Formaðurinn Jón Steindór Valdimarsson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur boðað til fundar í nefndinni vegna lögbannsins.
Formaðurinn Jón Steindór Valdimarsson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur boðað til fundar í nefndinni vegna lögbannsins. — Morgunblaðið/Eggert
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur boðað til fundar í nefndinni á morgun, fimmtudag, vegna lögbanns Sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggir á gögnum innan úr gamla Glitni.

Þingmenn Pírata og VG í nefndinni óskuðu í fyrradag eftir fundi. Jón Steindór segir að fundurinn á morgun verði opinn fjölmiðlum.

Í viðtali við mbl.is í gær sagði Jón Steindór að hann teldi það mikið umhugsunarefni að störf fjölmiðils væru stöðvuð með lögbanni. Þetta myndi nefndin ræða á fundi sínum í fyrramálið og jafnframt hvort gera þyrfti eitthvað til þess að slíkt kæmi ekki upp aftur.

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Jón Steindór í gær hvað annað en að ræða málið nefndin gæti gert á fundinum í fyrramálið:

„Þetta er góð spurning,“ sagði Jón Steindór og hló við en sagði svo:

„Nefndin hefur auðvitað ekkert boðvald yfir einum né neinum. Þingið hefur verið sent heim og ég teldi afar ólíklegt að það yrði kallað saman og það gerði eitthvað, ef menn eru að hugsa um einhverjar lagabreytingar. Slíkt getur aldrei gerst fyrr en síðar. Það sem við getum gert er að reyna að kynna okkur málið og reyna að varpa ljósi á þær myndir sem uppi kunni að vera.“

„Stórmál fyrir fjölmiðla“

Jón Steindór var spurður hvort hann teldi ekki líklegt að þessi fundarboðun nefndarinnar níu dögum fyrir kosningar, að beiðni Pírata og VG, yrði til þess að ásakanir kæmu fram um að Píratar, VG og Viðreisn væru að nota þetta mál í pólitískum tilgangi:

„Sjálfsagt munu einhverjir halda því fram. Nú er stutt í kosningar og það er ekkert óviðbúið að slíkt komi fram. Fyrir fram hafna ég því að svo sé. Hérna er auðvitað stórmál fyrir fjölmiðla að ræða. Hér er verið að stíga inn í frelsi þeirra til að upplýsa almenning í stóru máli. Auðvitað er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn bað ekki um lögbannið. Það liggur alveg fyrir. Þessi umfjöllun nefndarinnar snýst því alls ekki um neinn stjórnmálaflokk, heldur um það að framkvæmdavaldið, þ.e. sýslumaður, verður við lögbannskröfu sem hefur mikil áhrif,“ sagði Jón Steindór.