Leikkonan Rose McGowan
Leikkonan Rose McGowan
Bandaríska leikkonan Rose McGowan hefur sakað kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um nauðgun og hún er fjórða konan sem ber hann þeim sökum.

Bandaríska leikkonan Rose McGowan hefur sakað kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um nauðgun og hún er fjórða konan sem ber hann þeim sökum. McGowan sagði á Twitter að hún hefði sagt Roy Price, yfirmanni Amazon Studios, frá nauðguninni en hann hefði virt ásökunina að vettugi. Price hefur fengið fjarvistarleyfi hjá fyrirtækinu vegna þess að hann hefur sjálfur verið sakaður um kynferðislega áreitni. Fyrirtækið er dótturfélag Amazon og framleiðir kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Weinstein hefur neitað öllum ásökunum um nauðgun. Skýrt hefur verið frá því að lögreglan í New York-borg hafi hafið rannsókn á ásökun ungrar leikkonu um að Weinstein hafi þvingað hana til samræðis árið 2004. Breska lögreglan hefur einnig hafið rannsókn á hendur Weinstein vegna meintrar kynferðislegrar árásar á leikkonu fyrir 30 árum.