[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þing Starfsgreinasambands Íslands krefst þess ,,að ákvarðanir kjararáðs síðustu tveggja ára verði endurskoðaðar og miðað verði við hækkanir á almennum vinnumarkaði“.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þing Starfsgreinasambands Íslands krefst þess ,,að ákvarðanir kjararáðs síðustu tveggja ára verði endurskoðaðar og miðað verði við hækkanir á almennum vinnumarkaði“.

Þetta kemur fram í kjaramálaályktun þingsins sem lauk sl. fimmtudag en miklar umræður urðu á þinginu um þróun kjaramála og ekki síst hinar umdeildu hækkanir kjararáðs. Kjarasamningar ríflega 50 þúsund félagsmanna aðildarfélaga SGS koma til endurskoðunar í febrúar líkt og samningar annarra ASÍ-félaga.

„Það voru heitar umræður um þetta og menn eru reiðir,“ segir Aðalsteinn Á Baldursson, formaður Framsýnar, um umræðurnar um kjararáðshækkanirnar en hann stýrði nefnd þingsins sem fjallaði um kjaramálaályktunina. Aðalsteinn vill að kjarasamningum verði sagt upp eftir áramót. „Að sjálfsögðu eigum við að sýna stjórnvöldum aðhald og við eigum að segja upp samningum. Allar forsendur eru brostnar og við eigum eftir áramótin að ráðast í baráttu fyrir leiðréttingu á okkar kjörum,“ segir Aðalsteinn.

Vinnubrögð kalla á upplausn

Kjararáðshækkanirnar brenna greinilega enn á fulltrúum verkalýðsfélaganna. Henný Hinz, aðalhagfræðingur ASÍ, kynnti á þinginu yfirlit yfir þróun og horfur í kjaramálum, þar sem hún sýndi m.a. útreikninga á hækkunum kjararáðshópa samanborið við hækkanir hópa launþega bæði á almenna og opinbera markaðinum.

Vöktu þær tölur mikla athygli fundarmanna. Í ályktun þingsins segir að almennu launafólki sé gróflega misboðið vegna þeirra miklu hækkana sem kjararáð hefur úthlutað æðstu embættismönnum þjóðarinnar og kjörnum fulltrúum á sama tíma og skattar hafi hækkað hlutfallslega mest á lægst launaða fólkið. „Úrskurðir kjararáðs veita allt að tífalt hærri krónutöluhækkun til skjólstæðinga sinna en almennt launafólk hefur borið úr býtum á gildistíma kjarasamninga. Vinnubrögð sem þessi kalla á upplausn á íslenskum vinnumarkaði.“