Maður var nefndur Vladimir Lenin. Hann var rússneskur maður.
Lenin hreifst mjög af hugmyndafræði Karls Marx og þá væntanlega einnig hugmyndafræði þeirra manna sem mynduðu kommúnur og kölluðu sig því kommúnista áður en Marx kom fram á sjónarsviðið. Lenin skrifaði fjölmargar bækur um nefnda hugmyndafræði og segja sumir að hann hafi átt eins mikinn þátt í að skapa þessi „trúarbrögð“ og Marx sjálfur, enda eru ýmsir sem kalla sig leninista.
Á tímabili í kringum aldamótin 1900 starfrækti Lenin byltingarskóla í París (ólöglegan og því neðanjarðar). Þar mun hann hafa kennt t.d. hvernig fámennur hópur kommúnista ætti að starfa í landi með hefðbundið stjórnarfar. Fyrsta boðorðið var náið völdum í verkalýðshreyfingunni og ef engin slík hreyfing er til í landinu þá stofnið hana einfaldlega í hvelli, beitið henni síðan til að stunda efnahagslega skemmdarstarfsemi, valda ringulreið og öryggisleysi, svo íhaldsstjórnin ætti fullt í fangi með að redda efnahagsmálunum frá einum tíma til annars. Spillið fyrir þeim eins og hægt er og látið þá aldrei hafa frið. Látið þá hafa sem mest fyrir því að halda völdunum.
Þetta kenndi Lenin og kommúnistar á Íslandi fóru nákvæmlega eftir þessu. Þeir náðu fljótlega völdum í hinum tiltölulega friðsömu verkamannafélögum sem stofnuð höfðu verið. Þá var líka friðurinn úti. Kommúnistar fóru að gera kröfur sem ekki var hægt að ganga að í miðri heimskreppunni, var þá efnt til óeirða og slagsmála, sumir höfðu jafnan barefli með sér á svona fundi ef krepptir hnefar skyldu ekki duga. Íhaldið lét loks undan og setti lög um verkföll og vinnudeilur.
Verkalýðshreyfingin öðlaðist verkfallsrétt og þar með má segja að kommúnistar hafi fengið hið endanlega vald í landinu. Nú gátu kommúnistar þvingað stjórnvöld til að samþykkja næstum hvað sem var aðeins með því að sitja nógu lengi í verkfalli. Opinberlega var hamrað á slæmum lífskjörum í landinu en hinar pólitísku kröfur voru gjarnan settar fram á lokuðum samningafundum sem hófust helst ekki fyrr en pólitísk stjórnvöld komu að borðinu.
Því var alltaf haldið fram að tilgangurinn með verkföllunum væri að bæta lífkjör fólksins. En það var einfaldlega blekking, allir hljóta að sjá að ekki kom til greina að bæta lífskjörin og ganga þannig í lið með íhaldinu, hjálpa íhaldinu að halda uppi góðum lífskjörum. Stjórnvöldin yrðu vinsæl og gætu setið að völdum til eilífðarnóns, en verkalýðsforingjarnir sjálfir yrðu áhrifalausir og óþarfir með öllu. Kjarasamningar hafa aldrei verið annað en fjárkúgun. Verkfall er hliðstætt því að miða byssunni á höfuð fyrirtækjanna og hrópa: „Peningana eða lífið“. Rétt eins og göturæningi í húsasundi.
Afleiðingarnar af þessum vinnubrögðum voru auðvitað ekkert annað en verðbólga og aftur verðbólga, þótt verkalýðsforsprakkarnir hafi að sjálfsögðu aldrei viljað viðurkenna það. Með verkfalli er verið að kúga fyrirtækin til að borga meira fyrir það sama sem þau fengu áður. Þótt menn fái meiri peninga með þessu móti þá leggja þeir ekkert meira á móti, því vinnan er sú sama að öllu leyti. Menn vinna sömu störfin eins og ekkert hafi í skorist, afköstin eru þau sömu, allt er við það sama nema að nú þarf launagreiðandinn að borga fleiri krónur fyrir það sama sem hann fékk áður. Launahækkunin kemur því fyrir nákvæmlega ekki neitt.
Ekki verður annað séð en krónan hafi minnkað, það er þarna sem gengið fellur í raun. Menn hafa verið að meta peningana minna en ekki vinnuna meira. Það er raunverulega svo í viðskiptum að það er kaupandinn sem ræður verðinu. Ef honum líka ekki verðið þá kaupir hann ekki. Venjulegt fólk fer svona að á hverjum degi. Verslanirnar eru fullar af vörum en fólk kaupir aðeins það sem það hefur efni á.
Nú um stundir er mikið fárast út af ofbeldi. Ofbeldi á heimilum, ofbeldi á götum úti, ofbeldi á vinnustöðum, að ógleymdu kynferðisofbeldi, en þó þykir ofbeldi í kjarasamningum sjálfsagt, þó það sé löglegt. Þar á við máltækið „löglegt en siðlaust“. Menn spyrja gjarnan: „Hvað áttum við annað að gera?“
Svarið finnst með því t.d. að spyrja hvað aðrar þjóðir gerðu. Gjaldmiðlar allra nágrannalandanna eru mörgum sinnum verðmeiri en íslensk króna. Og það er ekki krónunni að kenna!
Vissulega hafa lífskjör batnað og það þrátt fyrir „kjarabaráttu“ kommúnista. Lífskjörin hafa batnað fyrst og fremst fyrir áhrif tækninnar. Tæknin eykur afköst og aukin framleiðsluafköst eru það eina sem getur bætt lífskjörin yfirleitt.
Það má t.d. sjá þegar vel fiskast; efnahagur batnar.
Höfundur er blaðburðarkarl og fv. bóndi.