Píratar kynntu í gær tillögu sína til fjárlaga fyrir löggjafarþingið 2017 til 2018, svonefnd skuggafjárlög, og kemur þar m.a. fram að tekjur vegna veiðigjalds fyrir veiðiheimildir fari úr 5,5 milljörðum króna vegna fjárlaga ársins 2017 í 12 milljarða króna. Nemur hækkun þessi um 117%. Þá vilja þeir einnig hækka tekjur gistináttaskatts úr 745 milljónum í tvo milljarða, en sú hækkun nemur 168%, auk þess sem þeir reikna með að tekjur vegna sölu á heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda fari úr 290 milljónum króna í 790 milljónir. Sú aukning nemur 172%.
„Enginn flokkur ræður einn,“ er haft eftir píratanum Helga Hrafni Gunnarssyni í tilkynningu frá flokknum. „Við leggjum þetta því fram sem upphaf að samtali við landsmenn og aðra flokka. Þetta eru okkar áherslur.“
Í áðurnefndri tilkynningu eru útlistuð nokkur af helstu áherslumálum Pírata fyrir komandi alþingiskosningar. Eru þar húsnæðismál ofarlega á lista. „Píratar vilja gera stórátak í húsnæðismálum og verja minnst 11 milljörðum strax á næsta ári til að byrja að vinna upp mörg þúsund íbúða skort. Stærstum hluta þessara fjármuna verður varið í uppbyggingu félagslegs húsnæðis í samvinnu við húsnæðissamvinnufélög og við fyrirtæki sem byggja smærri íbúðir á lágu fermetraverði, sérstaklega til langtímaleigu,“ segir þar.