Umdeild ræða Donald Trump Bandaríkjaforseti heldur ræðu um samninginn við Íran í Hvíta húsinu.
Umdeild ræða Donald Trump Bandaríkjaforseti heldur ræðu um samninginn við Íran í Hvíta húsinu. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í ræðu í gær að hann hygðist ekki staðfesta samninginn sem gerður var við klerkastjórnina í Íran fyrir tveimur árum í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í ræðu í gær að hann hygðist ekki staðfesta samninginn sem gerður var við klerkastjórnina í Íran fyrir tveimur árum í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins. Trump gekk ekki svo langt að rifta samningnum eins og hann hafði lofað áður en hann var kjörinn forseti. Hann hótaði þó að gera það síðar ef Bandaríkjaþing og samstarfsríki í Evrópu næðu ekki fram þeim breytingum sem hann vildi.

Með samningnum við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland frá árinu 2015 skuldbatt klerkastjórnin í Íran sig til að takmarka verulega kjarnorkuáform sín gegn því að viðskiptaþvingunum gegn landinu yrði aflétt.

Stjórn Rússlands gagnrýndi stefnu Trumps í Íransmálinu eftir ræðuna og stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi sögðust styðja samninginn við Íran.

NATO-ríki í Evrópu og öryggisráðgjafar Trumps höfðu lagt fast að honum að rifta ekki samningnum. Þeir óttast að það geti orðið til þess að Íranar hefji framleiðslu kjarnavopna og vígbúnaðarkapphlaup hefjist í Mið-Austurlöndum. Forsetinn samþykkti með semingi í sumar að staðfesta að afnám refsiaðgerðanna gegn Íran þjónaði hagsmunum Bandaríkjanna en gaf til kynna að hann myndi ekki gera það aftur næst þegar metið yrði hvort Íranar hefðu staðið við skilmálana.

Forsetinn sagði að Íranar hefðu brotið gegn „anda samningsins“ þegar hann tilkynnti þá ákvörðun sína að staðfesta ekki að hann þjónaði hagsmunum Bandaríkjanna. Trump lýsti honum sem „versta samningi í sögu Bandaríkjanna“ og sagði að landið gæti sagt honum upp hvænær sem væri.

Forsetinn boðaði einnig harðari refsiaðgerðir gegn Byltingarverðinum, úrvalssveitum sem Ruhollah Khomeini erkiklerkur stofnaði eftir íslömsku byltinguna í Íran 1979. Trump gekk þó ekki svo langt að skilgreina Byltingarvörðinn sem hryðjuverkasamtök.

Kemur til kasta þingsins

Ákvörðun Trumps um að staðfesta ekki að afnám refsiaðgerðanna þjóni hagsmunum landsins verður til þess að þingið þarf að ákveða innan tveggja mánaða hvort grípa eigi til refsiaðgerða gegn landinu að nýju. Verði það gert er líklegt að klerkastjórnin í Íran segi upp samningnum. Tveir repúblikanar í öldungadeildinni, Tom Cotton og Bob Corker, hafa lagt fram tillögur sem gætu leitt til refsiaðgerða gegn Íran ef landið brýtur samninginn. Ekki er víst að tillögurnar fái nægan stuðning í deildinni því að minnst 60 af 100 þingmönnum hennar þurfa að samþykkja þær.