Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Ekkert ósætti, óréttlæti, yfirgangur eða hryðjuverk gera okkur viðskila við kærleika Guðs. Ekki fellibyljir, snjóflóð, jarðskjálftar, eldgos eða flóð."

Okkur var aldrei lofað auðveldri ævi. Það eina sem öruggt var þegar við fengum dagsbirtuna í augun var að fyrr eða síðar myndu augu okkar bresta og hjartað hætta að slá.

Það eina sem okkur var lofað að morgni lífsins var eilíf samfylgd af höfundi þess og fullkomnara.

Viðskila við kærleikann

Ekkert skapað eða áunnið, engin manneskja, tól eða tæki, vísindi eða uppfinningar, engin þrenging og ekkert böl, hvorki hæfni né vanmáttur, skuldir, gjaldþrot, eignatjón eða nokkurt hagkerfi getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs.

Hvorki svikin loforð nánustu fjölskyldu, vina eða vandamanna, stjórnmálamanna eða annarra. Hvorki rangar ákvarðanir, fátækt né höfnun. Ekki kraftar, hæð né dýpt nokkurs fárviðris eða annarra náttúruhamfara, fjármálakerfis eða efnahagsvísitölu. Hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna. Ekkert ósætti, óréttlæti, ójöfnuður, heimska, yfirgangur, öfgar eða fálæti, mikilmennskubrjálæði eða hryðjuverk gera okkur viðskila við kærleika Guðs.

Já ekkert fárviðri, fellibyljir, snjóflóð, jarðskjálftar, eldgos, vatns- eða sjóflóð. Og það sem meira er: ekki heldur nein slys, sjúkdómar eða plágur. Ekkert einelti, ofbeldi, önnur niðurlæging, vonbrigði eða höfnun.

Jafnvel ekki einu sinni sjálfur dauðinn, sem sannarlega er þó okkar síðasti óvinur sem að engu verður gjörður, getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. Lífið sem við vorum kölluð til og eigum saman vegna upprisu Jesú Krists frá dauðum. Já, lífið sjálft í hinni himnesku tæru mynd sem við sjáum nú aðeins svo sem í skuggsjá, í ráðgátu en munum um síðir fá að upplifa og njóta í hamingju, dýrð og friði sem vara mun um alla eilífð.

Lifum í kærleika og friði

Látum því stjórnast af kærleika Guðs. Af ást hvert til annars en ekki af Mammon, fýsnum og girnd eða stundlegum þröngsýnum þörfum sérhagsmuna.

Ég veit ekkert dýrmætara en fá að þiggja þennan óskiljanlega og ólýsanlega kærleika Guðs. Fá að meðtaka hann og hvíla í honum og þeim friði sem honum fylgir. Í trausti þess að höfundur og fullkomnari kærleikans og friðarins muni vel fyrir sjá.

Þess vegna finnst mér svo gott að vita til þess að mega beina sjónum mínum daglega í bæn til himins; þangað sem svörin er að finna, þótt ég skilji þau ekki núna nema að mjög svo takmörkuðu leyti. Til himins, þangað sem friðurinn fæst. Og fá kannski, þótt vissulega í veikum mætti sé, að vera farvegur kærleika, samstöðu og friðar hér á jörð. Samferðafólki til uppörvunar, hvatningar og blessunar.

Stöndum saman í kærleika og friði. Við erum nefnilega hvert og eitt valin til að vera saman í liði lífsins. Gefum kost á okkur og látum um okkur muna.

– Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson