Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Árið 2016 drógust tekjur í sjávarútvegi saman um 25 milljarða eða 9% og EBITDA lækkaði um 15 milljarða eða 22%, en tekjutapinu var að hluta mætt með lækkun kostnaðar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Árið 2016 drógust tekjur í sjávarútvegi saman um 25 milljarða eða 9% og EBITDA lækkaði um 15 milljarða eða 22%, en tekjutapinu var að hluta mætt með lækkun kostnaðar. Einkum má rekja ástæðuna til styrkingar krónunnar og minni loðnuafla. Líkur eru á að afkoma versni enn nokkuð á núverandi rekstrarári.

Þetta kemur fram í áfangaskýrslu Deloitte um rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra og Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, ákváðu í sumarbyrjun að gerð skyldi úttekt á stöðunni. Þar skyldi m.a. horft sérstaklega til þess hvaða áhrif styrking krónunnar og sjómannaverkfallið hefðu haft og áhrifin á virðiskeðju sjávarútvegsins skoðuð sérstaklega.

Úttekt Deloitte byggist á ársreikningum sjávarútvegsfélaga fyrir 2016 og ná gögn Deloitte til um 90,6% þorskígilda en tölur vegna 2015 ná til 90,7%. Upplýsingar frá Ríkisskattstjóra, sem eru nauðsynlegar til að brjóta niðurstöðurnar niður á einstök útgerðarform, munu liggja fyrir í nóvember og lokaskýrsla í kjölfarið.

Tekjutap í botnfiski

Fram kemur í lykilniðurstöðum skýrslu Deloitte að afkoman hafi versnað milli ára óháð úthlutuðum afla. Stærri félög virðist þó eiga auðveldara með að ná fram kostnaðarsparnaði á móti tekjusamdrætti.

Afkoma botnfiskútgerða og -vinnslu versnaði mest milli ára en félög í botnfiskútgerð urðu af mestu tekjunum. Afkoma og tekjur minnkuðu í öllum flokkum milli ára, en lítill hluti heildarfjölda fyrirtækja með aflaheimildir undir 1.000 þorskígildistonnum er í úrtakinu, eða einungis 27 félög. Niðurstaðan þarf því ekki að vera lýsandi fyrir þann hóp í heild sinni, segir í skýrslunni.

Á árunum 2016 og 2017 þróuðust ytri hagstærðir almennt með neikvæðum hætti fyrir sjávarútvegsfélög. Verðlag afurða lækkaði verulega í íslenskum krónum og launavísitalan hækkaði. Lækkun olíuverðs hafði nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016 en 2017 hefur olíuverð tekið að hækka að nýju.

„Meðalgengi krónu 2016 var 10,6% sterkara en 2015. Þrátt fyrir að styrking krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á tekjur greinarinnar hefur hún án efa unnið með greininni að hluta hvað varðar ýmis keypt aðföng s.s. olíu, varahluti, veiðarfæri og umbúðir,“ segir í skýrslunni.

Þar segir einnig að skuldastaða greinarinnar í heild hafi þróast með jákvæðum hætti að því leyti að heildarskuldir hafi minnkað og eiginfjárhlutfall hækkað. Lækkun skulda megi að nokkru leyti rekja til styrkingar krónunnar sem leitt hafi til lækkunar skulda í erlendri mynt. Greiðslugeta hafi hins vegar heldur minnkað.

Lækkun á afurðum

Á fyrstu átta mánuðum þessa árs er veitt magn orðið tæplega 7% meira en 2016. Munar þar mest um auknar veiðar á loðnu samanborið við síðasta ár. Meðalverð á sjávarafurðum lækkaði talsvert milli ára í íslenskum krónum eða um 8,5% þrátt fyrir hækkun í erlendri mynt.