Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt fréttaflutning NBC -sjónvarpsins harkalega á Twitter og varpað fram þeirri spurningu hvenær ástæða væri til að afturkalla útsendingarleyfi þess.
Forsetinn veittist að NBC -sjónvarpinu vegna fréttar þess um að hann hefði lagt til á fundi með hátt settum embættismönnum í Washington að fjöldi bandarískra kjarnavopna yrði nær tífaldaður. Trump sagði að þetta væri „falsfrétt“ og „eintómur tilbúningur“. „Í ljósi allra falsfréttanna sem koma frá NBC og sjónvarpskeðjunum, á hvaða stigi er við hæfi að afturkalla leyfi þeirra? Slæmt fyrir landið!“
Trump ræddi síðan málið við fréttamenn þegar hann tók á móti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í Hvíta húsinu. „Í hreinskilni sagt finnst mér það andstyggilegt að fjölmiðlarnir geti skrifað hvað sem þeir vilja og fólk ætti að taka það til skoðunar,“ sagði forsetinn. Hann kvaðst þó ekki vilja að frelsi fjölmiðlanna yrði skert heldur að þeir tækju upp heiðarlegri vinnubrögð. „Ég hef séð að fjölmiðlarnir geta verið óhemju óheiðarlegir. Þetta er ekki aðeins spurning um rangfærslur.“
Fréttirnar „alrangar“
Trump neitaði því að hann hefði lagt til að fjöldi kjarnavopnanna yrði nær tífaldaður. Hann kvaðst vilja endurnýja kjarnavopnin, tryggja að kjarnavopnabúr Bandaríkjanna yrði í „fullkomnu“ ástandi“ en teldi alls ekki nauðsynlegt að fjölga þeim svo mikið.James Mattis varnarmálaráðherra tók undir þetta í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. „Nýlegar fréttir um að Trump hafi sagt hershöfðingjum og embættismönnum að hann vildi fjölga kjarnavopnum eru alrangar,“ sagði hann.
Fréttastofa NBC sagði að fréttin byggðist á frásögnum þriggja heimildarmanna sem hefðu setið fundinn. Hún hafði eftir þeim að Rex Tillerson utanríkisráðherra hefði kallað Trump „hálfvita“ eftir fundinn en talsmaður ráðherrans hefur sagt að það sé ekki rétt.