Erjur í Hvíta húsinu - Priebus rekinn Anthony Scaramucci, nýskipaður fjölmiðlafulltrúi Trumps, hefur veist harkalega að tveimur nánustu samstarfsmönnum forsetans í Hvíta húsinu, þeim Reince Priebus, sem gegnt hefur stöðu skrifstofustjóra, og Steve Bannon stjórnmálaráðgjafa. Fjölmiðlafulltrúi forsetans sagði í samtali við blaðamann tímaritsins New Yorker að Reince Priebus væri „geðklofi“ og „haldinn ofsóknarbrjálæði“. Hann lýsti Steve Bannon sem lágkúrulegum eiginhagsmunasegg og notaði svo gróf orð að margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum vildu ekki hafa þau eftir. Þá tilkynnti Trump í gærkvöldi að hann hefði skipað nýjan skrifstofustjóra í stað Priebus, John Kelly sem áður gegndi stöðu heimavarnarráðherra.
Erjur í Hvíta húsinu - Priebus rekinn Anthony Scaramucci, nýskipaður fjölmiðlafulltrúi Trumps, hefur veist harkalega að tveimur nánustu samstarfsmönnum forsetans í Hvíta húsinu, þeim Reince Priebus, sem gegnt hefur stöðu skrifstofustjóra, og Steve Bannon stjórnmálaráðgjafa. Fjölmiðlafulltrúi forsetans sagði í samtali við blaðamann tímaritsins New Yorker að Reince Priebus væri „geðklofi“ og „haldinn ofsóknarbrjálæði“. Hann lýsti Steve Bannon sem lágkúrulegum eiginhagsmunasegg og notaði svo gróf orð að margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum vildu ekki hafa þau eftir. Þá tilkynnti Trump í gærkvöldi að hann hefði skipað nýjan skrifstofustjóra í stað Priebus, John Kelly sem áður gegndi stöðu heimavarnarráðherra. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Donald Trump Bandaríkjaforseti varð fyrir miklu pólitísku áfalli í gær þegar öldungadeild þingsins felldi frumvarp forystumanna Repúblikanaflokksins um afnám obamacare-laganna svonefndu og breytingar á heilbrigðislöggjöfinni.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Donald Trump Bandaríkjaforseti varð fyrir miklu pólitísku áfalli í gær þegar öldungadeild þingsins felldi frumvarp forystumanna Repúblikanaflokksins um afnám obamacare-laganna svonefndu og breytingar á heilbrigðislöggjöfinni.

Repúblikanar virtust hafa öll tromp á hendi í bandarískum stjórnmálum þegar Trump var kjörinn forseti í nóvember síðastliðnum: forsetaembættið og meirihluta í báðum deildum þingsins. Forsetanum hefur þó ekki tekist að ná fram neinu mikilvægu lagafrumvarpi nú þegar rúmlega sex mánuðir eru liðnir frá að hann tók við embættinu.

Trump og repúblikanar höfðu lofað að afnema heilbrigðis- og sjúkratryggingalöggjöfina, sem Barack Obama náði fram árið 2010, vegna aukins kostnaðar og hárra iðgjalda. Mikill ágreiningur meðal þingmanna repúblikana um hvað ætti að koma í staðinn varð hins vegar til þess að flokksforystu repúblikana í öldungadeildinni tókst ekki að knýja fram nýtt heilbrigðisfrumvarp eftir margra mánaða baktjaldamakk og mikinn þrýsting á þingmenn sem höfðu efasemdir um tillögur forystunnar.

Hvatt til samráðs

Eftir að þingdeildin hafði hafnað tillögum um að afnema obamacare-lögin að miklu leyti lagði flokksforystan fram svonefnt „magurt afnámsfrumvarp“ um að ógilda nokkra þætti núgildandi heilbrigðislöggjafar. Frumvarpið var fellt með 51 atkvæði gegn 49 og þrír repúblikanar greiddu atkvæði á móti því: þau John McCain, Susan Collins og Lisa Murkowski.

McCain gagnrýndi framgöngu flokksforystunnar í málinu. „Einn af stærstu göllum obamacare var að demókratar knúðu lögin fram eftir strangri flokkslínu án eins einasta atkvæðis repúblikana. Við ættum ekki að gera mistök fortíðarinnar,“ sagði McCain eftir að hafa greitt atkvæði gegn frumvarpinu. Hann hvatti forystu flokksins til að hefja opna umræðu um málið á þinginu og hafa samráð við þingmenn demókrata.

Obamacare látið hrynja?

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, sagði niðurstöðuna mikil vonbrigði og nú væri komið að demókrötum að leggja til lagfæringar á obamacare. Donald Trump tísti á Twitter að repúblikanar ættu að halda að sér höndum, láta „obamacare hrynja“ og semja síðan um breytingar á heilbrigðislöggjöfinni. Nokkrir þingmenn repúblikana í öldungadeildinni eru andvígir þessari leið, að sögn The Wall Street Journal .

Forystumenn repúblikana höfðu gert ráð fyrir því að „magra“ frumvarpið yrði ekki að lögum óbreytt. Þeir litu á það sem tæki til að hefja samningaviðræður við repúblikana í fulltrúadeildinni sem samþykkti eigin útgáfu af afnámi obamacare-laganna í maí. Nokkrir repúblikanar í öldungadeildinni höfðu hins vegar áhyggjur af því að fulltrúadeildin myndi einfaldlega samþykkja samskonar frumvarp, án samningaviðræðna milli deildanna um afnám obamacare. „Magra frumvarpið er pólitískt stórslys. Sem staðgengill obamacare er frumvarpið blekking,“ sagði repúblikaninn Lindsey Graham. Hann bætti við að frumvarpið jafngilti ekki afnámi obamacare og myndi leiða til „hruns í heilsugæslunni“.

Forseti fulltrúadeildarinnar, repúblikaninn Paul Ryan, reyndi að sefa þennan ótta með varfærnislegri yfirlýsingu skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna. Hann sagði að fulltrúadeildin vildi semja við repúblikana í öldungadeildinni um breytingar á heilbrigðislöggjöfinni og hringdi í Graham og nokkra aðra þingmenn sem höfðu áhyggjur af því að fulltrúadeildin myndi einnig samþykkja „magurt“ frumvarp. Graham ákvað þá að greiða atkvæði með frumvarpinu.

Iðgjöldin myndu hækka

Samkvæmt frumvarpinu átti meðal annars að afnema ákvæði í obamacare-lögunum sem skyldar flesta Bandaríkjamenn til að kaupa sjúkratryggingu eða greiða ella fésekt. Varað hafði verið við því að þetta gæti orðið til þess að margt ungt fólk myndi ekki kaupa sjúkratryggingu. Það gæti orðið til þess að aðeins þeir, sem eru líklegri til að veikjast, svo sem eldra fólk, keyptu sjúkratryggingu og iðgjöldin myndu því hækka. Fjárlagaskrifstofa þingsins áætlaði að „magra“ frumvarpið yrði til þess að 16 milljónir manna misstu sjúkratryggingar á áratug og að iðgjöldin hækkuðu um 20%.

Óljóst er hvernig forysta repúblikana bregst við ósigrinum í öldungadeildinni. Nokkrir þingmenn repúblikana sögðu að baráttunni gegn obamacare væri ekki lokið. „Þessu er ekki lokið fyrr en því er lokið,“ sagði repúblikaninn John Kennedy sem var kjörinn í öldungadeildina í kosningunum í nóvember. Hann kvaðst vona að þingið myndi „rífa obamacare upp með rótum“ og setja ný heilbrigðislög frá grunni.

Nokkrir repúblikanar eru óánægðir með hvernig McConnell stóð að undirbúningi frumvarpsins, án formlegra þingfunda um málið. Hann valdi þá leið að frumvarpið fengi sérstaka flýtimeðferð, sem ætluð er málum sem tengjast fjárlögum, til að koma í veg fyrir að demókratar gætu beitt málþófi. Þessi leið fól í sér að frumvarpið þurfti aðeins hreinan meirihluta atkvæða. Verði lagt fram nýtt frumvarp um breytingar á heilbrigðislöggjöfinni er talið líklegt að það þurfi 60 atkvæði af 100, að sögn fréttaskýrenda.

Settur út í horn
í Rússamálinu
» Donald Trump varð fyrir öðru áfalli í gær þegar öldungadeild þingsins samþykkti refsiaðgerðir gegn Rússlandi með 98 atkvæðum gegn tveimur. Áður hafði Trump lagst gegn refsiaðgerðunum.
» Fulltrúadeildin samþykkti aðgerðirnar fyrr í vikunni með 419 atkvæðum gegn þremur.
» Þingið takmarkaði vald forsetans til að afnema refsingarnar.
» Trump hefur gagnrýnt Jeff Sessions dómsmálaráðherra harkalega síðustu daga vegna þeirrar ákvörðunar hans að segja sig frá rannsókn alríkislögreglunnar á meintum tengslum aðstoðarmanna Trumps við Rússa.