Axel Kristjánsson
Axel Kristjánsson
Eftir Axel Kristjánsson: "Að undanförnu hafa fjölmiðlamenn haldið á lofti því siðferði, að frjálst sé að stela gögnum einstaklinga og opinberra aðila og nýta þau til birtingar í fjölmiðlum, oft í pólitískum tilgangi."

Í fréttum sjónvarps RÚV að kvöldi 16. október var fjallað um lögbann, sem sýslumaður lagði á fyrirhugaða fréttabirtingu, byggða á gögnum, sem viðkomandi fréttamiðill hafði komist yfir og varðaði viðskipti einstaklinga við Gamla Glitni fyrir hrun, hafi ég skilið rétt.

Aðspurður hvort fréttin væri ekki byggð á stolnum gögnum svaraði talsmaður Reykjavík Media, að hann vissi ekki, hvaðan gögnin hefðu borist. Líklegt er, að maðurinn fari þarna með ósannindi í þeim tilgangi að verja heimildarmann sinn, sem að öllum líkindum hefur misnotað aðstöðu sína til að stela þessum gögnum, ef til vill tölvuhakkari. Ljóst er af svari talsmanns Reykjavík Media, að hann vissi, að gögnunum hafði verið stolið.

Talsmaður Reykjavík Media sagði einnig í þessu viðtali, að brýna nauðsyn bæri til að birta frétt þessa fyrir kosningar.

Tilgangur þessa fréttaflutnings er því sá að reyna að hafa áhrif á niðurstöður kosninga til Alþingis Íslendinga með því að ráðast á formann eins stjórnmálaflokks á grundvelli gagna, sem hann veit ekki, hver stal, og veit því líklega ekki heldur, hversu áreiðanleg þessi gögn eru. Vandaður fréttaflutningur?

Frammámenn í stétt blaðamanna hafa brugðist ókvæða við þessum tíðindum, og hafa meira að segja gengið svo langt, að ráðast á starfsmann sýslumanns, sem fer að þeim lögum, sem gilda á Íslandi.

Ekki kemur þetta á óvart. Að undanförnu hafa fjölmiðlamenn haldið á lofti því siðferði, að frjálst sé að stela gögnum einstaklinga og opinberra aðila og nýta þau til birtingar í fjölmiðlum, oft í pólitískum tilgangi. Oftast er augljóst, hvaða hvatir liggja þar að baki.

Enginn hefur velt upp þeirri spurningu, hvort fé sé borið á menn í þessum tilgangi. Hitt er augljóst, að fjölmiðlamenn hafa séð fjárhagslegan ávinning síns miðils með því að birta stolin gögn. Þeir hafa gengið svo langt að tala um árás á prentfrelsi en vilja ekki kannast við, að prentfrelsi hefur sín takmörk, sem þeim ber að virða.

Ekki er merkilegt siðferði manna, sem stela gögnum, sem þeim hefur verið trúað fyrir, og ekki er merkilegt siðferði þeirra manna, sem birta stolin gögn í sínum miðlum til að afla sér vinsælda og fjár og til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga til Alþingis Íslendinga.

Höfundur er lögmaður. akri@internet.is

Höf.: Axel Kristjánsson