Veðurstofan Mögulegt að húsinu verði breytt í íbúðarhús í framtíðinni.
Veðurstofan Mögulegt að húsinu verði breytt í íbúðarhús í framtíðinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt drög að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um lóðir kringum Veðurstofu Íslands í Öskjuhlíð annars vegar og Sjómannaskólann (nú Tækniskóla Íslands) við Háteigsveg hins vegar. Af hálfu ráðuneytisins er samkomulagið gert með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Með samkomulaginu hafa aðilar sammælst um að ríkið skili þeim hluta leigulóðar sem Veðurstofan þarf ekki að nota undir starfsemi sína til framtíðar. Borgin mun skipuleggja hluta af svæðinu þannig að þar megi koma fyrir íbúðabyggð sem hentar námsmönnum, tekjulágum og ungu fólki til fyrstu kaupa. Áætlað er að á reitnum geti risið allt að 150 íbúðir.

Reykjavíkurborg mun tryggja að tekið verði fullt tillit til starfsemi Veðurstofunnar á svæðinu til framtíðar. Reykjavíkurborg mun kosta færslu núverandi veðurmæla stofnunarinnar austan megin við hús hennar á nýja lóð vestan megin við núverandi lóð hennar. Jafnframt mun borgin í samstarfi og samráði við Veðurstofuna finna fimm ný svæði til veðurmælinga á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar þeim fimm svæðum sem fyrir eru. Þá tryggir Reykjavíkurborg með samkomulagi þessu að hægt verði að notast við núverandi veðurmæla samhliða nýjum mælum vestar á lóðinni í 24 mánuði til samanburðar á mæliniðurstöðum.

Í nýju skipulagi fyrir svæðið verður gert ráð fyrir byggingarreit fyrir mögulega nýja byggingu fyrir Veðurstofuna í samráði við stofnunina. Gert verður ráð fyrir þeim möguleika að hægt verði að breyta núverandi húsnæði stofnunarinnar í íbúðir verði það talið hagstæður kostur.

Reykjavíkurborg mun einnig skipuleggja lóð Sjómannaskólans þannig að þar megi koma fyrir íbúðabyggð sem hentar námsmönnum, tekjulágum og ungu fólki til fyrstu kaupa. Þarna er gert ráð fyrir allt að 120 íbúðum.

Borgin mun taka fullt tilliti til starfsemi skólans á reitnum, segir ma. í samkomulaginu.