Reykjastrandarvegur Myndin var tekin í gær og þar má sjá ástand hans. Ekki stendur til að leggja hann bundnu slitlagi, eins og íbúar hafa krafist.
Reykjastrandarvegur Myndin var tekin í gær og þar má sjá ástand hans. Ekki stendur til að leggja hann bundnu slitlagi, eins og íbúar hafa krafist. — Ljósmynd/Viggó Jónsson
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Forseti sveitarstjórnar sveitarfélagsins Skagafjarðar segir ástand Reykjastrandarvegar með öllu óviðunandi og íbúi í Skagafirði tekur í sama streng.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Forseti sveitarstjórnar sveitarfélagsins Skagafjarðar segir ástand Reykjastrandarvegar með öllu óviðunandi og íbúi í Skagafirði tekur í sama streng. Vegurinn er malarvegur, afar viðkvæmur fyrir veðri og vindum og lítið má út af bera til að djúpar holur myndist í hann. Íbúar vilja að vegurinn verði lagður bundnu slitlagi, en slíkar framkvæmdir eru ekki á vegaáætlun.

Reykjastrandarvegur er númer 748 í vegakerfinu og liggur frá Þverárfjallsvegi, skömmu áður en ekið er að Sauðárkróki, að Reykjum á Reykjaströnd. Nokkur byggð er við veginn, ferðaþjónusta á svæðinu hefur vaxið undanfarin ár og sífellt fleiri fara um veginn.

„Vegurinn er mjög slæmur,“ segir Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar. „Hann hefur þarfnast viðgerðar í mörg ár, undanfarin ár hefur umferð um hann aukist vegna fjölgunar ferðamanna og endurbætur á veginum eru svo sannarlega ofarlega á óskalista okkar hér í Skagafirði. Hann hefur ekki verið á vegaáætlun, eftir því sem ég best veit og einu svörin sem við höfum fengið í gegnum tíðina hafa verið að það sé ekki fjárveiting í þessar framkvæmdir.“

Fá helming þess fjár sem þarf

Gunnar H. Guðmundsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri, segir að endurbætur á Reykjastrandarvegi séu ekki á vegaáætlun. Hann segir Vegagerðinni vel kunnugt um að umferð hafi aukist um veginn og að Skagfirðingar hafi áhyggjur af ástandi hans. „Reyndar verður vegaáætlun lögð fram endurskoðuð til fjögurra ára í haust, þannig að það er svo sem ekki hægt að útiloka neitt,“ segir Gunnar sem segir að hugað sé að veginum eftir föngum; með heflunum og rykbindingu. Þá er borin í hann möl, sé til þess fjármagn. „Undanfarin misseri höfum við fengið 40-50% af því fé sem við skilgreinum sem þörf til að viðhalda malarvegunum. Reyndar var það aðeins meira í ár, u.þ.b. 60% af því sem við hefðum þurft. En það dugar samt hvergi nærri til og við erum vel meðvituð um það,“ segir Gunnar.

„Margir segja að þetta sé ekki bjóðandi ferðamönnum, en þetta er ekki síður ekki boðlegt því fólki sem býr við veginn. Það er ekki eins og það hafi eitthvert val,“ segir Viggó Jónsson sem starfrækir Drangeyjarferðir, en aka þarf veginn til að komast að Reykjum, þaðan sem bátur Drangeyjaferða siglir til eyjarinnar. Viggó segir að samkvæmt mælingum hafi 119 bílar ekið veginn að meðaltali á degi hverjum í fyrra, flestir hafi þeir verið 700. „Það er alltaf skákað í skjóli þess að það séu ekki til peningar. Þeir voru ekki til fyrir hrun, ekki í hruninu og heldur ekki núna eftir hrun. Ég veit eiginlega ekki hvaða aðstæður þurfa að vera uppi til þess að það verði til peningar í þennan veg.“

Biðja ekki um breiðan veg

Að sögn Viggós var vegurinn lagður fyrir 50-60 árum. „Það var eiginlega bara mokað upp úr skurði og varla hægt að tala um vegagerð sem slíka. Við erum ekki að fara fram á að vegurinn verði fjögurra metra breiður, uppbyggður, með hvítri línu í miðjunni. Við höfum talað fyrir því að það verði farið í veginn eins og hann er, hann lagaður á verstu köflunum og bundið slitlag sett á hann.“

– Er vegurinn hættulegur?

„Nei, það myndi ég ekki segja. En það er ekkert efni eftir í honum, grjótið stendur upp úr honum. En fólk sem keyrir hann reglulega þarf auðvitað að viðhalda bílum sínum miklu, miklu meira,“ segir Viggó.