Leit Myndin var tekin þegar leit stóð yfir að Artur Jarmoszko sem saknað var frá 1. mars á þessu ári. Bók um mannshvörf kemur út á næsta ári.
Leit Myndin var tekin þegar leit stóð yfir að Artur Jarmoszko sem saknað var frá 1. mars á þessu ári. Bók um mannshvörf kemur út á næsta ári. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Saknað - Íslensk mannshvörf 1930-2018 er vinnuheiti bókar Bjarka H. Hall sem á að koma út á seinni hluta næsta árs. Bjarki hefur unnið að ritun bókarinnar í frístundum sínum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Saknað - Íslensk mannshvörf 1930-2018 er vinnuheiti bókar Bjarka H. Hall sem á að koma út á seinni hluta næsta árs. Bjarki hefur unnið að ritun bókarinnar í frístundum sínum.

„Elsta mannshvarfið sem ég ætla að fjalla um, að öllu óbreyttu, varð árið 1930,“ sagði Bjarki. „Mér sýnist að frá 1920 og til dagsins í dag hafi 70-80 manns horfið sporlaust hér á landi. Þessi mannshvörf voru misjafnlega dularfull.“

Bjarki kvaðst stefna að því að fjalla sérstaklega um 20-30 mál í bókinni, sum í stuttu máli og önnur í lengra máli.

Fjórir hurfu á einu ári

Sum mannshvörfin hafa legið þungt á þjóðarsálinni eins og þegar þeir Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hurfu báðir árið 1974. Tvö önnur dularfull mannshvörf urðu einnig á því sama ári og því stendur árið 1974 upp úr sem það ár þegar flest mannshvörf urðu, á fyrrgreindu tímabili, að sögn Bjarka.

Flestir sem hafa horfið hafa átt heima í þéttbýli, m.a. hafa nokkur mannshvörf orðið í Vestmannaeyjum og eins á Suðurnesjum. Karlar eru í miklum meirihluta hinna horfnu. Fjórir þeirra voru útlendingar.

Bjarki kvaðst vera alveg öruggur um nöfn tveggja kvenna sem hafa horfið frá 1920. Hann er með nöfn fjögurra kvenna til viðbótar sem hann þarf að kanna betur.

Bjarki ætlar að vinna að heimildaöflun til næstu áramóta. Hann hefur leitað fanga í rituðum heimildum, m.a. á vefnum timarit.is, og eins í sjónvarpsþáttum um mannshvörf. Þá hefur hann rætt við aðstandendur sumra þeirra sem hurfu og ætlar að taka fleiri viðtöl eftir áramót.

Bjarki er með síðu á Facebook, Íslensk mannshvörf, og segir þar frá því hvernig vinnunni miðar og fjallar einnig um mannshvörf. Hann er með tölvupóstfangið mannshvarf@gmail.com og þiggur með þökkum allar ábendingar og upplýsingar sem fólk kann að hafa.