HM 2018
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Eins og fram hefur komið eru áætlaðar greiðslur FIFA til Knattspyrnusambands Íslands vegna árangurs karlalandsliðsins í undankeppni HM um 1,3 milljarðar króna. Ljóst er að stór hluti þeirrar upphæðar fer í ferðakostnað og annað tengt þátttöku í mótinu, sem og umsamdar bónusgreiðslur til leikmanna og þjálfara, en eftir ætti engu að síður að standa dágóð upphæð fyrir KSÍ og aðildarfélög sambandsins.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um hvernig væntanlegum tekjum vegna HM yrði ráðstafað. Samið hefði verið við leikmenn og þjálfara um bónusgreiðslur fyrir að komast á HM en ekki væri hægt að gefa upplýsingar um hve háar þær séu að svo stöddu. Þá sé ekki ljóst hvort aðildarfélög KSÍ fá sérstakt HM-framlag í líkingu við EM-framlagið sem þau fengu eftir ævintýrið í Frakklandi í fyrrasumar.
Upplýsingar gefnar fyrir ársþingið
KSÍ gaf ekki upplýsingar um hverjar bónusgreiðslur til leikmanna og þjálfara vegna EM-árangursins væru fyrr en í aðdraganda ársþings í febrúar síðastliðnum. Þá kom fram að leikmenn og þjálfarar hefðu samkvæmt samningum fengið tæplega 846 milljónir króna í sinn hlut, af þeim 1.944 milljónum sem liðið tryggði KSÍ í greiðslur frá UEFA með því að komast ekki bara á EM heldur alla leið í 8-liða úrslitin. Ekki var tilgreint frekar hvernig upphæðinni var skipt á milli leikmanna og jafnframt er ekki ljóst hvernig hún skiptist eftir árangrinum í undankeppninni annars vegar og lokakeppninni hins vegar.Ef leikmenn og þjálfarar fá sambærilegt hlutfall í sinn hlut vegna HM eins og vegna EM, eða um 44%, er ljóst að þeir kæmu til með að skipta með sér rúmum 570 milljónum króna hið minnsta, en ekkert fékkst upp úr formanni KSÍ um hvort sú upphæð væri nærri lagi:
„Þeir fá árangurstengdar greiðslur sem eru í takti við það sem gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Annars ríkir trúnaður þar um. Upplýsingar um þessar greiðslur koma á endanum fram í ársuppgjöri KSÍ sem er að sjálfsögðu opinbert,“ sagði Guðni.
Félögin fengu 453 milljónir eftir EM
Eftir að íslenska karlalandsliðið tryggði sér í fyrsta sinn sæti í lokakeppni EM, haustið 2015, ákvað KSÍ að nýta hluta þess fjár sem fékkst frá UEFA til að styrkja aðildarfélög sambandsins. Var þessi styrkur kallaður EM-framlag. Upphaflega átti heildarupphæðin að vera 300 milljónir króna en hún var hækkuð í 453 milljónir eftir lokakeppnina, vegna þess árangurs sem þar náðist og í fólust auknar tekjur. Upphafleg greiðsla frá UEFA, fyrir að komast á EM, var rúmlega 1,1 milljarður en hækkaði um 800 milljónir vegna árangursins í Frakklandi.Þessar 453 milljónir námu því um 25% af heildargreiðslu frá UEFA og fengu þau félög sem hæstan styrk hlutu rúmlega 18,2 milljónir króna í sinn hlut. Framlagið var mismunandi á milli félaga, en farið var meðal annars eftir árangri meistaraflokks karla og kvenna árin sem EM og undankeppni EM stóðu yfir, eða 2014, 2015 og 2016.
Hæstu greiðslur 13 milljónir?
Ef aðildarfélögin fá einnig 25% af 1,3 milljörðum króna í sérstakt HM-framlag, nemur sú upphæð 325 milljónum króna. Hæstu greiðslur til einstakra félaga myndu miðað við sömu reglur og vegna EM nema rúmum 13 milljónum króna, en aðeins Breiðablik, ÍBV, KR, Stjarnan og Valur hafa átt og munu eiga karla- og kvennalið í efstu deildum öll árin 2016, 2017 og 2018. Upphæðin gæti svo hækkað í samræmi við góðan árangur á HM.Aðspurður hvort aðildarfélög KSÍ fengju beinar greiðslur vegna HM-árangursins, líkt og vegna EM, sagði Guðni það ekki hafa verið ákveðið:
„Íslensk knattspyrna mun njóta góðs af þessu, það er alla vega ljóst, en engin ákvörðun hefur verið tekin um nákvæmlega hvernig. Aðildarfélögin og knattspyrnan öll mun njóta góðs af þessu með einum eða öðrum hætti, það er alveg ljóst.“