda, sem er 1,2 prósentustigi meira en árið áður. Einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku sem móðurmál. Algengasta erlenda móðurmál nemenda var pólska (1.467 nemendur), þá filippseysk mál (331 nemandi), enska (256 nemendur) og taílenska (223 nemendur).

Launakjör og álag fæla frá

Ólafur segir það vera alveg öruggt að allar kannanir sýni að það sem fælir fólk helst frá kennarastarfinu sé annars vegar kaup og kjör og hins vegar vinnuaðstæður. „Þessir tveir þættir eru langstærstu þættirnir í því að annaðhvort að fólk endist stutt í kennslu eða þá að fólk ákveði að fara ekki í starfið. Álagið í starfinu hefur verið að breytast mjög mikið,“ segir Ólafur og nefnir að nú standi Félag grunnskólakennara í samstarfi við Reykjavíkurborg að umfangsmikilli könnun þar sem verið er að kanna hvers vegna þeir sem fara í kennaranám starfi síðan ekki sem kennarar og hvers vegna þeir sem fara í starfið og stoppa stutt hætti.

Kennaraskortur yfirvofandi

Ólafur nefnir að bæði Ríkisendurskoðandi og Háskóli Íslands hafa gert úttekt á því hvernig kennarastéttin muni líta út á næstu árum, „ef ekkert verður gert þá verður kennaraskortur á næstu árum. Þetta er vandamál sem við vitum af og það þarf að gera eitthvað mikið í því fyrr en síðar. Það vita allir hvað þarf að gera en það gengur erfiðlega hjá stjórnvöldum að horfast í augu við vandann og gera það sem þarf að gera.“