Störf Atvinnuþátttaka mælist 87% hér á landi og nær engin önnur OECD-þjóð 80% markinu skv. samanburði OECD á vinnumarkaði í 35 löndum.
Störf Atvinnuþátttaka mælist 87% hér á landi og nær engin önnur OECD-þjóð 80% markinu skv. samanburði OECD á vinnumarkaði í 35 löndum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Atvinnuþátttaka í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD er hvergi meiri en hér á landi samkvæmt nýjum samanburði OECD.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Atvinnuþátttaka í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD er hvergi meiri en hér á landi samkvæmt nýjum samanburði OECD. Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 15 til 64 ára var 86,9% hér á landi á öðrum fjórðungi þessa árs skv. tölum um atvinnuþátttöku í 35 löndum, sem OECD birti í gær.

Eru Íslendingar eina þjóðin þar sem atvinnuþátttakan mælist yfir 80%. Meðaltalið í OECD er 67,6%. Atvinnuþátttaka er mæld þannig að taldir eru með bæði þeir sem eru við störf og fólk sem er í atvinnuleit. Þetta er langt í frá í fyrsta sinn á umliðnum misserum sem Ísland trónir á toppnum hvað varðar atvinnuþátttöku beggja kynja en samanburður yfir nokkurra ára tímabil leiðir í ljós að atvinnuþátttakan hefur farið ört vaxandi á seinustu árum.

Fram kemur að hlutfall fólks á vinnualdri sem er á vinnumarkaði hefur þó víðast hvar aukist lítið eitt á fyrri hluta ársins og hefur atvinnuþátttaka í OECD-löndunum vaxið um 3,2 prósentustig frá 2009. Hér á landi hefur atvinnuþátttakan aukist úr um 81% í tæp 87% á fjórum árum.

Ef virkni á vinnumarkaði er skoðuð eftir kynjum kemur í ljós að atvinnuþátttaka 15 til 64 ára karla á Íslandi hefur verið nálægt 90% á síðari hluta seinasta árs og á fyrri hluta þessa árs. Þetta er meiri þátttaka en í nokkru öðru landi en fjórar aðrar þjóðir ná þó um eða rétt yfir 80% atvinnuþátttöku meðal karla (t.a.m. 84,6% í Sviss og 82,9% í Japan).

Enn meiri munur er hins vegar á atvinnuþátttöku kvenna í þessum samanburði. Hér á landi mældist 83,8% atvinnuþátttaka kvenna á öðrum ársfjórðungi 2017. Konur í Svíþjóð mælast í öðru sæti, þar sem atvinnuþátttakan var 75,3%. Að meðaltali voru tæp 60% kvenna í OECD-löndunum á vinnumarkaði á sama tíma og atvinnuþátttaka kvenna í löndum Evrópusambandsins mældist 62,3%. Til samanburðar var atvinnuþátttaka kvenna í Bandaríkjunum 64,8% á þessum tíma, 58,5% í Belgíu, 60,5% á Írlandi, 55,6% á Spáni og 71,1% í Þýskalandi svo dæmi séu tekin.

Eðli máls samkvæmt er atvinnuþátttakan langmest meðal fólks á aldrinum 25 til 54 ára en þó hvergi meiri en hér á landi þar sem 90,2% þessa aldurshóps voru á vinnumarkaði á öðrum fjórðungi yfirstandandi árs.

Margar þjóðir ná 80% markinu þegar atvinnuþátttaka afmarkast við fólk á aldrinum 25 til 54 ára en meðaltalið í OECD er 77,7%.

Yngstu og elstu aldurshóparnir á Íslandi skera sig úr

Fjölbreytilegri mynd blasir hins vegar við þegar atvinnþátttaka yngstu og elstu aldurshópanna á vinnumarkaði er mæld. Ísland sker sig sem fyrr úr í samanburði á atvinnuþátttöku fólks sem er komið á eða er að nálgast eftirlaunaaldur. Hér á landi var atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55 til 64 ára 83% á öðrum fjórðungi ársins. Innan Evrópusambandsins voru 57% fólks á þessum aldri virk á vinnumarkaði á sama tíma. Sé litið á einstök lönd til samanburðar þá var atvinnuþátttaka 55-64 ára 69,5% í Danmörku, 72% í Noregi, 51,4% í Frakklandi og aðeins um helmingur Spánverja og 37,9% Grikkja á þessum aldri töldust vera virk á vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi 2017.

Hér á landi mælist einnig mikil atvinnuþátttaka meðal yngstu aldurshópanna ólíkt flestum öðrum þjóðum. Á öðrum ársfjórðungi var atvinnuþátttakan 80,4% meðal Íslendinga á aldrinum 15 til 24 ára. Fá lönd í samanburðinum ná 50% markinu í þessum aldurshópi. Aðeins einn af hverjum þremur sem eru á þessum aldri í löndum Evrópusambandins telst virkur á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka 15 til 24 ára mælist um 50% í Bandaríkjunum, 56,1% í Danmörku, 28,3% í Frakklandi og 44,4% í Svíþjóð.