Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fram kom í skýringum með frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins, sem lagt var fram af Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, haustið 2009, að hækka þyrfti skatta á efnafólk.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fram kom í skýringum með frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins, sem lagt var fram af Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, haustið 2009, að hækka þyrfti skatta á efnafólk.

Þar sagði meðal annars orðrétt:

„Í ljósi þeirrar miklu eignatilfærslu sem orðið hefur á undanförnum árum og samþjöppunar á eignarhaldi hefur verið til skoðunar að taka upp skatt á hreina eign, en þá með mjög háu fríeignarmarki fyrir einstaklinga. Samkvæmt framtölum vegna álagningar 2009 áttu 1.400 hjón hreina eign yfir 120 millj. kr. samtals að fjárhæð um 208 milljarðar kr. eða að meðaltali um 270 millj. kr. á hjón. Þessi 2,2% hjóna áttu um fjórðung hreinnar eignar í landinu samkvæmt framtölum einstaklinga.“

Ekki óeðlilegt að hækka skatta

Síðan voru færð rök fyrir skattahækkunum á umræddan hóp.

„Augljóst má telja að þeir aðilar sem safnað hafa miklum eignum á undanförnum árum hafa notið þess að skattar á fjármagnstekjur hafa verið lágir auk annarra hagstæðra skattareglna. Hafa þeir notið lækkandi skattlagningar á meðan allur almenningur hefur axlað þyngri byrðar. Meðal annars af þeim sökum þykir ekki óeðlilegt að við þær aðstæður sem nú eru verði skattbyrði þessa hóps aukin nokkuð frá því sem áður var.“

Á eign umfram 90 milljónir

Fylgdi með tillaga um innleiðingu auðlegðarskatts. Hann varð að veruleika með lögum nr. 128/2009. Skatturinn reiknaðist 1,25% af nettóeign umfram 90 millj. kr. hjá einstaklingi og 120 millj. kr. hjá hjónum. Með lögum nr. 164/2010 hækkaði auðlegðarskatturinn. Hann var 1,50% af nettóeign umfram 75 millj. kr. hjá einstaklingi og umfram 100 millj. kr. hjá hjónum. Með lögum nr. 164/2011 var skatturinn reiknaður 1,5% af nettóeign á bilinu 75-150 millj. kr. hjá einstaklingi og á bilinu 100-200 millj. kr. hjá hjónum/samsköttuðum. Af hreinni eign umfram 150 millj. kr. hjá einstaklingi og 200 millj. kr. hjá hjónum/samsköttuðum greiddist 2% auðlegðarskattur.

Fyrirkomulag auðlegðarskattsins var óbreytt árin 2013 og 2014.