Mikið fylgi Guðjón A. Kristjánsson (t.v.) fékk 17,7% fylgi á Vestfjörðum en flokkur hans 4,2% á landsvísu. Sverrir Hermannsson var uppbótarmaður.
Mikið fylgi Guðjón A. Kristjánsson (t.v.) fékk 17,7% fylgi á Vestfjörðum en flokkur hans 4,2% á landsvísu. Sverrir Hermannsson var uppbótarmaður. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Alþingi samþykkti hinn 16. júní 1999 breytingar á stjórnarskránni. Kjördæmum var fækkað úr átta í sex og tekin upp svokölluð 5% regla. Þingmannafjöldinn var hins vegar óbreyttur, 63.

Fréttaskýring

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Alþingi samþykkti hinn 16. júní 1999 breytingar á stjórnarskránni. Kjördæmum var fækkað úr átta í sex og tekin upp svokölluð 5% regla. Þingmannafjöldinn var hins vegar óbreyttur, 63. Lögum um kosningar til Alþingis var breytt árið 2000 í samræmi við fyrrgreindar breytingar á stjórnarskránni. Fyrst var kosið samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi vorið 2003.

Í umfjöllun um 5% regluna eða þröskuldinn hefur sá misskilningur verið útbreiddur, í ræðu og riti, að þetta sé það hlutfall atkvæða sem flokkar þurfa að ná á landsvísu til að koma til greina við úthlutun þingsæta. Svo er ekki. Hins vegar verður flokkur að vera með að lágmarki 5% fylgi á landsvísu til þess að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta, en þau eru 9 talsins. Flokkur með mikið fylgi í einu kjördæmi getur því fengið mann kjörinn, en verið undir 5% fylgi á landsvísu. Kjördæmakjörinn þingmaður þess flokks fengi að sjálfsögðu sitt sæti þó að flokkurinn kæmi ekki til greina í úthlutun jöfnunarsæta. Þetta hefur ekki gerst síðan nýja reglan tók gildi frá og með kosningunum 2003.

Guðjón með mikið fylgi

Hins vegar gerðist það árið 1999 að Frjálslyndi flokkurinn fékk 17,7% fylgi á Vestfjörðum en einungis 4,2% á landsvísu. Guðjón A. Kristjánsson var kjördæmakosinn þingmaður Vestfirðinga og Sverrir Hermannsson komst að sem uppbótarþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi. Í kosningunum það ár var 5% reglan ekki komin til sögunnar. Jöfnunarsætin voru hins vegar fleiri þá, eða 13 talsins.

Þorkell Helgason, helsti sérfræðingur okkar á þessu sviði, vann lýsingu á úthlutun þingsæta fyrir landskjörstjórn.

Gefum Þorkeli orðið:

„Samkvæmt ákvæðum laga fer úthlutun hinna 63 sæta á Alþingi fram í tveimur meginskrefum. Fyrst er kjördæmissætum úthlutað, en þau eru 54 að tölu. Kjördæmissætunum er alfarið úthlutað á grundvelli fylgis lista í hverju kjördæmi. Landsfylgið kemur ekki við sögu. Það gildir líka einu hvort viðkomandi flokkur hafi boðið fram í öllum kjördæmum eða ekki. Síðan er jöfnunarsætum úthlutað, en þau eru 9 talsins. Eins og nafn þeirra bendir til er tilgangur þeirra sá að „hver stjórnmálsamtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína“ eins og segir í 31. gr. gildandi stjórnarskrár. Það er ekki þar með sagt að fullur jöfnuður náist. Til þess kunna jöfnunarsætin níu að reynast of fá. Við úthlutun jöfnunarsæta koma þau og aðeins þau stjórnmálasamtök eða flokkar til álita sem hafa hlotið a.m.k. 5% fylgi samanlagt á landinu öllu. Þessi þröskuldur er tilskilinn skv. fyrrgreindu stjórnarskrárákvæði. Úthlutun jöfnunarsætanna gerist þannig að þeim er samtímis skipt á milli stjórnmálasamtakanna og um leið ráðstafað til lista þeirra í einstökum kjördæmum. Þegar sætum hefur þannig verið ráðstafað til lista á eftir að finna hvaða frambjóðendur hvers lista hljóta sætin. Þar ræður mestu uppstillt röð þeirra á listunum, en hún getur þó raskast ef nægilega margir kjósendur nýta sér rétt sinn í kjörklefanum til að breyta.“