Erna Ýr Öldudóttir
ernayr@mbl.is
Íbúafundur fór fram í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gærkvöldi vegna umferðarþunga og slysahættu á Reykjanesbraut sem liggur í gegnum bæjarfélagið.
Meðal fyrirlesara á fundinum var Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur, en fyrirlestur hennar bar yfirskriftina Ákjósanlegar lausnir. „Ég vann verkefni um ástandsgreiningu umferðar og Hafnarfjörður kom þar upp sem svæði með miklum töfum og röðum. Ég er með nokkrar tillögur, t.d. er kaflinn á milli Krýsuvíkurafleggjara og Kaldárselsvegar umferðarþyngsti tveggja akreina vegarkafli á landinu. Kaflinn frá hringtorginu hjá N1 og framhjá Kaplakrika og þar er flóknari. Hafnarfjarðarbær stefnir á að þarna verði hraðbraut með mislægum gatnamótum í framtíðinni, en það er óskaplega dýrt og gæti kostað óhagræði fyrir íbúana í kring. Þannig að ég er að stinga upp á öðrum lausnum. T.d. er ljósastýring betri en hringtorg þegar umferðin er svona þung og það verður að horfa á lausnina í heild, ekki er nóg að skoða aðeins ein gatnamót í einu. Það eru sem sagt nokkur skref inni á milli áður en þarf að fara út í dýra og erfiða framkvæmd eins og mislæg gatnamót sem mætti skoða,“ segir Lilja.
Mikil þörf á úrbótum
„Það var starfshópur á vegum samgönguráðuneytisins sem tók þetta svæði fyrir. Slysatíðni er há þarna og umferð hefur þyngst gríðarlega með auknum ferðamannastraumi. Þetta er því forgangsverkefni í samgöngumálum. Krýsuvíkurgatnamótin eru mikill áfangi og verða opnuð bráðlega sem mislæg gatnamót. Ég hef verið að skoða hvernig hægt er að hraða umbótum á samgöngukerfinu, en við höfum aðeins níu milljarða króna í nýframkvæmdir á ári. Áætlunin liggur fyrir en það er spurning hvenær fæst fé til að framkvæma hana, hvort hægt sé að fjármagna hana með öðrum hætti en eingöngu úr ríkissjóði,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Ályktun íbúafundarins
Að fundi loknum bar Hrafnhildur Halldórsdóttir íbúi upp ályktun fyrir fundargesti sem samþykkt var með dynjandi lófaklappi.„Íbúafundur um samgöngumál í Hafnarfirði skorar á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi úrbætur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Tryggt verði að framkvæmdir við gatnamótin og hringtorgin á kafla frá Kaplakrika að Lækjargötu hefjist á næsta ári og að jafnframt verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum á Krýsuvíkurvegi.“