Eygerður Þóra Tómasdóttir fæddist 6. febrúar 1929. Hún lést 2. október 2017.

Foreldrar Eygerðar voru Tómas Tómasson, f. 12. september 1885 d. 26. janúar 1943, og Bjartey Halldórsdóttir, f. 21. janúar 1882, d. 14. maí 1970.

Systkini Eygerðar: Halldór, f. 31. júlí 1925, d. 2. ágúst 1925, Valgerður Þóra, f. 31. ágúst 1926, d. 26. janúar 1927.

Hún giftist Gísla Ó. Guðlaugssyni, f. 6. júlí 1919, d. 18. ágúst 1995. Foreldrar Gísla voru Guðlaugur Guðmundsson, f. 18. apríl 1878, d. 10. febrúar 1969, og Þuríður Magnúsdóttir, f. 31. desember 1874, d. 23. mars 1963.

Börn: 1) Tómas Gústaf, f. 7. nóvember 1948, maki Þórdís Ólafsdóttir, f. 27. ágúst 1947. Börn þeirra: a) Þorvaldur Barðason, sonur Þórdísar, f. 1972, í sambúð með Ingibjörgu Jóhannsdóttur, þeirra börn eru Ragnar Már og Helga Guðrún, barn Ragnars er Nína Björg. b) Guðlaugur Þór, sonur Tómasar. c) Björk, f. 1977, í sambúð með Þresti Snæ Þorbjörnssyni, þeirra börn eru Styrmir Snær, Tómas Valur og Þórdís Ragna. d) Katrín Sigrún, f. 1980, hennar dætur eru Hera Björk og Íris Tinna. e) Eygerður Ósk, f. 1985, í sambúð með Jóhanni Valgeiri Davíðssyni, þeirra börn eru Benedikta Diljá, Davíð Orri, Þórir Rúnar, Þórunn Lilja og Vignir Freyr. 2) Dagbjört, f. 1. maí 1950, maki Gylfi Jónsson, f. 24. júní 1950. Börn þeirra a) Þórey, f. 1970, maki Þórir Kristjánsson, börn þeirra eru Sigríður Margrét og Kristján Gylfi. b) Gísli Fannar, f. 1971, maki Jenný V. Þorsteinsdóttir, börn þeirra eru Dagbjört, Díana Ósk, Ívar Andri og Svava Lind. c) Hlynur, f. 1973 d) Birna, f. 1986, maki Ívar Björgvinsson, börn þeirra eru Hlynur Fannar, Daníel Örn og Ívan Gauti. 3) Erna, f. 10. maí, 1966 maki Gunnlaugur Helgason, f. 11. maí 1967. Börn þeirra: a) Hafþór, f. 1987, maki Melkorka Rut Bjarnadóttir, f. 1989. b) Arnar Páll, f. 1989, maki Dagrún Dögg Jónsdóttir, f. 1989. c) Rakel Ýr, f. 1992, maki Ryan Maskell, f. 1982, börn þeirra eru Emily Þóra og William Óskar. d) Lára Björk, f. 2000. 4) Magnús Gíslason, f. 10. september 1967, maki Þyrí Sölva Bjargardóttir, f. 1971. Börn þeirra: a) Emma Ósk, f. 1990, maki Ragnar Joensen, f. 1988, börn þeirra eru Benjamín Sævar og Halldóra Sólja. b) Brynjar Már, f. 1997. c) Kristófer, f. 2010. 5) Guðlaugur Þór, uppeldissonur, f. 1972, maki Elísabet Sigurðardóttir, f. 1968, börn þeirra eru Sesselja og Eyþór Gísli.

Gerða ólst upp í Þingdal í Flóa og flutti 14 ára til Eyrarbakka. Gerða og Gísli hófu búskap í Bjarghúsum en fluttu svo á Litlu-Háeyri þar sem þau bjuggu alla tíð. Þau voru alla tíð með nokkrar kindur og bar hún út póstinn á Eyrarbakka í 20 ár.

Útför Eygerðar fór fram frá Eyrarbakkakirkju 14. október 2017.

Elsku besta Gerða mín, ég vil byrja á því að þakka þér fyrir allt. Allt sem þú gerðir fyrir Gulla minn, þú veist hvað ég á við enda var hann líka Gulli þinn. Að vera heimsins besta „amma gamla“ fyrir börnin okkar og láta mér alltaf líða eins og ég væri uppáhalds tengdadóttir. Svo má ekki gleyma öllum pönnukökunum sem þú bakaðir ofan í okkur, fullum af umhyggju, kærleika og ást.

Þú elskaðir að ferðast, hvort heldur um sveitir Suðurlands eða lengri ferðir til útlanda. Er ég þakklát fyrir öll okkar ferðalög saman, stór og smá. Við vorum svo lánsöm að fá að njóta samveru þinnar í sumarbústaðaferðum hér innanlands og svo eftir að við fluttum af landi brott komst þú alla leið til Danmerkur þar sem margt var brallað. Mér verður lengi minnisstæð upplifun þín þegar þó stóðst á þýskri grundu og æskuminningarnar frá seinni heimsstyrjöldinni rifjuðust upp fyrir þér. Í annarri Danmerkurferð þar sem við sigldum til Noregs og þú komst á gömlu dansana sem þú hafðir svo gaman af. Ferðir í dýragarða, skemmtigarða og verslunarmiðstöðvar. Þú þurftir alltaf að versla handa fólkinu þínu. Varst alltaf að hugsa um fólkið þitt og varst alltaf tilbúin að gera hvað sem er fyrir þína nánustu. Og þá fann ég fyrir þeim forréttindum. Svo þegar maður vildi gera eitthvað fyrir þig, hversu lítið sem það var, talaðir þú um vesenið sem væri haft fyrir „eina gamla kerlingu“. Alltaf svo hógvær. Þú varst höfðingi heim að sækja og varst fljót að töfra fram meðlæti með kaffinu sem borið var fram í fallega rósótta bollanum. Þar voru „ömmupönnsur“ í uppáhaldi.

Það voru algjör forréttindi að fá að kynnast þér og enn meiri forréttindi að fá að njóta allra þeirra stunda sem við áttum saman þau rúmlega 17 ár sem leiðir okkar lágu saman. Vil ég biðja Guð að gæta þín þar til við hittumst næst. Ættingjum og vinum Gerðu votta ég mína dýpstu samúð.

Elísabet Sigurðardóttir.

Með þessum fátæklegu orðum mínum vil ég minnast frænku minnar Eygerðar Tómasdóttur, eða Gerðu eins og hún var alltaf kölluð.

Gerða og mamma voru systkinabörn. Fyrstu kynni okkar urðu er Gerða, þá kornung stúlka, kom austan úr Flóa til okkar í Nýjabæ til að hjálpa til við heimilishald og barnauppeldi. Þá vorum við tvíburarnir fimm mánaða, Birgir aðeins eldri og barn á leiðinni. Hjá okkur var Gerða í tæp fjögur ár til aðstoðar á heimilinu, þar til hún fór í búskap sjálf. Eitt haustið fékk ég að vera hjá henni og Gísla í Bjarghúsum vegna aðstæðna heima fyrir. Í þessu litla húsi var þröngt á þingi, þau voru með tvö börn fyrir, en Gerða leysti þau mál eins og henni einni var lagið. Alla tíð hélt hún sambandi og tryggð við okkur. Hún var alltaf hress og kát og þótt árin færðust yfir og hún væri orðin slæm í fótunum var Gerða samt ekki ráðalaus og notaði nýjustu tækni til að komast allra sinna ferða hjálparlaust. Síðast er ég heimsótti hana var hún að útbúa sig í ferð til Danmerkur til að heimsækja hann Gulla sinn og fjölskyldu hans. Það stóð ekkert í henni að ferðast til útlanda þrátt fyrir háan aldur og litla málakunnáttu. Gerða var nýkomin heim úr þeirri ferð þegar hún veiktist og dó nokkrum dögum seinna.

Við systkinin frá Nýjabæ þökkum Gerðu hugulsemina og vináttuna gegnum árin og vottum börnum hennar og ættingjum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Margs er að minnast, margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Sigríður Sveinsdóttir.