Sunna Ósk Logadóttir
sunna@mbl.is
Hvalárvirkjun, sem áformað er að reisa í stærstu óbyggðu víðernum Vestfjarða, myndi auka raforkuöryggi Vestfjarða að ákveðnu leyti en ekki tryggja það. Hún myndi engu máli skipta hvað varðar aðkallandi hringtengingu rafmagns í fjórðungnum, að minnsta kosti fyrst í stað.
Virkjunin er fyrirhuguð langt frá meginflutningskerfinu og hefur af þeim sökum ekki þótt arðbær kostur. Nú er hins vegar til skoðunar að koma upp nýju tengivirki við Ísafjarðardjúp og flytja rafmagnið í loftlínu inn á Vesturlínu í Reykhólasveit. Fleiri virkjanir eru nú fyrirhugaðar við Djúp. „Þannig að þetta er ekki lengur spurning fyrir okkur að tengja eina virkjun heldur nokkrar inn á kerfið,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, um kostnaðinn sem yrði að hluta greiddur af Landsneti og að hluta af framkvæmdaaðila, VesturVerki.
Landsvirkjun skoðar Austurgilsvirkjun
Ein þessara virkjanahugmynda er Austurgilsvirkjun sem Landsvirkjun skoðar nú aðkomu sína að. Lagt hefur verið til að hún fari í orkunýtingarflokk rammaáætlunar. „Þarna yrði farið inn á svæði sem ekki hefur áður verið virkjað og því yrðu umhverfisáhrifin umtalsverð,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.VesturVerk hefur boðist til að taka þátt í samfélagsverkefnum í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins, verði af virkjuninni. Verkefnin tengjast langþráðri innviðauppbyggingu, m.a. lagningu þriggja fasa rafmagns. Orkubú Vestfjarða hefur síðustu ár lagt slíka rafstrengi í jörð í hreppnum og áformar að því verkefni ljúki fyrir 2030, alveg óháð Hvalárvirkjun.
Í fyrra fluttu tíu manns úr Árneshreppi, þar af tvær barnafjölskyldur. Nú eru þar aðeins 46 með lögheimili og verður grunnskólanum lokað um áramót. „Virkjunaráformin koma eins og óargadýr inn í samfélagið á meðan þetta er allt að gerast,“ segir Elín Agla Briem, kennari í Finnbogastaðaskóla. Guðlaugur Ágústsson bóndi vonast til þess að virkjunin hefði jákvæð áhrif á samfélagið. „Það er ekkert betra í boði.“
Standa ber vörð um óbyggð víðerni samkvæmt náttúruverndarlögum. Fossarnir og sum vatnanna á Ófeigsfjarðarheiði njóta einnig sérstakrar verndar og skal þeim ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til. Það er sveitarstjórnar Árneshrepps að svara því hvort hún sé fyrir hendi.