Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Eftir Jónas Haraldsson: "Sér hann greinilega sjálfan sig sem riddarann á hvíta hestinum, sem kemur sem frelsandi engill til að bjarga alþýðunni frá pólitískum glundroða og upplausn í þjóðfélaginu."

Hinn nýi stjórnmálaflokkur, Miðflokkurinn, kynnti nýlega flokksmerki sitt, sem er hvítur prjónandi hestur, sem á að vera táknmynd, logo, fyrir þennan stjórnmálaflokk. Hefur formaður flokksins, Sigmundur Davíð, lýst því fyrir hvað þetta flokksmerki eigi að standa, með mörgum fögrum og háfleygum orðum. Sér hann greinilega sjálfan sig sem riddarann á hvíta hestinum, sem kemur sem frelsandi engill til að bjarga alþýðunni frá pólitískum glundroða og upplausn í þjóðfélaginu. Þá hefur listamaðurinn Goddur líka tjáð sig á svipuðum nótum og tengt merkið m.a við ljóð höfuðskálda Íslands í hástemmdum lýsingum og við „rómantíska fagurfræði“ og sér þar samhengi milli þess og hrossins. Ekki er ég sjálfur sammála þeim og veit um marga fleiri sömu skoðunar og erum við þá kannski nær yfirborði jarðar en tvímenningarnir. Rétt er þó að geta þess hér, að í sjálfu sér er þó ekki verið að amast við stofnun þessa flokks eða klofninginn úr Framsóknarflokknum, ekki síst ef svo heppilega tækist til að sá flokkur þurrkaðist út af þingi. Er ég þá ekki að gera lítið úr sjálfum þingmönnum Framsóknarflokksins.

Þar sem ég er ekki hestamaður og umgengst ekki hross, þá yrði ég sjálfur skíthræddur við prjónandi ótaminn hest, að hann gæti slegið mig í bramboltinu, sem leiddi til þess að ég og þá fleiri mér sama sinnis þyrðum ekki að koma nálægt hestinum, sem væri alltaf tilbúinn að rísa styggur upp á afturlappirnar og vera með uppsteyt. Ekki getur það verið, að það eigi að verða það hugarástand, sem eigi að skapa hjá kjósendum með þessu flokksmerki og þá um leið ábending þessa flokks til þeirra að koma ekki nálægt flokknum ella geti þeir skaðast eða hlotið verra af. Það sem er þó að mínu mati óheppilegast við þetta flokksmerki er, að kjósendur gætu litið svo á, að þetta hestamerki megi í raun líta á sem tákn fyrir væntanlega þingmenn Miðflokksins, þ.e. að þeir séu tréhestar sem muni stunda hrossakaup í miðjumoði. Einnig hafa menn líka velt því fyrir sér, hvort þetta flokksmerki sé stolið eða stílfært merki einhverrar bifreiðategundarinnar eða hugmyndin sé fengin einhvers staðar annars staðar frá. Klúður í fyrsta skrefi. Þá verður alltaf að hafa það hugfast, að táknmerki er enn viðkvæmara hvað gagnrýni snertir en illa samdar auglýsingar, sem má auðveldlega breyta og bæta, en táknmerkið stendur óbreytt.

Hvaða augum svo sem menn líta þetta flokksmerki Miðflokksins, þá má aldrei áður en farið er af stað leyfa sér þann munað að muna ekki eftir gárungunum, sem ég er sí og æ að vara við. Þeir eru að venju alltaf tilbúnir að snúa út úr öllu, og hlífa engum, eins og dæmin sýna og sanna. Flokksmerki, tákn stjórnmálaafls, þarf að vera skothelt og ekki síst gagnvart þessum náungum. Þetta flokksmerki er það alls ekki, eins og ég hef rakið og mun væntanlega koma æ betur í ljós þessa dagana fyrir kosningar. Segir það sig sjálft, að þessi nýi stjórnmálaflokkur má alls ekki við því, að gefa svona auðvelt höggfæri á sér, þannig að athyglin og áhuginn á flokknum kunni að beinast ekki síst að því að skemmta skrattanum með útúrsnúningum vegna þessa óheppilega flokksmerkis. Það leiðir væntanlega í framhaldinu af sér gagnrýni á málefnin, sem flokkurinn vill standa fyrir og koma á framfæri. Ég ítreka að endingu. Gleymið ekki tilvist gárunganna, áður en göslast er af stað. Muna skal spakmælið: Í upphafi skal endinn skoða.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jónas Haraldsson