Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Nokkur dæmi eru um það að frambjóðendur í efstu sætum á listum stjórnmálaflokkanna í alþingiskosningunum 28. október séu ekki með lögheimili í því kjördæmi þar sem þeir bjóða fram. Þá eru nokkur dæmi um að frambjóðendur séu skráðir með lögheimili þar sem þeir hafa ekki fasta búsetu.
Þegar framboðslistarnir, sem birtir eru í heild í Morgunblaðinu í dag, eru skoðaðir kemur eftirfarandi m.a. í ljós: Í Norðvesturkjördæmi er efsti maður á lista Viðreisnar, Gylfi Ólafsson, með lögheimili í Reykjavík. Sama er að segja um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem skipar annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, og Teit Björn Einarsson, sem skipar þriðja sætið og er með lögheimili í Kópavogi.
Í Norðausturkjördæmi er Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, efsti maður á lista Viðreisnar, með lögheimili í Reykjavík. Halldór Gunnarsson, sem er efstur hjá Flokki fólksins, er með lögheimili á Hvolsvelli.
Í Suðurkjördæmi er Arnbjörn Ólafsson, sem skipar annað sætið á lista Bjartrar framtíðar, með lögheimili í Hafnarfirði. Efsti maður á lista Pírata í kjördæminu, Smári McCarthy, og efsti maður á lista Vinstri grænna, Ari Trausti Guðmundsson, eru báðir með lögheimili í höfuðborginni.
Í Suðvesturkjördæmi er efsti maður á lista Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir, með lögheimili í Reykjavík. Efsti maður á lista Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, er með lögheimili á Sauðárkróki. Þrír efstu menn á lista Pírata í kjördæminu, Jón Þór Ólafsson, Oktavía Hrund Jónsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir, eru öll með lögheimili í Reykjavík. Sama er að segja um efsta mann á lista Vinstri grænna, Rósu Björk Brynjólfsdóttur.
Í Reykjavíkurkjördæmunum er hrein undantekning að rekast á frambjóðanda sem ekki er með lögheimili í höfðuðborginni. Þó eru dæmi um það. Þorsteinn Sæmundsson, efsti maður á lista Miðflokksins í Reykjavík suður, og Ólafur Ísleifsson, efsti maður á lista Flokks fólksins, eru báðir með lögheimili á Seltjarnarnesi. Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra, efsti maður Viðreisnar í kjördæminu, er með lögheimili í Garðabæ. Þá er Páll Valur Björnsson, annar maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, með lögheimili í Grindavík.
Aldrei með fasta búsetu
Svo er hitt að þótt frambjóðendur séu skráðir með lögheimili í því kjördæmi þar sem þeir eru í framboði þýðir það ekki endilega að þeir hafi þar fast aðsetur eða heimili. Þeir sem sitja á þingi og ekki síður þeir sem gegna ráðherraembættum eru eðli málsins samkvæmt með búsetu í Reykjavík stærstan hluta ársins þótt lögheimilið sé skráð úti á landi.Dæmi eru um að menn hafi aldrei haft fasta búsetu þar sem þeir eru skráðir með lögheimili. Það gildir til dæmis um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, efsta mann á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, sem er skráður með lögheimili að Hrafnabjörgum III í Fljótsdalshéraði. Þá hefur Páll Magnússon, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem hefur fasta búsetu í Garðabæ, nýlega flutt lögheimili sitt til Vestmannaeyja.