Bestu vinir Edda og Spori skemmta sér saman í rólu.
Bestu vinir Edda og Spori skemmta sér saman í rólu.
„Ég eignaðist minn fyrsta alspora árið 1973 þegar ég hóf störf sem dýralæknir.

„Ég eignaðist minn fyrsta alspora árið 1973 þegar ég hóf störf sem dýralæknir. Ég kallaði hann Spora og fékk hann hjá henni Sigríði á Ólafsvöllum sem ræktaði íslenska fjárhunda,“ segir Ármann Gunnarsson og bætir við að hann hafi seinna fengið sér annan slíkan hund og auk þess eigi dóttir hans núna alspora tík.

„Ég hef því þó nokkra reynslu af þeim, þetta eru samtals um þrjátíu ára kynni af slíkum hundum, og það eru afar góð kynni. Þessir hundar voru hér áður fyrr taldir miklar gersemar og þeir gengu nokkuð dýru verði, enda mjög sjaldgæfir,“ segir Ármann og bætir við að fyrri alsporinn hans hafi sannarlega verið mikil gersemi.

„Spori stóð vel undir því sem sagt er um alspora, að þeir séu meiri karakterar en aðrir hundar og að þeir séu sérlega kjarkmiklir. Hann var mikill snillingur og gerðist eini og besti leikfélagi frumburðar míns, Eddu elstu dóttur minnar. Hún vissi ekkert annað en að Spori væri hennar leikfélagi, enda ólst hún upp með honum til jafns við okkur mannfólkið. Þegar næsta barn kom í heiminn hjá okkur fjölskyldunni og ég fór upp á spítala með dóttur mína að skoða litlu systur, þá horfði hún lengi á hana og sagði svo undrandi: „Pabbi, hún er með hendur!“ Hún hafði gert ráð fyrir að barnið yrði hvolpur,“ segir Ármann og hlær.

Spori vaktaði barnavagninn þegar barnið svaf

„Spori var mjög kjarkmikill og duglegur, hann lá ævinlega við barnavagn dóttur minnar þegar hún svaf úti og passaði að enginn ókunnugur kæmist að vagninum. Hann var frábær í alla staði.“ Ármann segist hafa fengið seinni alspora hundinn sinn hjá Guðnýju Höllu Gunnlaugsdóttur í Búlandi. „Hann komst upp á það hjá mér að elta allt sem hreyfðist, meira að segja flugvélar, en hann var gríðarlega fallegur og skemmtilegur hundur innandyra. Edda dóttir mín eignaðist þennan seinni alspora minn, og hún gaf hann vini sínum í Ameríku, Þórði Runólfssyni, þar sem hann varð frægur kynbótahundur.“

Ármann segir að báðir alspora hundarnir hans hafi verið gríðarlega fljótir að synda. „Þeir voru í raun hraðsyndir, enda loppurnar stórar á þeim. Í lausasnjó flutu þeir betur en aðrir hundar, þeir sukku ekki eins mikið. Þetta eru eiginleikar sem komu sér vel hér áður fyrr þegar þeir voru fyrst og fremst vinnuhundar á bóndabæjum. Alsporar þóttu úrvalsgóðir fjárhundar en þessir hæfileikar þeirra skipta vissulega ekki máli í dag, nú eru þeir orðnir sígjammandi stofuhundar og sýningarhundar, sem ég hef mestu skömm á.“

Ármann segir að af kynnum hans af alsporum hafi hann komist að því að þeir hafi óvenjulega skapgerð, fyrir utan hin líkamlegu einkenni.

„Alspora tíkin sem Edda dóttir mín á núna, hún er aðeins sex mánaða en hefur sýnt það strax að hún er gríðarlega kjarkmikil og sterkur karakter. Ég er algerlega á móti því að taka þetta alspora einkenni íslenska fjárhundsins út úr dómskalanum eða lýsingunni. Og það er mesti misskilningur að alsporar séu allir útskeifir, það var ekki til í hundunum mínum. Ég vil ekki að þessi sérkenni tapist, og ég er ekki viss um að það sé auðvelt að rækta þetta úr þeim, þetta er dulinn eiginleiki og getur komið upp hvenær sem er. Sem betur fer.“