Fræðari Jórunn Sigurðardóttir segir frá bókum.
Fræðari Jórunn Sigurðardóttir segir frá bókum.
Á Rás 1 Ríkisútvarpsins heldur Jórunn Sigurðardóttir úti mikilvægum og fræðandi menningarþætti um bókmenntir, Orð um bækur.

Á Rás 1 Ríkisútvarpsins heldur Jórunn Sigurðardóttir úti mikilvægum og fræðandi menningarþætti um bókmenntir, Orð um bækur. Nú þegar fellur að og flóð jólabókanna er að skella á okkur lesendum er hún tekin að taka viðtöl við reynda sem óreynda höfunda og segja frá ólíkum nýjum bókmenntaverkum. Jórunn hefur auðheyranlegan áhuga og ástríðu fyrir viðfangsefninu og það skilar sér í umfjölluninni, eins og vera ber, enda er góð umræða um bækur og kynning af þessu taki mikilvæg á Rás 1.

Þá fjallar Jórunn eins og fyrri ár ítarlega um þær bækur sem tilnefndar eru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og er það einnig mikilvæg þjónusta hjá þessum menningarmiðli okkar landsmanna. Jafn eðlilegt og það er að vera ósammála um verðlaun í listum geta tilnefningar sem þessar vakið athygli á höfundum og verkum sem verðskulda umræðu en þó fyrst og fremst lestur.

Og allt snýst þetta um lestur og ánægjuna sem felst í því að láta slynga höfunda opna fyrir sér nýja heima. Fleiri bókmenntaþættir á Rás 1 gleðja þannig eyrun; Bók vikunnar er einn sem þessi hlustandi reynir að heyra í hvert sinn – þótt hann sé alls ekki alltaf sammála spekingunum sem þar spjalla. En það er annað mál.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson