[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Deilt er um skattheimtu í kosningabaráttunni. Sundurliðun á sköttunum bregður birtu á málefnið.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Deilt er um skattheimtu í kosningabaráttunni. Sundurliðun á sköttunum bregður birtu á málefnið.

Samkvæmt gögnum sem fylgja nýja fjárlagafrumvarpinu er áætlað að skatttekjur ríkissjóðs verði 652,13 milljarðar á næsta ári, eða 45,63 milljörðum hærri en áætlað var á fjárlögum fyrir 2017. Áætlun fyrir 2017 bendir til að skatttekjur verði 3,5 milljörðum hærri í ár.

Tölurnar voru lagðar fram fyrir um mánuði þegar frumvarpið kom fram. Þær eru ekki endanlegar.

Tekjur ríkissjóðs eru flokkaðar í fjóra meginflokka: skatttekjur, tryggingagjöld, fjárframlög og aðrar tekjur. Skatttekjurnar kvíslast niður í sex meginflokka: skatta á tekjur og hagnað, skatta á laun og vinnuafl, eignarskatta, skatta á vöru og þjónustu, tolla og aðflutningsgjöld og aðra skatta. Langstærsti einstaki liðurinn, virðisaukaskattur, heyrir undir skatta á vöru og þjónustu. Áætlað er að hann skili 239 milljörðum 2018, um 20 milljörðum meira en nú er áætlað fyrir 2017.

Annar stærsti einstaki liðurinn er tekjuskattur á einstaklinga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun hann skila 179,2 milljörðum á næsta ári, borið saman við áætlun upp á 164,2 milljarða í ár.

Tryggingagjöld eru þriðji stærsti einstaki liðurinn. Þau eru talin skila 99,5 milljörðum 2018, en 90 milljörðum í ár, skv. áætlun.

Samtals aukast skatttekjur og tryggingagjöld úr 697,35 milljörðum frá fjárlögum 2017 í 751,6 milljarða 2018, eða um 54,2 milljarða.

Aukin gjaldtaka af bifreiðum

Skattar á vöru og þjónustu greinast niður í 13 skattaflokka, auk virðisaukaskatts. Gjöld á bifreiðar vega þar þungt. Séu skattaliðirnir vörugjöld af ökutækjum og bensíni, kolefnisgjald, olíugjald, kílómetragjald og bifreiðagjald lagðir saman er útkoman 51,63 milljarðar í fjárlagafrumvarpinu 2018. Það er aukning um rúma 6 milljarða frá áætlun fyrir árið 2017. Samkvæmt henni munu gjöldin skila 45,53 milljörðum í ár.

Til viðbótar kemur virðisaukaskattur af vöru- og kolefnisgjaldi á bensíni og dísilolíu. Fram hefur komið að skattar á dísilolíu verða hækkaðir. Hækkun kolefnisgjalds á að skapa hvata til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Tollar og aðflutningsgjöld eru talin munu skila færri krónum í ríkiskassann 2018 en 2017. Tollar hafa enda verið lækkaðir. Bankaskattur eykst milli ára skv. fjárlagafrumvarpinu, fer úr 9,55 milljörðum í ár, skv. áætlun, í 10,25 milljarða 2018.

Eignatekjur aukast mikið

Eignatekjur ársins 2017 eru nú áætlaðar 62,15 milljarðar, borið saman við 40,52 milljarða í fjárlögum. Munurinn skýrist af því að arður og hluti af tekjum ríkisfyrirtækja er nú áætlaður 39,75 milljarðar í ár, borið saman við 19,4 milljarða í fjárlögum 2017. Áætlað er að þessi liður lækki í 18,73 milljarða á næsta ári.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir skýringuna vera hærri arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum, einkum Landsbankanum, en áætlað var.

„Við erum alltaf með mjög varfærna arðgreiðsluspá frá Bankasýslunni í fjárlögum hvers árs. Undanfarin ár hefur verið talsvert frávik frá þessum lið. Ég á von á því að það verði aftur frávik frá þeirri áætlun sem nú er búið að setja fram 2018.“

Veiðigjöldin fara í 10 milljarða

Þá aukast veiðigjöld úr 5,5 milljörðum á fjárlögum 2017 í rúma 10 milljarða í fjárlögum 2018.

Haraldur segir þessa hækkun skýrast af bættri afkomu og aukinni framlegð í sjávarútvegi árið 2015. Gjaldtakan miðist hverju sinni við afkomuna tveimur árum áður. Jafnframt falli niður tímabundinn afsláttur vegna skulda sjávarútvegsins, að fjárhæð 650 milljónir.

„Þetta er gríðarleg hækkun á veiðigjöldum, sem ég tel að muni verða meiriháttar vandamál að fást við. Þá einkum hjá litlum og meðalstórum útgerðum. Þetta eru fyrst og fremst botnfiskútgerðir. Þær glíma nú við að fiskverð hefur verið lágt í kjölfar sjómannaverkfalla. Menn eru að greiða gjöldin miðað við afkomuna 2015 með tekjum sem falla til 2017, sem eru mun minni.“

Meiri tekjur en áætlað var

Þá má nefna að skattar á sölu á vöru og þjónustu eru taldir munu aukast úr 29,15 milljörðum skv. áætlun 2017 í 30,76 milljarða 2018.

Að öllu samanlögðu munu heildartekjur ríkissjóðs aukast úr 776 milljörðum í fjárlögum 2017 í 833,5 milljarða skv. fjárlagafrumvarpinu 2018. Það er aukning um 57,5 milljarða.

Haraldur segir tekjustrauminn, þ.e. skatttekjurnar, vera almennt mun meiri en áætlað var. Afgangur ríkissjóðs verði því töluvert meiri í ár en áætlað var í fjárlögum, eða meiri en 24,7 milljarðar. Hversu mikið sé of snemmt að segja. Vegna launaskriðs aukist tekjuskattur umfram spár og vegna hækkandi eignaverðs hækki erfðafjárskattur líka umfram spár, svo dæmi séu tekin.

Leggja fé í varasjóð

Haraldur bendir á að í fjárlögum 2017 sé í fyrsta sinn lagt til hliðar framlag í varasjóð ríkissjóðs, 7,5 milljarðar. Það sé 8,5 milljarðar í fjárlagafrumvarpinu 2018. Hann ítrekar að í fyrstu umræðu um fjárlögin 2018 hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gert fyrirvara við einstakar skattabreytingar.

Fram kom í kynningu með fjárlagafraumvarpinu 2018 að afgangur af rekstri ríkissjóðs, 44 milljarðar, verði 1,6% af vergri landsframleiðslu. Það setur þá tölu í samhengi að áætlað er að vaxtagjöld verði 61 milljarði umfram vaxtatekjur. Samkvæmt októberyfirliti Lánamála ríkisins er hrein skuld ríkissjóðs 752,5 milljarðar. Sú tala er um 100 milljörðum króna hærri en áætlaðar skatttekjur á næsta ári.

Fyrsta umræða um fjárlögin 2018 fór fram fimmtudaginn 14. september. Sem kunnugt er sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfinu aðfaranótt 15. september.