Valtýr Stefánsson Thors
Valtýr Stefánsson Thors
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is „Við erum yfirleitt ekki að meðhöndla börn yngri en fimm ára, þannig að barnalæknar þurfa kannski að svara því,“ segir Ólafur Ó.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

„Við erum yfirleitt ekki að meðhöndla börn yngri en fimm ára, þannig að barnalæknar þurfa kannski að svara því,“ segir Ólafur Ó. Guðmundsson, formaður Barnageðlæknafélagsins, í samtali við Morgunblaðið vegna fréttar sem birtist í gær um að lyf og geðlyf fyrir fullorðna væru gefin börnum í einhverjum mæli, sbr. upplýsingar frá Landlæknisembættinu þar sem fram kemur m.a. að fleiri börnum hérlendis sé ávísað slíkum lyfjum en í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

„Alla jafna eru svo Fluoxetín og önnur serótónínlyf lítið notuð í aldurshópnum fimm til níu ára, en þessi lyf eru stundum notuð t.d. við áráttu-þráhyggjuröskun,“ segir Ólafur.

Formaður Barnalæknafélagsins, Valtýr S. Thors, segir: „Það sem slær mig sérstaklega er þessi ópíóðanotkun, en það eru kódeinlyfin Parkódín og SEM-mixtúran. Í þessum flokki er þetta sennilega notað sem hóstastillandi meðferð. E.t.v. þarf að endurmennta lækna þar sem þessi meðferð er ekki notuð lengur. Hinn stærsti flokkurinn virðist vera róandi og kvíðastillandi lyf eins og Atarax og Stesolid. Það kemur mér á óvart, ég kannast ekki við mikla notkun á þessum lyfjum fyrir þessa aldurshópa og ég hef enga skýringu á því. Circadin er hormón og það er oft gefið við svefnröskunum, t.d. vegna þess að mörg börn á Íslandi, fleiri en í öðrum löndum, eru á lyfjum við ADHD og það er ástæða til að skoða hví það sé.

Það kemur mér svo verulega á óvart að verið sé að gefa börnum þunglyndislyf og geðrofslyf. Almennir barnalæknar held ég að geti ekki verið að gefa þessi lyf börnum, þau eru ekki í almennri notkun á meðal barnalækna. Það eru fá börn sem þurfa á þannig lyfjum að halda. En ég held að það sé ástæða til að skoða nánar þennan mun sem er á notkun þessara lyfja á milli landa og greina nánar hverjir eru að gefa þessi lyf út og hvers vegna.“