[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Danske Bank ráðleggur fjárfestum að kaupa skuldabréf íslensku bankanna og mælir með yfirvigt í nýrri greiningu sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Danske Bank ráðleggur fjárfestum að kaupa skuldabréf íslensku bankanna og mælir með yfirvigt í nýrri greiningu sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Bankanir séu vel fjármagnaðir og eignasafn þeirra hafi batnað eftir kröftugan hagvöxt, betri viðskiptahætti og aukið eftirlit af hálfu FME. Raunar ættu þeim að bjóðast hagstæðari kjör á lánsfjármögnun ef horft er til banka með sambærilegt lánshæfismat.

Bankinn birti umtalaða skýrslu um Ísland í mars 2006 með yfirskrift sem snara má Ísland: Geysiskrísan, þar sem taldar voru líkur á fjármálakreppu hérlendis 2006-2007 vegna erfiðleika íslensku bankanna við að afla lánsfjármagns á mörkuðum. Nýja skýrslan ber hins vegar yfirskriftina Inspired by Iceland.

Fram kemur í nýju greiningunni að helsta ógnin sem steðji að íslensku bönkunum væri möguleg leiðrétting á húsnæðisverði og bakslag í ferðamennsku. Skýrsluhöfundar reikna þó ekki með að það fari svo. Húsnæðisverð hafi ekki hækkað hraðar en laun fyrr en nýlega. Margir leigi hins vegar út íbúðir til ferðamanna og því gæti samdráttur í ferðamennsku leitt til lækkunar á íbúðarverði. Greinarhöfundar telja að ferðamennskan hér á landi sé komin til að vera. Vísa þeir til úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem segir að aukinn ferðamannastraumur hafi tilhneigingu til að vera varanlegur.

Meðal annarra álitaefna sem vakin er athygli á í skýrslunni er að það ríkir óvissa um með hvaða hætti fjármögnun og lánveitingar bankanna muni breytast ef þeim verður fleytt á hlutabréfamarkað og eignarhaldið ekki lengur á hendi ríkisins.

Ekki sjálfgefið

Jóhann Ottó Wathne, forstöðumaður fjárstýringar Íslandsbanka, segir í samtali við Morgunblaðið að það eigi ekki að taka það sem sjálfsagðan hlut að fjármálastofnun á borð við Danske Bank ákveði að hefja reglubundna greiningu á íslensku bönkunum. Fyrir utan lánshæfismatsfyrirtækin séu SEB og Pareto einu erlendu aðilarnir sem hafi birt opinberar greiningar á íslensku efnahagslífi og íslensku bönkunum frá árinu 2008. „Danske Bank er atkvæðamikill í greiningu, sölu og miðlun á skuldabréfum fjármálastofnana á Norðurlöndunum og eru greiningar bankans sendar til viðskiptavina hans út um allan heim.

Skýrsluhöfundar nefna að álagið á skuldabréf bankanna á eftirmarkaði útgefnum í evrum sé 30-40 punktum hærra en á bönkum með sambærilegt lánshæfismat og mæla því með kaupum á bréfunum,“ segir Jóhann.

„Greiningin er einkar jákvæð fyrir íslensku bankana og önnur íslensk fyrirtæki sem fjármagna sig í erlendri mynt. Samhliða góðum gangi í íslensku efnahagslífi, afléttingu fjármagnshafta og bættum undirliggjandi rekstri íslensku bankanna hafa kjör þeirra á erlendum mörkuðum farið batnandi á síðustu misserum. Það er von okkar að sú þróun haldi áfram til þess að bankarnir geti veitt betri kjör til viðskiptavina sinna sem hafa þörf fyrir lánsfé í erlendri mynt,“ segir hann.

Undraverð sprengja

Fram kemur í skýrslu Danske Bank að hérlendis hafi verið mikill hagvöxtur samhliða ríkulegum viðskiptaafgangi á undanförnum árum. Það megi rekja til undraverðar ferðamannasprengju. Hagsveiflan hafi leitt til minni skuldsetningar í hagkerfinu, þ.e. hjá heimilum, fyrirtækjum og ríkissjóði, og bankarnir hafi nýtt meðbyrinn til að endurskipuleggja rekstur sinn. Skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu séu lítillega hærri en hjá Danmörku og Svíþjóð. Útlánavöxtur hafi verið í takt við hagvöxt og þyki ekki fara fram úr hófi á neinn mælikvarða. Fyrirtæki hafi á liðnum árum fjármagnað fjárfestingar að stórum hluta með eigin fé. Hlutfall skulda fyrirtækja af vergri landsframleiðslu var 80% í fyrra, sem er á pari við hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Skýrsluhöfundar benda á að nú sé farið að draga úr hagvextinum. Vöxturinn sé samt sem áður meiri en annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu. Bent er á að við mikinn vöxt og ofþenslu klingi viðvörunarbjöllur hjá skuldabréfafjárfestum. Það að farið sé að hægja á hagvexti og hann verði sjálfbær til lengri tíma litið séu jákvæð tíðindi í huga skuldabréfafjárfesta.

Pólitískur óstöðugleiki

Aukna pólitíska óvissu í kjölfar stjórnarslita ber á góma í skýrslunni og rakið er að síðar í mánuðinum verði þriðju alþingiskosningarnar á fjórum árum. Skýrsluhöfundar segja að frá sjónarhóli skuldabréfafjárfesta ætti pólitískur óstöðugleiki ekki að hafa áhrif á raunhagkerfið og að yfirleitt sé ríkisstjórn landsins mynduð af tveimur eða fleiri flokkum.
Svartsýnir árið 2006
» Danske Bank birti umtalaða skýrslu um Ísland í mars 2006 sem bar heitið Ísland: Geysiskrísan.
» Þar voru taldar líkur á fjármálakreppu 2006-2007 vegna erfiðleika íslensku bankanna við að afla lánsfjármagns á mörkuðum.
» Nýja skýrslan er jákvæð í garð íslensks efnahagslífs.