Pálmi Jónsson, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fæddist 11. nóvember 1929 á Akri, Austur-Húnavatnssýslu. Hann lést á Vífilsstöðum 9. október 2017.
Foreldrar hans voru hjónin Jónína Ólafsdóttir, f. 1886, húsfreyja á Akri, og Jón Pálmason, f. 1888, bóndi á Akri, alþingismaður, landbúnaðarráðherra og forseti sameinaðs þings. Systkini Pálma voru Ingibjörg, f. 1917, Eggert Jóhann, f. 1919, Margrét Ólafía, f. 1921, Salóme, f. 1926, þau eru öll látin.
Eftirlifandi eiginkona Pálma er Helga Sigfúsdóttir, f. 1936, húsfreyja á Akri. Börn þeirra eru: 1) Jón Pálmason, f. 1957, rafmagnsverkfræðingur, kvæntur Marianne Skovsgård Nielsen, f. 1958, félagsráðgjafa og þýðanda. Börn þeirra Níels Pálmi Skovsgård Jónsson, f. 1988, Henrik Skovsgård Jónsson, f. 1990, Anna Elísabet Skovsgård Jónsdóttir, f. 1994, unnusti Sturla Lange, f. 1994. 2) Jóhanna Erla Pálmadóttir, f. 1958, bóndi og framkvæmdastjóri, gift Gunnari Rúnari Kristjánssyni, f. 1957, bónda og hagfræðingi. Börn þeirra eru Helga Gunnarsdóttir, f. 1983, og Pálmi Gunnarsson, f. 1989. 3) Nína Margrét Pálmadóttir, f. 1970, ferðamálafræðingur, gift Ómari Ragnarssyni, f. 1957, yfirlækni. Börn þeirra eru Helga Sólveig Ómarsdóttir, f. 2002, og María Rut Ómarsdóttir, f. 2003. Fyrir átti Nína Margrét Ragnar Darra Guðmundsson, f. 1993. Fyrir átti Ómar, Unni Björgu Ómarsdóttur, f. 1984, sambýlismaður Hrafnkell Már Stefánsson, f. 1984, og Frímann Hauk Ómarsson, f. 1986, kvæntur Tinnu Björk Gunnarsdóttur, f. 1985.
Pálmi ólst upp á Akri í Torfalækjarhreppi við öll almenn sveitastörf. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum að Hólum árið 1948. Pálmi tók við búi á Akri 1953 og var þar bóndi til 1997. Hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Norðurlandi vestra árið 1967 og sat á Alþingi til ársins 1995. Pálmi var landbúnaðarráðherra 1980-1983, var lengi í fjárlaganefnd Alþingis og formaður samgöngu- og allsherjarnefndar. Pálmi var virkur í félagsstörfum. Hann var formaður Jörundar, FUS í Austur-Húnavatnssýslu, 1963-1964. Sat í hreppsnefnd Torfalækjarhrepps 1962-1974. Í stjórn Rarik um áratuga skeið og sem formaður stjórnar 1978-1990. Sat í Hafnaráði 1984-1987. Í ríkisfjármálanefnd 1984-1987. Í stjórn Byggðastofnunar 1991-1993. Pálmi sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1991. Hann var yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1992-1995. Formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands frá 1994-2000.
Minningarathöfn um Pálma Jónsson fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 14. október 2017, klukkan 11.
Útför fer fram frá Blönduóskirkju 16. október 2017 klukkan 14. Jarðsett verður í Þingeyraklausturskirkjugarði.
Það var stjórnarkreppa í landinu frá því í byrjun desember. Það var komið fram undir mánaðamót janúar/febrúar. Kalt, hráslagaveður. Allir búnir að tala við alla. Gunnar Thoroddsen birtist á sviðinu og við fórum heim til hans við Steingrímur Hermannsson. Hann fyrir Framsóknarflokkinn, ég fyrir Alþýðubandalagið. Við ræddum málefnaforsendur samstarfs en það á alltaf að byrja á því. Í ljós kom að það gat gengið, sjá bók mína Hreint út sagt 2012. „En hvað hefur þú marga með þér, Gunnar,“ spurðum við. Fengum óljós svör. Svo var haldinn fundur í Rúblunni að Laugavegi 18 á lögmannsstofu Ásgeirs Thoroddsen, sonar Gunnar. Um að gera að hafa fundinn á afviknum stað. Við urðum samferða upp í lyftunni við Pálmi Jónsson, þekktumst varla. Við fundarborðið varð ég Gunnari á hægri hönd, Pálmi á vinstri, horfðumst í augu, yfir borðið. Gagnkvæm tortryggni. Svo var farið að tala saman. Og það gerðum við Pálmi síðan í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen nærri daglega í rúm þrjú ár. Milli okkar myndaðist traust og svo vinátta. Einu sinni vorum við spurðir af einhverju blaði sinn í hvoru lagi, óvitandi hvor af öðrum, hvaða kosti við teldum mikilvægasta hjá einum stjórnmálamanni. Við svöruðum því sama: Að stjórnmálamaður standi við orð sín, sé orðheldinn. Við kunnum báðir að meta það að ráðherrar kynnu sína málaflokka í þaula. Það gerði Pálmi öllum mönnum betur, ég reyndi að læra mína.
Svo tengdi okkur sveitamennskan. Hann frá Akri þar sem þau Helga voru bændur; þar hafði hann alist upp hjá foreldrum sínum, pabbi hans, Jón Pálmason, hafði verið alþingismaður, ráðherra og bændahöfðingi. Þegar við sátum saman að tala um ekki neitt sérstakt var talað um sveitir og sauðfé. Einu sinni kepptum við í hrútadómum, innbyrðis að vísu. Segi ekki hvor vann. Pálmi var annars allra manna best íþróttum búinn og átti fjölda héraðsmeta í margskonar íþróttagreinum.
Sjálfstæðisflokkurinn tók því illa þegar Pálmi, Friðjón og Gunnar mynduðu stjórnina með Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokknum. Fyrirgangurinn í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gegn Friðjóni, Pálma og Gunnari var yfirgengilegur. Ekki varð það árásarmönnum alltaf til framdráttar. Þegar kom til kosninganna vorið 1983 eftir Gunnarsstjórnina unnu ráðherrarnir sem höfðu starfað í Gunnarsstjórninni stærstu kosningasigrana fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fylgið á Vesturlandi fór úr 30,9% atkvæða í 34,7%, en fylgið í Norðvesturkjördæmi úr 28,1% í 31,3% atkvæða. Listar sama flokks á Vestfjörðum og í Reykjavík töpuðu fylgi.
Fyrir tveimur árum komu þau Helga og Pálmi með okkur í Félagi fyrrverandi alþingismanna til Vestmannaeyja. Það var gaman og hlegið ótæpilega. Þau voru skemmtileg hjón. Á milli heimila okkar í Reykjavík er snertispölur. Þá hittumst við Pálmi stundum í Sunnubúðinni; þá tók lengri tíma að kaupa mjólkurpottinn en venjulega.
Orðheldinn og öflugur maður er fallinn. Pólitískt áttum við ekki oft samleið en vinátta okkar var heil.
Helgu og niðjum þeirra sendum við Guðrún samúðarkveðjur.
Svavar Gestsson.
Þetta kjörtímabil reyndist mjög andbrekkis. Samdráttur var í þjóðarbúskapnum og tekjur ríkissjóðs drógust saman. Stjórn ríkisfjármála var því strembin og mikið átak að koma saman fjárlögum. Okkar, sem settumst í fjárlaganefnd á þessum tíma, beið því krefjandi starf. Þá var gott fyrir ungan þingmann að njóta í nefndinni leiðsagnar hins reynslumikla og virta þingmanns Pálma Jónssonar sem var öllum hnútum kunnugur í fjárlaganefndinni og kveinkaði sér aldrei undan því að takast á við erfitt verkefni.
Ég hafði vitaskuld haft kynni af Pálma fyrr. Einkanlega á vettvangi Sjálfstæðisflokksins en svo naut ég þess líka að ættir hans lágu vestur til Bolungarvíkur. Barst það oft í tal okkar í millum, bæði fyrr og síðar og var augljóst að báðum þótti gaman að og það styrkti vináttuböndin.
Pálma var einkar létt um mál. Hann var vörpulegur í ræðustóli og flutti mál sitt þannig að eftir var tekið. Þó árin færðust yfir var Pálmi ætíð brennandi í sínum pólitíska anda. Hann mætti á stjórnmálafundi, jafnt fyrir norðan sem og syðra og lét til sín taka. Undantekningarlaust tók hann til máls, lagði okkur góð ráð og hvatti til dáða. Síðast man ég hann í ræðustóli fyrir um ári síðan á fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins; sem fyrr kempulegur og skýr og flutti mál sitt blaðlaust og áreynslulaust. Reynsla hans af störfum Alþingis og djúp þekking á högum umbjóðenda sinna fyrir norðan gerði það að verkum að málatilbúnaður hans var ígrundaður og aldrei sú yfirborðssigling sem stundum mætir manni á hinni pólitísku lífsins leið. Þetta skapaði honum virðingu og vinsældir, ekki síst í kjördæminu sem hann gjörþekkti.
Pálmi á Akri var ekki einasta stjórnmálamaður. Hann var bóndi og það í merg og bein. Maður þurfti ekki lengi að ræða við hann til þess að skynja hversu sterkum böndum hann var bundinn átthögunum, búskapnum og landinu. Þó hann þyrfti oft að vera fjarri heimahögunum vegna starfa sinna á Alþingi slitnuðu ræturnar aldrei. Að fara heim var að fara heim að Akri.
Pálmi Jónsson var minnisstæður maður sem gott var sækja ráðin til. Konu hans Helgu Sigfúsdóttur, vinkonu okkar hjóna, sendum við Sigrún innilegar samúðarkveðjur sem og börnum þeirra hjóna, Jóni, Jóhönnu og Nínu Margréti og fjölskyldum þeirra. Blessuð sé minning Pálma á Akri.
Einar K. Guðfinnsson.
Pálma stóðu landbúnaðarmálin nærri og þar hafði hann mikið fram að færa. Sem landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen setti hann mark sitt á þau og minnisstæð er framganga hans og Ragnars Arnalds sem þá var fjármálaráðherra í endurreisn Hólaskóla. Setu Pálma í ríkisstjórn Gunnars bar ósjaldan á góma í samtölum okkar og vangaveltum um menn og málefni. Mér var minnisstætt þegar hann upplýsti mig um að þeir félagarnir í ríkisstjórninni hefðu alls ekki viljað fara frá um sumarið 1982 þrátt fyrir að stjórnin hefði þá ekki haft nauðsynlegan styrk til að ráða fram úr málum. Ástæðan var sú að hann taldi að það væri óhjákvæmilegt að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði fyrir fullt og allt ef stjórnin færi frá á þeim tíma. Og það kom líka á daginn að hann og aðrir Gunnarsmenn komu inn í hópinn fyrir kosningarnar í apríl 1983. Erfitt hefði verið að ímynda sér Pálma annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum.
Ég lærði heilmikið af Pálma í pólitíkinni. Hann sýndi mér fram á að það var alltaf best að vera maður sjálfur og samkvæmur sjálfum sér. Það var ekki endilega betra til að fá traust kjósenda að hlaupa eftir dægursveiflum og fjölmiðlafári heldur ræða málin af yfirvegun og án sleggjudóma og með virðingu fyrir öllum einstaklingum og málefnalegum sjónarmiðum.
Pálmi var mikill fjölskyldumaður og hann og Helga voru afar samrýmd og samtaka. Hann hafði dyggan stuðning af fjölskyldu sinni sem hafði mikið að segja í öllu því vafstri og átökum sem fylgdu stjórnmálaþátttökunni. Ég votta fjölskyldunni mína innilegustu samúð.
Ég tel mig hafa verið lánsaman að fá að kynnast Pálma og starfa með honum. Hann er einn af þeim samferðamönnum í lífinu sem ég hef borið mikla virðingu fyrir. Guð blessi minningu hans.
Vilhjálmur Egilsson.
Haustið 1982 fer ég fyrsta sinni á hrútasýningar á svæði Pálma. Þar kynntist ég honum sem fjárræktarmanni og eftir það áttum við mikil og góð samskipti á því sviði. Þó að hann ætti ákaflega vítt áhugasvið met ég út frá þeim kynnum að á fáum sviðum hafi áhuginn verið meiri og stríðari. Hæfileikar hans á því sviði voru einnig einstakir. Mat mitt er að hann hafi haft meiri hæfileika á því sviði en nær allir bændur í landinu. Þess vegna vil ég fara örfáum orðum um starf hans að þessu hugarefni, fjárræktinni.
Í fyrrnefndri ferð 1982 var mér strax ljóst að fjárrækt Pálma bar af annarri á því svæði. Nær allir sem árangri náðu á svæðinu sóttu til hans kynbótafé og ráð og hafði svo verið þá á annan áratug.
Búið á Akri er hins vegar í einu versta varnarhólfi landsins í illvígri baráttu við riðuveiki. Í upphafi tíunda áratugarins greindist þessi vágestur í fénu á Akri. Áratuga glæsilegt ræktunarstarf varð á svipstundu að engu gert á búinu. Margir bændur sem sótt höfðu kynbótagripi áður til Pálma nutu hins vegar starfa hans og gera enn.
Þrátt fyrir þetta mikla áfall í þessu starfi lét Pálmi ekki deigan síga heldur tók strax nýjan fjárstofn. Þar stóð hann öllum öðrum faglegar að verki. Hann þekkti íslenska sauðfjárrækt og fann þau bú á þeim svæðum sem hann mátti sækja fé til sem best stóðu að vígi í ræktun. Alla forsvarmenn þessara búa hef ég heyrt lýsa þeirri miklu hæfni sem Pálmi sýndi í fjárvalinu. Árangurinn lét ekki á sér standa. Innan örfárra ára var kominn á Akri glæsilegasti fjárstofn svæðisins. Á þessum árum lét Pálmi fjárbúið í hendur Jóhönnu dóttur sinnar og eiginmanns hennar. Áfram fylgdist Pálmi með fjárræktinni af sinni kunnáttu og glöggskyggni.
Á þessum árum varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að koma á hverju hausti norður að Akri og meta lambakostinn. Þarna var Pálmi eins og kóngur í ríki sínu. Hann gjörþekkti hvern einstakling í hjörðinni þannig að í raun gerði mín umsögn ekki annað en staðfesta þann dóm sem hann hafði sjálfur þegar gert sér grein fyrir. Hann gladdist yfir þeim ræktunarárangri sem sjá mátti með hverju árinu. Þetta voru einstakir gleðidagar og yfirleitt hápunktur hauststarfanna á hverju ári.
Pálmi var mikið glæsimenni sem sópaði að. Hann var ákaflega mikill frásagnameistari, gamansamur, minnugur á menn og málefni. Hann þekkti búskap um allt land.
Á kveðjustund skulu honum þökkuð hin ómetanlegu kynni í sambandi við sauðfé og sauðfjárrækt.
Helgu og öllum afkomendum þeirra hjóna flyt ég að lokum mínar innilegustu samúðaróskir.
Jón V. Jónmundsson.
Pálmi á Akri var góður frjálsíþróttamaður á yngri árum, ekki síst hlaupari, hann unni íþróttum alla tíð og oft ræddi hann um unga frjálsíþróttafólkið okkar og var einstaklega glöggur að meta hæfileika hvers og eins. Pálmi var í pólitíkinni kappsfullur íþróttamaður, harður spretthlaupari þegar mikið lá við, en rökfastur og drengilegur andstæðingur, sem hreif fólkið með sér. Hann var góður ræðumaður, flutti mál sitt hnitmiðað á góðri íslensku og talaði beint í salinn. En fyrst og fremst var hann góður bóndi og einn fremsti sauðfjárræktarmaður landsins, átti afburða fallegt fé á Akri. Hugur hans var fyrir norðan hjá dóttur og tengdasyni sem tóku við búskapnum og síðar dóttursyninum Pálma sem nú rekur fjárbúið. Pálmi gat sagt eins og skáldið: „Í dalnum er sál mín en hönd mín er hér,“ þótt þau hjón byggju í Reykjavík eftir þingmennskuna var hann kominn norður í sauðburð og fjárrag að hausti, hugur hans var í sveitinni.
Pálmi var víkingur til verka og þingmaður þeirrar gerðar sem alla flokka dreymdi um að eiga, hann var héraðinu sínu trúr og stundum sögðu mér Húnvetningar að þegar hátíð var í héraði og vont veður geisaði brást það ekki að hann kom utan úr hríðinni með Helgu sína á þorrablótið eða hátíðina. Hann hélt vel utan um sveitunga sína og sýslunga eins og fjölskyldu og landið allt var baráttuvettvangur í hugsun hans og pólitíkinni. Hann var góður talsmaður landbúnaðarins og í störfum sínum sem ráðherra voru bæði til staðar hugsjónir hans og raunhyggja. Ógleymanleg var heimsókn Koivisto Finnlandsforseta til Íslands árið 1982, þá komu ráðherrahjónin, Pálmi og Helga, sem gestgjafar með forsetahjónin og Vigdís Finnbogadóttir okkar var með í förinni að Brúnastöðum til foreldra minna, það sýndi vináttuna yfir landamæri flokkanna. Pálmi og faðir minn, Ágúst á Brúnastöðum, bundust tryggðaböndum í þinginu og reyndar höfðu feður okkar Pálma verið góðir vinir og stundum fannst mér að ég hefði notið þeirrar vináttu og hlotið mörg heilræði frá Pálma fyrir bragðið. Við Margrét áttum margar gleðistundir með Pálma og Helgu hér heima og á Kanaríeyjum og eru þær allar á einn veg ógleymanlegar.
Pálmi er minnisstæður maður, hann sagði vel frá og var vinur vina sinna. Aldrei var hann jafn höfðinglegur og þegar heim að Akri var komið, höndin var hlý, gestrisni var honum í blóð borin, veitingar í stofunni hjá Helgu, bikarinn fullur, hláturinn lá í loftinu. Ég sé hann standa á tröppunum glaðan og reifan, Pálmi er kominn heim. Við Margrét kveðjum hann með virðingu og þökk.
Guðni Ágústsson.
Það er margs að minnast. Kærust er mér minningin um það, þegar Helga og Pálmi buðu okkur Kristrúnu og Pétri syni okkar fjögurra ára að gista á Akri. Þetta var að vetrarlagi, hríðarveður og færð fór versnandi. Pálmi beið mín á vegamótunum. Heima á Akri var glatt á hjalla. Hann hafði boðið til sín vinum sínum svo að slegið var upp hraðskákmóti. Í fyrstu skákinni mætti ég Jónasi Halldórssyni á Leysingjastöðum, firnasterkum skákmanni. Og það óvænta gerðist að ég vann skákina. Þá kom Pétur litli til mín og kyssti mig á kinnina án þess að segja orð. Forsagan var sú, að hann hafði spurt Helgu, hvort ég myndi vinna. „Nei, Pétur minn,“ svaraði hún. „Hann er að tefla við heimsmeistarann!“
Pálmi á Akri var drenglyndur maður og vel til forystu fallinn. Hann var mikill ræðumaður, svo að það sópaði að honum í ræðustólnum þegar honum fannst mikið liggja við. Hann var gagnorður og kom að kjarna hvers máls. Hann var fundvís á veilur í málflutningi andstæðinganna. Oftar en ekki brá hann á leik og fór með gamanmál. Það var líka svo, að hann var hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Hann var drengur góður og naut trausts.
Við Pálmi vorum nánir meðan við sátum saman á þingi ef undan eru skilin ríkisstjórnarár Gunnars Thoroddsen og mér þykir rétt að taka fram, að Pálmi Jónsson var hreinskiptinn í þeim ágreiningi. Auðvitað tók það á, en við Pálmi gerðum þau mál upp hvor við annan, einlægir og góðir vinir eins og okkur var eðlislægt að vera. Síðast heimsótti ég hann á Landakotsspítala. Mjög var af honum dregið, en hann hresstist og tók upp gamla takta með hreyfingu hægri handar til að leggja áherslu á orð sín. Þar fannst mér gamli Pálmi kominn.
Guð blessi minningu hans og styrki þig, Helga, í þungri sorg. Missir þinn er mikill.
Halldór Blöndal.
Það voru erfiðar tímar í Sjálfstæðisflokknum veturinn og vorið 1983. Hluti þingmanna flokksins hafði stutt ríkisstjórn sem aðrir í þingflokknum og flestar stofnanir flokksins voru andvígar, þ.ám. ungir sjálfstæðismenn sem ég var í forystu fyrir. Það mátti lítið út af bera til að flokkurinn klofnaði formlega. En í Borgarnesi ákváðu menn að víkja eldri deilum til hliðar og standa saman þjóðinni til heilla. Reynsla og viska helstu forystumanna hafði mikið um það að segja. Pálmi var einn þeirra. Þessi fundur varð mér bæði eftirminnilegur og lærdómsríkur.
Eftir kosningar fór Sjálfstæðisflokkurinn samhentur í nýtt stjórnarsamstarf. Pálmi varð forystumaður í þáverandi fjárveitinganefnd og ég tók við starfi sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Höfðum við þá mikið saman að sælda og var það samstarf gott og farsælt.
Þegar ég hlaut kosningu á Alþingi árið 1987 varð Pálmi fljótlega einn af mínum bestu samstarfsmönnum og félögum í þinginu þrátt fyrir töluverðan aldursmun. Við sátum saman á Alþingi í átta ár eða þar til hann kaus að hætta eftir 28 ár á þingi.
Það mátti margt af honum læra, hann var vinnusamur og afkastamikill, öflugur og fastur fyrir sem forystumaður í þingnefndum og þess utan afburða skemmtilegur með sögur og vísur á hraðbergi. Alltaf var gaman að gera sér dagamun með honum og öðrum góðum félögum fyrir utan hvað það var alltaf skemmtilegt að heimsækja þau Helgu og fjölskyldu norður að Akri. Pálmi var virðulegur maður og vel virtur á Alþingi og heima í héraði. Hann var góður ræðumaður en lítið gefinn fyrir innihaldslaust raus sem nú er svo víða í boði.
Eftir að Pálmi lét af þingstörfum gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. formennsku í bankaráði Búnaðarbankans á mikilvægum tímum. Þótt samverustundum fækkaði töluðum við oft saman, og það var alltaf gott að ráðfæra sig við svo reyndan og úrræðagóðan mann. Við Inga Jóna kveðjum Pálma Jónsson með þakklæti og vottum Helgu konu hans og fjölskyldu allri innilega samúð.
Geir H. Haarde.
Ég kynntist Pálma fyrir hartnær 40 árum, þegar ég tók að mér að ritstýra og gefa út Norðanfara, málgagn Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandi vestra, meðfram menntaskólanámi mínu. Hann var þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu ásamt Eyjólfi Konráð Jónssyni. Þessir stórvinir mínir voru mér reyndar ekki alltaf auðveldir þessi ár sem ég sinnti þessu hlutverki, þar sem þeir gengu ekki alltaf í takt. En það er önnur saga.
Í gegnum árin hef ég átt mikil samskipti við Pálma bæði í tengslum við verkefni sem ég hef sinnt en einnig á persónulegri nótum sem vin og félaga. Pálmi hafði sterkar skoðanir og dug til að tala fyrir þeim þannig að það var sjaldnast lognmolla þar sem hann fór. Hann hafði líka þetta yfirbragð og framgöngu sem fékk fólk til að hlusta eftir því sem hann hafði að segja. Hann var maður sem náði athygli þeirra sem í kringum hann voru.
Á góðra vina fundum var Pálmi í essinu sínu. Hann hafði gaman af því að segja frá og var hafsjór sagna bæði frá eigin upplifunum á langri ævi og ekki síst skemmtisagna af skondnum atvikum og kúnstugum karakterum sem hann hafði tínt upp í gegnum tíðina. Pálmi var margfróður og vel lesinn og hafði jafn gaman af að ræða skáldskap og menn og málefni og í eitt sinn man ég eftir honum flytja ljóð Einars Ben; Hvarf séra Odds frá Miklabæ, öll 18 erindin, blaðlaust og með tilþrifum þegar honum fannst rétt andrúmsloft hafa skapast.
Pálmi og Helga voru höfðingjar heim að sækja, hvort heldur sem var á Akri eða í Blönduhlíðinni enda varla við öðru að búast hjá svo samhentum og lífsglöðum hjónum.
Fyrir allnokkrum árum tókum við upp á því nokkur hjón á ýmsum aldri að hittast einu sinni á ári og borða saman góðan mat og gera okkur glaðan dag. Þar voru Pálmi og Helga virkir þátttakendur alla tíð og vináttan milli okkar treystist enn frekar. Boðum í þann klúbb var alltaf tekið með mikilli tilhlökkun og Pálma verður sárt saknað á þeim vettvangi.
Nú skiljast leiðir um hríð. Lífið hefur misst dálítinn lit en eftir sitja minningar um góðan mann og traustan vin.
Við Soffía sendum Helgu og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Lárus L. Blöndal.
Mér er hans grómlausa glettni ofarlega í sinni, þar fóru fáir í hans föt. Fylgi hans í héraði var einstaklega mikið og gott og hefði lítt þýtt fyrir pólitíska angurgapa að ná honum þó hátt hefðu, enda reyndi ekki á slíkt. Mikill gæfumaður var hann í sínu einkalífi með sínum indæla og huggulega lífsförunauti, henni Helgu hans. Helgu og öðru hans fólki eru sendar innilegar samúðarkveðjur frá okkur Hönnu. Blessuð sé minning heiðursdrengsins Pálma Jónssonar.
Helgi Seljan.
Pálmi sat í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen á árunum 1980 til 1983. Sá tími var sérkennilegur og oft erfiður fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem langflestir voru í stjórnarandstöðu, og stundum hitnaði í kolunum. Ég man eftir því að hafa á þessum árum farið með Pálma og Eyjólfi Konráð í fundarferð á vegum Sjálfstæðisflokksins í kjördæmi þeirra, Norðurland vestra. Þar gagnrýndum við stjórnarandstæðingarnir ríkisstjórnina harðlega en Pálmi varðist vasklega. Allir töluðum við hins vegar vel um flokkinn okkar og sjálfstæðisstefnuna og reyndum að sýna stillingu í málflutningi.
Í lok kjörtímabilsins sameinaðist Sjálfstæðisflokkurinn á ný án eftirmála. Það var ekki síst Pálma að þakka að ekki slitnaði þráðurinn, en í báðum hópum var skilningur á því að árangursríkara væri til frambúðar að starfa saman í stórum og öflugum flokki.
Í náinni samvinnu okkar Pálma þróaðist vinátta, sem ég met mikils. Nú er höfðinginn horfinn á vit feðra sinna, frænda og vina, sem taka honum ugglaust fagnandi. Um leið og ég þakka góðum samferðamanni samfylgdina sendum við Sigríður Dúna okkar innilegustu samúðarkveðjur til Helgu og fjölskyldunnar allrar.
Friðrik Sophusson.
Kynni okkar Pálma á Akri hófust stuttu eftir að ég var kosinn á Alþing 1978. Hann hafði þá setið á þingi í röskan áratug, bóndi á föðurleifð og fékk stjórnmála- og félagsmálaáhuga nánast í vöggugjöf. Það vildi svo til að ég tók við ráðuneyti iðnaðar- og orkumála í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar um haustið, en Pálmi hafði þá verið kjörinn formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, verkefni sem hann gegndi með þingmennsku til 1990. Við höfðum af þeim sökum strax veður hvor af öðrum, þótt Pálmi væri þá í stjórnarandstöðu. Það breyttist þegar mynduð var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 8. febrúar 1980 þar sem hann tók sæti landbúnaðarráðherra. Aðdragandi þeirrar stjórnarmyndunar í kjölfar kosninga og langvinnrar stjórnarkreppu var sögulegur og ríkti mikil spenna samfara óvissu um hvern stuðning Gunnar Thoroddsen fengi úr þingmannahópi Sjálfstæðisflokksins. Gunnar boðaði fulltrúa Framsóknarflokks og Alþýðubandalags til fyrsta viðræðufundar 3. febrúar á Laugavegi 18 og með honum birtist þá aðeins Eggert Haukdal. Pálmi mætti fyrst til leiks tveimur dögum síðar, þá „án skuldbindinga um stuðning“ við stjórnarmyndunina eftir því sem ég hef skráð í dagbók mína. Það breyttist á næstu dögum. Stjórnarsamstarfið sem entist á fjórða ár var brátt innsiglað og Pálmi reyndist þar traustur liðsmaður á hverju sem gekk. Mörg flókin mál voru þá á dagskrá, m.a. tengd Norðvesturkjördæmi. Þar bar hæst undirbúning að umdeildri Blönduvirkjun, en einnig komst þá á laggirnar Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki sem enn starfar. Ég minnist góðrar samvinnu þá og síðar við Pálma, sem reyndist maður starfsamur og orðheldinn. Létt lund auðveldaði honum samskipti við aðra þingmenn þvert á flokka og heima fyrir átti hann öruggt skjól frá erli stjórnmálabaráttunnar. Pálmi er einn af mörgum sem gott er að minnast af vettvangi Alþingis þessa áratugi sem við áttum þar sæti saman. Helgu og börnum þeirra hjóna sendum við Kristín samúðarkveðjur.
Hjörleifur Guttormsson.
Pálmi giftist glæsilegri stúlku, Helgu Sigfúsdóttur frá Breiðavaði, og varð þeim þriggja myndarlegra barna auðið og bjuggu þau góðu búi á Akri. Pálmi hafði mikið yndi af sauðfé, enda var hann glöggur á kindur og náði miklum árangri í að rækta sauðfé sitt eins og hann vildi hafa það að sköpulagi og allri gerð. Þótti hjörð hans ætíð til mikillar fyrirmyndar. Árið 1967 var Pálmi kjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandi vestra. Hann aflaði sér fljótlega vinsælda vegna prúðmannlegrar framkomu og greiðvikni. Hann var skynsamur og hagsýnn og ávann sér traust, bæði samherja og andstæðinga. Árið 1974 urðum við Pálmi samstarfsmenn á Alþingi og stóð sú samvinna þar til ársins 1995 er Pálmi hætti þingmennsku. Langoftast áttum við farsælt samstarf og verulegur ágreiningur varð einungis okkar á milli um tilhögun á virkjun Blöndu. Pálmi hafði betur í þeirri deilu og var virkjað samkvæmt þeirri hugmynd sem hann aðhylltist. Átök urðu að sjálfsögðu einnig á milli okkar í kosningum, enda vorum við sinn í hvorum stjórnmálaflokki, en um flest framfaramál Norðurlandskjördæmis vestra var samvinna okkar góð. Pálmi naut trausts fylgis í kjördæmi okkar. Sást það glögglega þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn 1980 með okkur Framsóknarmönnum, Alþýðubandalaginu og hluta þingflokks Sjálfstæðismanna. Urðu þá mjög harðar deilur innan Sjálfstæðisflokksins. Pálmi stóð með Gunnari vini sínum og tók sæti landbúnaðarráðherra í stjórninni. Við uppgjör það er á eftir fylgdi var mjög sótt að Pálma, en honum varð ekki haggað. Eftir að Pálmi hætti þingmennsku átti hann nokkur góð ár heima á Akri, en fékk svo Jóhönnu Erlu dóttur sinni og manni hennar búið í hendur og nú hefur nýr Pálmi tekið við forráðum á Akri.
Við Sigrún sendum Helgu og öðrum ástvinum Pálma hugheilar samúðarkveðjur. Ég þakka honum margra áratuga samstarf og vináttu.
Páll Pétursson.
Um aldamótin fórum við hjónin að eyða nokkrum tíma á hverjum vetri á Kanaríeyjum. Í fyrstu ferðinni hittum við Pálma og Helgu og var þá endurnýjaður kunningsskapur okkar og vinátta. Pálmi og Helga voru frábærir félagar og góðir vinir og voru öll samskipti okkar góð og ánægjuleg hvort sem við vorum á Kanarí eða heima við. Pálmi var frábær sögumaður og var mjög gaman að hlusta á hann. Þá var með ólíkindum hvað hann mundi af kveðskap af ýmsum gerðum og lýsti tilurð ljóða og vísna á skemmtilegan hátt. Helga sagði okkur að eftir þingveislur þar sem eingöngu var farið með bundið mál þá gat Pálmi að veislu lokinni haft eftir allan þann kveðskap sem þar var fram færður. Hann hafði ótrúlegt minni. Það skemmdi nú ekki fyrir vinskapnum að við vorum pólitískir samherjar og bárum hag okkar flokks mjög fyrir brjósti. Stjórnmálin á Íslandi, ný sem liðin, voru mikið rædd sem og helstu hagsmunamál þjóðarinnar á hverjum tíma.
Við Ragnheiður erum þakklát fyrir þá vináttu og umhyggju sem Pálmi sýndi okkur ávallt og þær skemmtilegu stundir sem við áttum með honum og Helgu. Við sendum okkar einlægustu samúðarkveðjur til Helgu, Jóns, Jóhönnu Erlu og Nínu Margrétar og fjölskyldna þeirra.
Blessuð sé minning Pálma Jónssonar.
Örn Marinósson.
Allan þann tíma sem Pálmi sat í stjórn RARIK stóð hann vörð um hagsmuni fyrirtækisins, starfsmanna þess og viðskiptavina. Hann var ötull og öflugur málsvari fyrirtækisins og var það langt fram yfir þann tíma sem hann sinnti beinum stjórnarstörfum. Lengst af stjórnarsetu hans glímdi stjórnin við margar erfiðar ákvarðanir við uppbyggingu fyrirtækisins og rekstur. Þær voru ekki alltaf til vinsælda fallnar. Á tíma stjórnarformennsku Pálma var lokið samtengingu raforkukerfis alls landsins og þannig m.a. brugðist við mikilli hækkun á olíuverði. Reynsla hans af félagsmálum og tengsl á vettvangi stjórnmálanna höfðu þá mikil áhrif, enda naut hann þar virðingar og vináttu allra sem störfuðu með honum. Það kom sér vel hvort sem var þegar sætta þurfti sjónarmið, eða taka þurfti af skarið í erfiðum málum.
Pálmi naut ekki síður mikillar virðingar bæði meðal stjórnarmanna og starfsmanna fyrirtækisins og setti sig mjög vel inn í starfsemi þess, ekki síst þegar það gekk í gegnum erfiða tíma. Það var mikil gæfa fyrir fyrirtækið að fá að njóta krafta hans við slíkar aðstæður.
Það var mér persónulega mikil ánægja að fá að kynnast þeim hjónum Pálma og Helgu, en á milli þeirra og annarra stjórnarmanna og náinna starfsmanna innan RARIK þróaðist mikil vinátta. Margar góðar minningar koma upp í hugann, m.a. frá ferðum stjórnar um landið, en ekki síður nýlegum samverustundum.
Nú kveðjum við Pálma Jónsson hinstu kveðju með söknuði, en einnig með þökk. Við þökkum fyrir hönd fyrirtækisins fyrir allt hans óeigingjarna og fórnfúsa starf í þágu þess. Við þökkum ekki síður fyrir þá miklu vináttu og kærleika sem hann sýndi okkur persónulega og fyrir það góða samstarf sem stjórn RARIK og starfsmenn áttu með honum. Við sendum Helgu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Pálma Jónssonar.
Fyrir hönd samstarfsaðila hjá RARIK,
Tryggvi Þór Haraldsson.