Höfundurinn „Ótrúleg saga um raunveruleika ástar og sambanda,“ segir rýnir um skáldsögu Geirs Gulliksens, Saga af hjónabandi.
Höfundurinn „Ótrúleg saga um raunveruleika ástar og sambanda,“ segir rýnir um skáldsögu Geirs Gulliksens, Saga af hjónabandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Geir Gulliksen. Halla Kjartansdóttir íslenskaði. Benedikt bókaútgáfa 2017. Kilja, 191 bls.
Saga af hjónabandi er nákvæmlega það sem hún segist vera. Saga af hjónabandi, saga um hvernig það hófst, þróaðist og endaði. Höfundi tekst með ótrúlegum hætti að leyfa lesandanum að finna til samkenndar með báðum aðilum þessa „órjúfanlega bands“. Jafnvel þótt annar helmingurinn af þessari einingu, sem á að vera eilíf, ákveði að yfirgefa hana.

Það er auðvelt að tengja við samband hjónanna, jafnvel þótt lesandi hafi ekki endilega upplifað hjónaband heldur er nóg að hafa fundið fyrir sterkum tengslum við aðra manneskju; aðra manneskju sem á að vera innan handar til æviloka og ekki er hægt að ímynda sér lífið án. Allir geta líklega tengt við þennan ótta við að missa þann sem við þráum heitast.

Nánar og áhrifamiklar lýsingar höfundar á ástinni og hvernig hún fjarar út vekja ónotatilfinningu. Rétt eins og hjónin í sögunni halda margir að þeirra samband sé einstakt, ólíkt öllum öðrum. Engum getur liðið eins og þeim líður og enginn mun nokkurn tíma skilja aðra manneskju eins og þau skilja hvort annað. Þrátt fyrir óyggjandi tölfræði um að ástin slokkni á endanum halda allir að þeir eigi eitthvað sérstakt. Þeirra samband mun sko ekki enda eins og hjá öllum hinum! Samt sem áður er það staðreyndin hjá flestum, þótt auðvitað séu til undantekningar.

Höfundur lýsir því líka vel hversu erfið en óhjákvæmileg slík sambandsslit geta verið. Þegar annan aðilann fer að reka á aðrar slóðir og leita eftir breytingu er mikilvægt að hann geri strax grein fyrir tilfinningum sínum og sleppi takinu á þeim sem situr eftir í sárum, því þótt það geti verið erfitt er mikilvægt fyrir þann særða að geta byrjað að jafna sig. Og eins mikið og sú persóna í bókinni heldur að hún muni aldrei ná sér, þá nær hún sér samt á endanum. Það sama á við um okkur öll. Þótt við höldum að við gætum aldrei komist yfir svona svik og ástmissi er slíkt ekki óyfirstíganlegt og við mennirnir venjumst öllu á endanum. Allir geta breyst.

Frásögnin er frábær að nánast öllu leyti en svo virðist sem höfundurinn hafi ætlað að sýna snilld sína í myndlíkingum í tveimur köflum þar sem hann lýsir ímyndunarafli tveggja sona hjónanna, sem af örvæntingu reyna að skilja líf og ákvarðanir foreldra sinna. Þessir hlutar sögunnar finnst mér missa marks og vera óþarfir í þróun hennar.

Lesandinn mun eiga erfitt með að leggja bókina frá sér en á sama tíma vill hann spara hana og drekka hana í sig hægt og rólega, eins og góðan tebolla. Ótrúleg saga um raunveruleika ástar og sambanda.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Höf.: Þorgerður Anna Gunnarsdóttir