Sala á kindakjöti hefur aukist um rúm 8% á milli ára. Sala hefur einnig aukist á alifuglakjöti og nautgripakjöti en sala á svínakjöti dregist saman.

Sala á kindakjöti hefur aukist um rúm 8% á milli ára. Sala hefur einnig aukist á alifuglakjöti og nautgripakjöti en sala á svínakjöti dregist saman.

Rúmlega 7 þúsund tonn af kindakjöti hafa selst síðustu tólf mánuðina, miðað við lok septembermánaðar, og er það 8,5% aukning frá fyrra ári, samkvæmt yfirliti búnaðarstofu Matvælastofnunar um framleiðslu og sölu á kjöti. Langmest er selt af alifuglakjöti, 9.342 tonn, sem er 5% aukning. Alifuglakjöt er langvinsælasta kjöttegundin, með um þriðjung allrar sölu af kjöti sem framleitt er hér.

Svínakjöt er í þriðja sæti. Selt var 6.151 tonn síðustu tólf mánuði sem er 3% samdráttur frá fyrra ári. Sala á nautgripakjöti jókst um 4,5% og nam 4.574 tonnum. Þess ber að geta að sala á innfluttu kjöti er ekki inni í þessum tölum. Innflutningur er verulegur og getur breytt hlutföllum milli kjöttegunda þegar litið er á heildarkjötneyslu í landinu.

Litlar sem engar birgðir eru af kjúklingi, svíni og nautakjöti enda varan að mestu leyti seld fersk. Birgðir af kindakjöti eru aðeins meiri en fyrir ári en þess ber að geta að yfirlitið miðast við miðja sláturtíð. helgi@mbl.is