[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til hamingju Ísland, við erum að fara á HM með strákunum okkar í fótbolta. Njótum þeirrar gleði sem lengst. Flestir strákanna okkar eru atvinnumenn í fótbolta í öðrum löndum og þar eru þeir útlendingar. Þar tala þeir annað tungumál en móðurmálið.

Til hamingju Ísland, við erum að fara á HM með strákunum okkar í fótbolta. Njótum þeirrar gleði sem lengst.

Flestir strákanna okkar eru atvinnumenn í fótbolta í öðrum löndum og þar eru þeir útlendingar. Þar tala þeir annað tungumál en móðurmálið. Flestir hafa flutt milli landa og þurft að aðlagast nýju málumhverfi oftar en einu sinni. Þannig gengur lífið fyrir sig hjá stórum hópi fólks í dag. Það eltir drauma sína eða neyðist til að flytja og takast á við nýtt líf, nýja siði og nýtt tungumál.

Hvernig gengur að læra nýtt tungumál á nýjum stað? Hvað er það sem hefur mest áhrif á tungumálanámið? Það er sjálfsagt mjög misjafnt eftir því hver á í hlut, hvaða tungumál viðkomandi hefur lært áður, áhuginn á að læra málið, samskipti við þá sem tala tungumálið og margt fleira.

Á Íslandi eru margir útlendingar sem kunna lítið í íslensku. Getum við, hvert og eitt, gert eitthvað til að aðstoða þá við að læra málið? Þarf ekki einhverjar sérstakar aðferðir til að kenna íslensku sem annað mál? Vissulega þarf sérstaka menntun og færni til að kenna íslensku í stórum hópum en það geta ALLIR lagt eitthvað af mörkum. Með því að tala við fólk bætum við möguleika þess á að læra íslensku. Jafnvel þó við tölum líka ensku eða eitthvert annað mál til að ná samskiptum. Það að eignast vini sem tala íslensku eykur líkurnar á að einstaklingurinn sjái tilgang með því að læra hana.

Ég hitti nýlega ungan mann sem hefur dvalið á Íslandi í þrjú ár. Hann talaði um allt milli himins og jarðar á okkar ylhýra máli. Ég spurði hvernig hann hefði lært íslenskuna. Hann sagðist hafa komið til Íslands fyrir þremur árum og farið að vinna í sveit norður í landi. Fólkið á bænum talaði íslensku við hann og hann lærði málið. Hann var áhugasamur og fólkið sýndi honum þolinmæði og talaði hægt. Bændurnir gerðu ekkert annað en tala við hann, alveg eins og við tölum íslensku við lítil börn. Tölum við þau á hverjum degi, fyrst um einfalda hluti og svo flóknari hluti inn á milli.

Það er til námsefni fyrir íslenskunema á netinu. Vefurinn icelandiconline.com var gerður af kennurum í Háskóla Íslands. Vefurinn er gagnvirkur, kostar ekkert og hentar bæði fyrir síma og tölvu. Námsefni hefur einnig verið safnað saman á tungumalatorg.is, þar eru kennslubækur, stuttir þættir, gagnvirk verkefni og fleira. Orðabækurnar á snara.is eru ómissandi hjálpartæki.

En það er ekki bara námsefni sem þarf. Við óskum þess að okkar fólki sem býr í öðrum löndum sé sýndur áhugi, velvild og hjálpsemi ef á þarf að halda. Vonandi verður strákunum okkar og fjölskyldum þeirra tekið vel þar sem þeir setjast að. Og vonandi tökum við vel á móti því fólki sem hér vill vera. Greiðum götu þeirra sem vilja taka þátt í samfélaginu og tölum íslenskuna, mjög hægt, við fólk sem sýnir áhuga á að læra okkar einstaka tungumál.

Lilja Magnúsdóttir liljam@simnet.is

Höf.: Lilja Magnúsdóttir liljam@simnet.is