Svo virðist sem ákvarðanir á þingi séu oft teknar til að bregðast við bráðavanda í stað þess að móta heildstæða stefnu til framtíðar. Þetta er kannski hvað skýrast í menntamálum, en þar liggja hvergi fyrir áætlanir eða markmið um hvernig við viljum byggja upp menntakerfið til lengri tíma. Hvað þá að þeirri stefnu sé fylgt eftir með aðgerðaáætlunum.
Nýbreytni og þróunarvinna virðist tilviljanakennd eða háð gæluverkefnum ráðamanna. Í þeim fáu tilvikum þegar fjármagn er svo aukið er það oftar en ekki til að bregðast við bráðum húsnæðisvanda skólanna þar sem þörfin er orðin svo aðkallandi vegna fjölgunar nemenda að ekki verður lengur beðið.
Hérna er hins vegar ekki verið að vinna stefnumótun til lengri tíma, þar sem framsýnir ráðherrar – eða flokkar – hafa unnið heimavinnu sína og í breiðri sátt við hagsmunaaðila. Getur verið að það sé vegna þess að þeir flokkar sem farið hafa með málefni menntamála undanfarna áratugi hafi einfaldlega enga heildstæða stefnu þegar kemur að menntamálum umfram innihaldslaus slagorð?
Við verðum að láta af tilviljunarkenndum ákvörðunum. Björt framtíð vill vinna að heildstæðri stefnu og langtímamarkmiðum í menntamálum, þar sem öllum hagsmunaaðilum er boðið að borðinu. Það er allt morandi í góðum hugmyndum í baklandinu þar sem bæði þekking og reynsla eru fyrir hendi. Við þurfum að móta skýra og metnaðarfulla stefnu í menntamálum og raunhæfar útfærslur á markmiðum hennar. Þessa stefnu þarf að vinna í breiðri pólitískri og faglegri sátt, og henni verður að fylgja alvörufjármagn til raunverulegrar uppbyggingar á menntakerfi okkar til framtíðar.
Aðeins þá getum við hætt að eyða tíma og fjármunum í bráðabirgðaviðgerðir og farið að huga að langtímamenntastefnu.
Höfundur skipar 2. sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi. arnbjorn@keilir.net