Einn af fjórum læknum, sem gagnrýndu fyrst plastbarkaaðgerðir ítalska skurðlæknisins Paolos Macchiarinis, segir að sú ákvörðun sænskra saksóknara að ákæra hann ekki sé „réttarhneyksli“.

Einn af fjórum læknum, sem gagnrýndu fyrst plastbarkaaðgerðir ítalska skurðlæknisins Paolos Macchiarinis, segir að sú ákvörðun sænskra saksóknara að ákæra hann ekki sé „réttarhneyksli“.

Saksóknarar hófu rannsókn á málinu í fyrra og tilkynntu í fyrradag að þeir hefðu ákveðið að fella hana niður án ákæru. Saksóknarinn Jennie Nordin sagði að ekki væri hægt að sanna að plastbarkaaðgerðin hefði valdið dauða þriggja sjúklinga sem dóu eftir að Macchiarini hafði grætt í þá plastbarka á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Erfitt að sanna lögbrot

Saksóknararnir komust að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um „gáleysi“ í fjórum af fimm aðgerðum og þær hefðu ekki samrýmst hefðbundnum starfsreglum skurðlækna. Mál sjúklinganna væru þó mjög flókin og sérfræðingar væru ekki sammála um hvers konar meðferð sjúklingarnir hefðu átt að fá. Mjög erfitt væri því að sanna að plastbarkaaðgerðirnar hefðu valdið þeim meinum sem drógu sjúklingana til dauða síðar. „Við höfum ekki getað sannað að lögbrot hafi verið framið,“ sagði Nordin.

„Ég gerði mitt besta til að veita þessum sjúklingum með banvænan sjúkdóm möguleika á lækningu,“ hefur fréttaveitan AP eftir Macchiarini. Hann gagnrýndi umfjöllun fjölmiðla um málið og sagði að „rógur“ um lækna, sem reyndu að gera sitt besta fyrir sjúklinga við mjög erfiðar aðstæður, gæti aðeins „haft skaðleg áhrif á lækna og sjúklinga í framtíðinni“.

Karl-Henrik Grinnemo, einn fjögurra lækna sem lýst hefur verið sem „uppljóstrurum“ í málinu, segir niðurstöðu saksóknaranna valda sér miklum vonbrigðum. Sænska dagblaðið Expressen hefur eftir honum að hann „finni fyrir miklum tómleika“ vegna niðurstöðunnar sem hann segir vera „réttarhneyksli“. „Það virðist vera algerlega tilgangslaust núna að tilkynna um alvarleg brot í starfi þegar ekkert er gert við þeim. Geta menn í framhaldinu gert hvað sem þeir vilja við sjúklinga án þess að það leiði til ákæru?“