Karlalið Stjörnunnar í meistaraflokki tók fyrst þátt í Íslandsmótinu í handknattleik 1972 og lék þá í A-riðli 2. deildar sem skipt var upp í tvo riðla.

Karlalið Stjörnunnar í meistaraflokki tók fyrst þátt í Íslandsmótinu í handknattleik 1972 og lék þá í A-riðli 2. deildar sem skipt var upp í tvo riðla. Stjörnuliðið lék átta leiki í riðlinum og tapaði þeim öllum en andstæðingarnir voru Grótta, Þróttur og Akureyrarliðin KA og Þór. Árið eftir gekk aðeins betur en engu að síður voru það örlög Stjörnunnar að falla niður í nýstofnaða 3. deild eftir keppnistímabilið 1973. Strax árið eftir vann Stjarnan sig upp í 2. deild.

Þegar íþróttahúsið í Ásgarði var tekið í notkun 1974 óx vegur handknattleiksins innan Stjörnunnar. Á árunum á eftir var Stjarnan lengst af í 2. deild en féll þó niður í 3. deild vorið 1979. Vorið 1981 vann Stjarnan 3. deild og árið eftir varð liðið deildarmeistari í 2. deild, næstefstu deild, og vann sér sæti í efstu deild undir stjórn Gunnars Einarssonar, núverandi bæjarstjóra í Garðabæ. Hann var þá nýkominn eftir nokkurra ára veru í Þýskalandi hjá Göppingen og Grambke-Bremen. Strax á fyrsta keppnistímabili hafnaði Stjarnan í 4. sæti 1. deildar.

Frá því að Stjarnan komst upp í efstu deild 1982 hefur liðið lengst af átt lið í efstu deild karla.

Stjarnan varð bikarmeistari karla í fyrsta sinn 1987 undir stjórn Páls Björgvinssonar þjálfara. Tveimur árum síðar vann Stjarnan bikarinn á nýjan leik. Tæpum 20 árum síðar, 2006 og 2007, vann Stjarnan bikarkeppnina tvö ár í röð.

Stjarnan hefur tvisvar orðið deildarmeistari í næstefstu deild karla, 1982 og 2016, og þrisvar í 3. deild, 1974, 1976 og 1981.