Víkverji fylltist skelfingu fyrr í mánuðinum þegar hann hélt að hann hefði glatað veskinu sínu. Einhvern tímann heyrði hann haft eftir Jean-Paul Sartre að það borgaði sig alltaf að hafa nægt fé í veskinu til að komast úr landi. Það væri aldrei að vita hvenær maður vildi forða sér í skyndi. Víkverja fannst einhver ævintýrablær yfir því að lifa þannig lífi að maður sæi ástæðu til að hugsa svona. Hann hefur því ávallt verið með einhverja aura í evrum, dollurum og jafnvel forintum eða pesóum á sér. Þetta ráð hefur reyndar ekki dugað til að hleypa spennu í ofurvenjulegt líf Víkverja, en erlendu aurarnir hafa hins vegar áfram átt sinn sess í veskinu hans ásamt ýmsum kortum og bunkum af kvittunum.
Víkverja stóð því ekki á sama þegar veskið týndist. Hann rakti ferðir sínar, hringdi í tapað/fundið þar sem hann hafði farið á tónleika og síðast tekið veskið fram. Hann rótaði í öllum yfirhöfnum sínum, fór í gegnum skyrturnar sínar, blaðaði í bunkum, athugaði undir rúmum og stólum og bak við húsgögn. Hann leitaði sumsé dyrum og dyngjum en allt kom fyrir ekki. Hann fór líka inn á heimabankann til að athuga hvort kortið hans væri komið í umferð úti í bæ, en róaðist þegar hann sá að svo var ekki.
Eftir nokkra daga var Víkverji orðinn úrkula vonar um að finna veskið og hringdi í bankann til að fá ný greiðslu- og debetkort. Það gekk greiðlega og var honum sagt að hann myndi geta sótt kortin eftir þrjá til fjóra daga.
Þegar Víkverji kom heim að kvöldi dagsins sem hann hafði tilkynnt hvarf kortanna var veskið það fyrsta sem blasti við honum. Hafði það fundist í óhreinatauskörfunni. Það fór því eins og Víkverja hafði grunað, að veskið myndi aldrei finnast fyrr en hann endurnýjaði kortin sín. Fjölskyldan hefur hins vegar ráðlagt Víkverja að fá sér græju í veskið sem hægt er að láta pípa ef það týnist.