Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Söngurinn er þessi fagra leið að hjarta manneskjunnar. Hann eflir samkennd og færir fólk nær hvað öðru í vináttu. Í tónlist geta allir sameinast,“ segir Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri en í dag eru liðin 50 ár frá því að Kór Menntaskólans við Hamrahlíð kom saman til sinnar fyrstu æfingar. Þeirra tímamóta verður að sjálfsögðu minnst því boðið er til fagnaðar í Hamrahlíðinni í kvöld klukkan 20, þangað sem allir kórfélagar, gamlir og nýir, vinir og velunnarar eru velkomnir.
Þúsundir hafa tekið þátt
„Þetta verður vinafagnaður með gleðisöng og mörgum brosandi andlitum. Þúsundir hafa tekið þátt í starfinu á þessum árum, svo margir eiga góðar minningar því tengdar,“ segir Þorgerður sem hefur stjórnað kórnum óslitið í þessa hálfu öld. Hún rifjar upp fyrstu æfingu kórsins en þangað mættu um 20 stúlkur en strákarnir voru færri.„Meðal strákanna var bara einn tenór svo það var alls ekki alveg jafnvægi í röddunum. Hópurinn náði strax saman í söngnum og við urðum öll góðir vinir. Þannig hefur þetta haldist allar götur síðan, vináttan er dýrmæt. Og margir af kórfélögum hafa svo haldið áfram í tónlistinni og skapað sér þar nafn.“
Kórstarfið í Hamrahlíð hefur jafnan vakið eftirtekt og haldið nafni skólans hátt á lofti. Kórarnir eru í rauninni tveir; annars vegar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, sem er skipaður nemendum á hverjum tíma, og hins vegar Hamrahlíðarkórinn þar sem eru nemendur á lokaári og svo þeir sem eru útskrifaðir. Hamrahlíðarkórarnir hafa haldið tónleika um allt Ísland og unnið marga sigra á tónleikum og hátíðum víða um heim.
„Endurnýjunin er hröð. Í haust komu 32 nýnemar til okkar og ég segi stundum að kórarnir séu í raun jafn margir og starfsárin. Fimmtíu kórar samanlagt,“ segir Þorgerður sem hefur fengið marga góða listamenn til liðs við sig síðustu hálfa öldina.