Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Auglýstum störfum hjá Vinnumálastofnun hefur fækkað jafnt og þétt síðustu ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru að meðaltali 255 störf auglýst hjá stofnuninni, borið saman við 365 að meðaltali á sama tímabili í fyrra.
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir þessa þróun vera samspil ýmissa þátta.
„Þegar margir eru á atvinnuleysisskrá eru fleiri í vinnu hjá Vinnumálastofnun við að finna handa þeim vinnu og afla starfa. Störfin koma gjarnan þannig að við setjum okkur í samband við atvinnurekendur og reynum að fá störfin inn á skrá. Það er stærsta skýringin. Önnur skýringin er nátengd þessari; þegar illa árar hafa verið sett af stað stór átaksverkefni þar sem auglýst er eftir störfum. Í þriðja lagi sjá atvinnurekendur sér síður hag í því að auglýsa hjá okkur störf þegar fáir eru eftir á atvinnuleysisskrá. Í fjórða lagi getur önnur hreyfing haft áhrif. Atvinnurekendur eru komnir með tengingar erlendis og geta sótt starfsfólk þangað milliliðalaust. Þetta er því flókið samspil margra þátta.“
Hápunkturinn að nálgast?
Athygli vekur að árin 2006 og 2007 voru líka hlutfallslega fá störf auglýst hjá Vinnumálastofnun.Spurður hvort út frá þessu megi álykta að hástig efnahagssveiflunnar sé að nálgast, segir Karl varhugavert að draga of víðtækar ályktanir af þessari tölfræði.
„Þegar svona vel árar eru færri atvinnulausir. Síðustu misseri hefur verið skortur á starfsfólki. Það er spurning hvað gerist á vinnumarkaði á næstu misserum. Ef það verður áfram þensla á vinnumarkaði má gera ráð fyrir að þetta haldi áfram. Ég myndi ekki túlka þetta sem svo að það sé farið að þrengja að á vinnumarkaði. Við höfum hins vegar ýmsar vísbendingar úr öðrum áttum um að það sé heldur að hægjast um, til dæmis í ferðaþjónustu. Þá bendir ný könnun Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans til að færri stjórnendur en áður telji að skortur sé á starfsfólki. Staðan er þó svipuð og í september í fyrra.“
Minni bjartsýni en áður
„Þegar stjórnendur meta horfur eftir sex mánuði telja færri en áður að ástandið muni fara batnandi. Vísitalan fór langt niður fyrir hundrað. Þannig að menn virðast ekki búast við áframhaldandi vexti í sama mæli og verið hefur undanfarin misseri. Það virðist ekki vera sama þenslan lengur. Það er einhver vöxtur í gangi en þó hægari en verið hefur.“Þá bendir Karl á að atvinnuleysistalan virðist vera að ná ákveðnu jafnvægi.
„Það er ekki eins mikil lækkun í kortunum og verið hefur. Atvinnuleysisprósentan í ár hefur lítið lækkað frá fyrra ári. Sjómannaverkfallið í byrjun árs kann að hafa haft einhver áhrif en það virðist almennt vera að hægja á fjölgun starfa. Það var 2,3% atvinnuleysi að meðaltali 2016, borið saman við 2,9% árið 2015 og 3,6% árið áður. Svo lækkar það niður í 2,1-2,2% í ár. Það er því mjög lítil lækkun milli ára 2016 og 2017. Svo gerum við ráð fyrir að það verði 2,1% á næsta ári. Það er orðið miklu meira jafnvægi í tölum okkar og mér sýnist líka í tölum Hagstofunnar,“ segir Karl.
Byrjað að hægja á hagkerfinu
Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, tekur undir að hægt hafi á fjölgun starfa.„Vissir geirar kunna enn að vera að fjölga fólki. Almennt séð er þó byrjað að hægja á hagkerfinu. Hækkun gengisins og miklar launahækkanir setja mikla hagræðingarkröfu á íslensk fyrirtæki. Þau geta brugðist við hærri kostnaði með því að hækka verðið. Það hefur ekki gerst. Miklar launahækkanir hljóta því að gera auknar kröfur á fyrirtæki um framleiðni.“
Ásgeir segir aðspurður að skattahækkanir muni hægja enn frekar á hagkerfinu. Tímabili mikils hagvaxtar sé að ljúka.