Pétur Hólm Karlsson bifreiðastjóri fæddist 30. desember 1920 í Reykjavík. Hann lést á Dvalarheimilinu Grund 4. október 2017.

Foreldrar Péturs voru Guðlaug Pétursdóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 27. mars 1882, og Karl Lúðvík Guðmundsson verkamaður, f. 14. júní 1894. Systkini Péturs voru Guðrún Helga og Guðmundur Stefán.

Pétur kvæntist Kristólínu Guðmundsdóttur (Diddu) frá Nýju-Búð í Eyrarsveit, f. 26. ágúst 1924, d. 21. apríl 1991. Börn þeirra eru Guðlaug Erla, f. 8. júlí 1947, Alda og Bára, f. 10. janúar 1950, og Sævar Hólm, f. 13. nóvember 1954. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin eru orðin átta.

Útför Péturs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. október 2017, klukkan 11. Jarðsett verður í Grundarfjarðarkirkjugarði klukkan 17.

Auðvitað varð afi allra karla elstur. Afi sem synti á hverjum degi og gekk á skíðum þar til hann var komin fast að níræðu. Afi sjarmör með svarta hárið sem bara neitaði að þynnast eða verða grátt. Afi sem háaldraður eldaði ofan í sig, kláraði uppvaskið og hljóp upp þrjár hæðir á Baldursgötunni svo hratt að við barnabörnin urðum lafmóð við að reyna að halda í við hann.

Minningabrotin eru óteljandi: London Docks-lyktin í leigubílnum; sposki svipurinn og glampinn í augunum þegar hann rifjaði upp sögurnar sínar; vasagreiðan sem alltaf var á sínum stað; þægilega nærveran og heitu hendurnar sem gott var að láta geyma sínar; hljómsterka bassaröddin sem söng Dalakofann; allar vísurnar og ljóðin, „Sex eru taldir synir Bergs á sigluhundi...“

Afi lifði gríðarlegar samfélagsbreytingar og tók þeim af aðdáunarverðri víðsýni. Hann var leigubílstjóri í áratugi. Leigubílstjórar hafa einstaka innsýn í samfélagið, vita og skilja meira en flestir. Þeir eru með fólkið í aftursætinu og eru á ferðinni þegar fæstir aðrir eru það. Afi var náttúrlega svo vandaður fagmaður að hann var ekkert að blaðra um einn eða neinn, en reynslan og svo aldurinn gaf honum honum djúpan skilning á því hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig. Afi var æðrulaus, hann leit til baka og endaði allar sögur á orðunum: „Þetta var bara svona.“

Undir lokin talaði hann um að sinn tími væri kominn. Samferðafólk hans flest löngu búið að kveðja þetta jarðlíf. Aldarfjórðungur síðan amma fór. Hann var náttúrlega enn með allt hárið og líklega myndarlegasta gamalmenni landsins, en honum þótti nóg komið af þessu langlífi öllu saman. Hann var sáttur.

Elsku afi, takk fyrir samveruna og hlýjuna. Þetta var bara svona.

Brynhildur og Þórhildur.

Kær vinur og samferðamaður, Pétur Hólm Karlsson, er fallinn frá, 96 ára gamall. Hann átti langa og viðburðaríka ævi. Hann lifði það að sjá þjóðfélagið breytast úr kotbúskap og braggahíbýlum, fátækt og örbirgð í almenna velsæld. Hann upplifði heimsstyrjöld og miklar breytingar á heimsmálunum. Pétur var mikið hraustmenni og varð sjaldan misdægurt og engan þekki ég sem var eins vinnusamur, enda byrjaði hann að vinna fyrir mat sínum á barnsaldri eins og þá tíðkaðist oft. Hann vann mörg störf og var m.a. strætisvagnabílstjóri og ók leigubíl þar til hann hætti akstri sökum aldurs. Þeir voru ekki margir frídagarnir sem hann tók. Hann byggði ásamt bróður sínum sex íbúða hús á Baldursgötu í Reykjavík og voru það mikil viðbrigði að flytja úr litla bakhúsinu þar sem móðir hans bjó í nýbyggt hús. Hann bjó á Baldursgötunni nánast alla ævi.

Ég kynntist Pétri og eiginkonu hans Diddu, sem lést fyrir 27 árum, þegar við Sævar sonur þeirra fórum að búa í íbúð sem þau áttu á Baldursgötunni, á hæðinni fyrir neðan þau. Þegar við Sævar slitum samvistum þá bjó ég áfram hjá Pétri og Diddu ásamt börnunum, Pétri og Hörpu. Sambúðin var góð, þau báru okkur á höndum sér og studdu í hvívetna. Iðulega vorum við í mat hjá þeim og barnabörnin áttu öruggt skjól þegar ég var að vinna. Á sumrin voru barnabörnin í sveitinni með þeim, í yndislegum bústað í Grundarfirði sem Didda dvaldi oftast sumarlangt í. Ég naut þeirrar gæfu að vera ávallt velkomin og voru það bestu sumarleyfi sem hugsast gat. Samveran við þau hjón var byggð á innilegri vináttu sem rofnaði aldrei. Eftir að Pétur varð ekkill þá bjó hann einn en var studdur af góðri fjölskyldu og hann sinnti sínum áhugamálum, hann gekk mikið og fór í sundlaugarnar og í kaffi með félögunum. Hann var mjög fróður og honum fannst gaman að segja sögur, fara með vísur og heilu sönglögin. Hann bjó á Baldursgötunni þar til heilsu hans hafði hrakað þannig að erfitt var að búa einn og fluttist hann á hjúkrunarheimilið Grund fyrir tveimur og hálfu ári. Þar leið honum vel og hann eignaðist góða vini og gott var að heimsækja hann þar, standandi kaffiborð alla daga og gott að sitja í garðskálanum eða úti í sólinni með góðum vini sem alltaf var glaður við gestakomur. Langafabörnunum þótti gaman að heimsækja Pétur afa og munu þau sakna þeirra stunda eins og við hin sem nutum samvista við hann. Ég kveð góðan vin, sem auðgaði líf mitt, með söknuði og bið honum góðrar heimkomu.

Hanna Margrét.