Fjölmörg félög og stjórnmálaflokkar hafa fordæmt lögbann sýslumanns á Stundina opinberlega.

Fjölmörg félög og stjórnmálaflokkar hafa fordæmt lögbann sýslumanns á Stundina opinberlega. Má þar nefna Gagnsæi, samtök gegn spillingu, Félag fréttamanna, stjórn Rithöfundasambands Íslands og stjórn Öldu – Félags um sjálfbærni og lýðræði svo dæmi séu tekin. Stjórnmálaflokkarnir Björt framtíð og Píratar sendu einnig frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem lögbannið er fordæmt.

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra og æðsti yfirmaður fjölmiðla á Íslandi, sagði í gær fjölmiðla ekki eiga að þola inngrip af hálfu ríkisvaldsins vegna ritstjórnarstefnu, efnistaka eða heimildarmanna sinna. „Slíkt er að minni hyggju óviðunandi í lýðræðisríki,“ sagði Kristján.