[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis, sem á og rekur SAH-afurðir á Blönduósi, kynnti á fundi með sauðfjárbændum í Austur-Húnavatnssýslu hugsanlegt verð og greiðslufyrirkomulag á dilkakjöti vegna komandi sláturtíðar í haust. Eiður segir uppsafnaðan birgðavanda á dilkakjöti gera stöðuna erfiða. Fram kom í vikunni í Húnahorninu og Bændablaðinu að hugmyndir Kjarnafæðis hefðu fallið í grýttan jarðveg meðal sauðfjárbænda.

Hugmyndir Kjarnafæðis ganga m.a. út á að SAH-afurðir greiði sama verð og gert var í fyrra, en þá lækkaði verðið verulega. Auk þess gera þær ráð fyrir að greiðslu SAH fyrir 65% innlagnar sauðfjárbænda verði dreift í fjórar greiðslur á níu mánaða tímabili. Greiðslur fyrir 35% innlagnar verði ekki inntar af hendi fyrr en kjötið hafi verið selt ef miðað er við útflutningsskyldu.

Oddný Steina Valsdóttir, bóndi á Butru í Fljótshlíð, er formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Hún sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ef hugmyndir Kjarnafæðis yrðu að veruleika yrði það gríðarlegur skellur fyrir sauðfjárbændur.

Fækka þarf sauðfé til muna

„Miðað við stöðuna í útflutningi lambakjöts blasir við að nauðsynlegt er að sauðfé í landinu verði fækkað til muna. Við verðum bara að horfast í augu við stöðuna og leita leiða til þess að fækka,“ sagði Oddný Steina.

Hún bendir á að það sé engin framleiðslustýring í sauðfjárrækt og markaðurinn sé algjörlega frjáls.

„Það hefur gengið býsna vel hér innanlands að kynna og selja lambakjötið, ekki síst erlendum ferðamönnum sem hingað koma. En því er ekki að neita að það er rosalegt högg fyrir suðfjárbændur að hafa ekki lengur þá markaði erlendis sem þeir hafa verið að flytja út á,“ sagði Oddný Steina.

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, er varaformaður Landssamtaka sláturleyfishafa. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sláturleyfishafar störfuðu undir samkeppnislögum og samtökin mættu ekki fjalla um verðlagningu.

„Það er samkeppni á þessum markaði og það er bara ákvörðun hvers fyrirtækis hvað gert er,“ sagði Steinþór.

Markaðsráð kindakjöts hefur óskað eftir undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu hvað varðar útflutning á lambakjöti. Steinþór var spurður um þá umsókn:

„Þessi umsókn Markaðsráðs er vitanlega send Samkeppniseftirlitinu til þess að reyna að lágmarka skellinn. Það er ákveðinn forsendubrestur í greininni, sem gerir útflutning mjög erfiðan. Noregur hefur verið besti markaðurinn fyrir íslenskt lambakjöt og keypt um 600 tonn á ári. Núna taka Norðmenn ekki neitt vegna þess að hjá þeim er offramboð af norsku lambakjöti. Í annan stað ríkir tæknileg lokun á Rússlandsmarkað vegna viðskiptastríðs Evrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússland, en Rússar keyptu talsvert magn af kjöti ár hvert.

Í þriðja lagi má nefna styrkingu íslensku krónunnar, sem hefur náttúrlega áhrif á okkur eins og alla aðra sem flytja út vörur.

Þetta þrennt hefur haft þau áhrif að útflutningur annars vegar hefur skilað miklu minni tekjum en áður og auk þess hafa safnast upp birgðir í landinu, mörg hundruð tonn, sem menn hafa verið í miklum vandræðum að finna stað,“ sagði Steinþór.

Koma niður á bændum

Hann bendir á að þótt í gangi hafi verið ákveðið markaðsátak til þess að vega upp á móti tekjutapinu hafi það hvergi dugað til. Margir sláturleyfishafar hafi ekki borð fyrir báru og hinar erfiðu aðstæður komi með einhverjum hætti niður á bændum.

„Í ljósi þessa og lækkandi verðs á innanlandsmarkaði hefur afkoman í sauðfjárslátrun og sölu á kindakjöti verið mjög slæm í nokkur ár. Það væntanlega endurspeglast í þeim hugmyndum sem stjórnarformaður Kjarnafæðis kynnti sauðfjárbændum á Blönduósi,“ sagði Steinþór Skúlason.