[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson Þórunn Kristjánsdóttir John Snorri Sigurjónsson vann það einstaka afrek í gærmorgun að verða fyrsti Íslendingurinn til að klífa hættulegasta og mannskæðasta fjall heims, K2. Fjallið er 8.

Vilhjálmur A. Kjartansson

Þórunn Kristjánsdóttir

John Snorri Sigurjónsson vann það einstaka afrek í gærmorgun að verða fyrsti Íslendingurinn til að klífa hættulegasta og mannskæðasta fjall heims, K2. Fjallið er 8.611 metra hátt og það næsthæsta í heimi á eftir sjálfum tindi Everest, en meðan hátt í 5.000 einstaklingar hafa farið á topp hæsta fjalls heims hafa einungis rétt rúmlega 300 klifið K2.

„Tilfinningin er blendin. Við erum rosalega þreyttir. Þetta var mjög erfitt,“ sagði John Snorri af toppi K2, í samtali við mbl.is í gær, orðinn býsna þrekaður en alsæll. Leiðin frá búðum 4 tók 18 klukkustundir, örlitlu lengri tíma en John Snorri hafði ætlað sér, en með honum voru 11 aðrir, þar af níu sjerpar.

Fyrstir frá 2014

John og félagar hans eru fyrstir til að komast á topp K2 síðan 2014 og nýttu sér m.a. línur sem þeir fundu frá þeim leiðangri, en þeir þurftu að binda sig þrír saman vegna aðstæðna, sem voru mjög krefjandi.

„Við erum orðnir bláir af súrefnisleysi,“ sagði John á toppnum. Þeir stoppuðu því örstutt á toppnum þar sem súrefnið var af skornum skammti auk þess sem veðurglugginn leyfði ekki langan tíma. „Við ætlum að vera fljótir niður,“ segir hann.

Ferðin niður ekki hættulaus

Hjördís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Lífs – styrktarfélags, hefur fylgst grannt með gangi mála, en John Snorri hefur í ferðalagi sínu gengið til styrktar félaginu og er hægt að styrkja það á www.lifsspor.is og í síma 908-1515.

„Þetta er ótrúlegt afrek og við höfum fylgst vel með honum. Núna er hann í búðum 4 að safna kröftum fyrir ferðina niður,“ segir Hjördís og bendir á að það sé ekki síður hættulegt að ganga niður en upp.

„John Snorri hefur sjálfur sagt að þegar upp er komið taki hugurinn menn hálfa leið heim. Því sé mikilvægt að halda einbeitingu allan tímann, en hann stefnir á að fara niður í búðir 1 í einum rykk.“